fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
Fókus

Skagfirskur galdramaður

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 19. maí 2019 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1927 lá Jónas Jónsson, bóndi í Hróarsdal í Skagafirði, háaldraður á banalegunni. Hann átti áhugaverðari og sérkennilegri ævi en margur annar bóndi í sveitinni og Íslandi ef út í það er farið. Hann var sagður vera göldróttur, átti galdrabók og stundaði lækningar. Hann var ómenntaður ljósfaðir og tók á móti hundruðum barna og átti fjölmörg sjálfur. Auk þess var hann skáld, leikritahöfundur, smiður og stjórnmálamaður. Verður hér stuttlega gerð grein fyrir ævi hins skagfirska galdramanns.

 

Eignaðist 33 börn

Jónas Jónsson var fæddur þann 20. septembermánaðar árið 1840 í Hróarsdal í Hegranesi. Foreldrar hans voru bændur þar. Jónas tók við búskapnum og kvæntist fyrstu eiginkonu sinni, Sigurbjörgu Sveinsdóttur, árið 1863. Var það ástríkt hjónaband en barnlaust. Önnur kona Jónasar var Elísabet Gísladóttir og var það hjónaband mun frjórra. Eignuðust þau tólf börn en Elísabet lést árið 1894. Þriðja eiginkona Jónasar var Lilja Jónsdóttir, sem var 32 árum yngri en hann. Þau gerðu betur og eignuðust 13 börn. Er þar ekki lokið upptalningu á börnum Jónasar því átta átti hann utan hjónabands og voru börnin því 33 talsins. Komust þau langflest á legg og urðu mörg langlíf. Árið 1985, þegar 145 ár voru liðin frá fæðingu Jónasar, greindi Þjóðviljinn frá því að sex börn hans væru enn á lífi.

Hjónin í Hróarsdal
Jónas og Lilja, þriðja kona hans.

Tók á móti 500 börnum

Jónas gekk aldrei menntaveginn en sankaði að sér fróðleik engu að síður, héðan og þaðan. Hann las bæði íslensk og erlend rit og var einn mesti tungumálamaður í bændastétt síns tíma. Sérstakan áhuga hafði Jónas á læknisfræði og stundaði lækningar þótt engin prófgráða væri til staðar. Jónas gerði þetta af hugsjón fremur en til gróða, og hann leyfði sjúklingum sínum að ákveða hversu mikið þeir borguðu honum fyrir viðvikið og meðölin. Oft voru launin ekki mikil.

Lengi lá hann yfir bókum um sjúkdóma og reyndi að búa sjálfur til meðöl við þeim. Sagt er að hann hafi búið til formúlu til að slá á kíghósta. Einnig fór það orð af Jónasi að hans remedíur virkuðu betur en margra lærðra lækna og að fólk hefði læknast af illkynja sjúkdómum eftir að hann tók við meðhöndluninni af lærðum. En vitaskuld voru fræðin öðruvísi í þá tíð og sögusagnir áttu það til að verða ýktari þegar þær fóru manna á milli. Jónas beitti óhefðbundnum lækningum, hómópatíu og aðferð sem kölluð er alopaþa-lækningar. Gjarnan notaði hann íslenskar lækningajurtir. Vinsælt var að kalla í Jónas þegar um fæðingar var að ræða. Sagt er að hann hafi tekið á móti fimm hundruð börnum og líklegast öllum sínum eigin. Sagt var að aldrei hefði kona dáið af barnsförum hjá honum.

 

Dverghagur og ritfær

Jónas var ekki aðeins vel lesinn maður heldur var verkkunnátta hans mikil og þótti hann afburðafær í höndunum og iðinn. Smíðaði hann með tré, járni, silfri og jafnvel gulli og var sagður dverghagur. Fá ef nokkur voru þau störf sem hann gat ekki gengið inn í. Ekki varð hann þó ríkur af þessu frekar en lækningunum og auk þess þurftu hann og eiginkonur hans að sjá fyrir risastórum barnahóp. Einnig stundaði Jónas störf fyrir sveitina. Hann sat í sýslunefnd Skagafjarðar í 26 ár og í hreppsnefnd lengi einnig.

Er þá ekki upptalið allt sem Jónas vann sér til frægðar því að ritfær var hann einnig og skáld. Jónas orti fjölmörg ljóð og vísur, skrifaði leikrit og greinar í blöð og tímarit. Hér er dæmi um kveðskap Jónasar, vísan „Eg held bjargist Ísaland.“

Eg held bjargist Ísaland

að þó nokkuð þrengdi,

Ef að bróðurástarband

Alla saman tengdi.

Galdrakver Jónasar
Tíminn 17. júní 1994.

Dularfullt galdrakver

Það undarlegasta sem Jónas festi á blað var af allt öðrum og torskildari meiði. Galdrakver með þulum, rúnum og táknum, 25 blaðsíður í heildina. Ekki er vitað hvenær Jónas skrifaði upp galdrana og ekki er vitað hvort hann skrifaði þá upp eftir öðru riti. Hverju sem því líður vissu Skagfirðingar að Jónas ætti kverið og gekk sú saga í sveitinni að hann væri göldróttur. Sennilega hefur áhugi hans á lækningum og grasameðölum haft sitt að segja varðandi það. Galdrakverið fannst í fórum afkomenda Jónasar og er það nú geymt hjá Stofnun Árna Magnússonar.

Þegar Jónas var kominn á níræðisaldurinn var hann orðinn slitinn og hrumur. Sinakreppa hrjáði hann og lá hann því rúmfastur árum saman. Þó að líkaminn hafi verið farinn að gefa sig var hann ern og ungur í anda. Lést hann loks árið 1927.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Ellý brugðið þegar hún spáði fyrir þátttöku Íslands í Eurovision – „Þetta finnst mér sérstakt“

Ellý brugðið þegar hún spáði fyrir þátttöku Íslands í Eurovision – „Þetta finnst mér sérstakt“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Loksins skilin eftir 8 ára hatrammar deilur – Deilur um víngerð halda áfram

Loksins skilin eftir 8 ára hatrammar deilur – Deilur um víngerð halda áfram