Mánudagsblaðið naut mikillar sérstöðu í íslenskri blaðaflóru um áratuga skeið. Blaðið var gróft og fréttirnar oft byggðar á sögusögnum. Þetta var einkennilegur bræðingur af kynferðislegum, og jafnvel klámfengnu efni, og sterkri umfjöllun um hámenningu. Að mestu leyti var blaðið skrifað af einum manni, Agnari Bogasyni, sem var mjög hægrisinnaður og íhaldssamur.
Agnar Bogason gaf Mánudagsblaðið út í rúmlega þrjá áratugi. Hann var fæddur í Reykjavík árið 1921 og uppalinn í miðbænum. Agnar útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1940 og hélt þá vestur til Bandaríkjanna til þess að nema tannlækningar. Hann skipti þá um gír og lauk háskólagráðu í fjölmiðlafræði í Chicago árið 1946. Þegar hann sneri aftur heim var hann stuttan tíma á Morgunblaðinu en stofnaði Mánudagsblaðið árið 1947.
Eins og nafnið gefur til kynna var Mánudagsblaðið vikublað og kom út á mánudögum. Það skar sig verulega úr flórunni á þessum tíma fyrir efnistök og orðnotkun. Mætti segja að blaðið hafi verið það fyrsta hérlendis sem telst til gulu pressunnar. En á þessum tíma voru öll stóru dagblöðin í eigu stjórnmálaflokkanna og íhaldssöm í sinni framsetningu. Agnar var vissulega hægrisinnaður og faldi það ekki, en blaðið var óháð og ekki bundið Sjálfstæðisflokknum eða neinum öðrum stjórnmálaflokki.
Í fyrsta tölublaðinu, sem kom út þann 4. október árið 1948, stóð:
„Enginn pólitískur flokkur né einstaklingur stendur á bak við ritstjórnina til þess að hafa áhrif á stefnu hennar eða hvað má birta og hvað ekki. Blaðið mun leitast við að verða lesendum bæði til gagns og fróðleiks og birta greinar sem snerta almenningshag.“
Strax á fyrstu tölublöðunum sást hins vegar hvar hollustan lá, bæði í innanlandsmálum og utan landsteinanna. Með borgaralegum öflum og gegn vinstrinu.
Mánudagsblaðsins verður hins vegar ekki minnst fyrir þá pólitísku afstöðu sem tekin var. Heldur fyrir fréttir úr daglegu lífi Íslendinga, oft fréttir úr sollinum. Voru fyrirsagnirnar og fréttirnar sjálfar yfirleitt skrifaðar í æsifréttastíl sem var Íslendingum framandi á þeim tíma en var þekktur í Bandaríkjunum. Mikið var skrifað um áfengisdrykkju og lögreglumál henni tengd. Agnar skrifaði sjálfur stærstan hluta blaðsins, og augsjáanlegt að hann var vel tengdur inn í bæjarlífið, hjá leigubílstjórum, vertum og fleiri stéttum. Sjálfur viðurkenndi Agnar að hafa drukkið ótæpilega sjálfur.
Fréttirnar báru þess merki að hann hefði heyrt þetta og hitt frá félögum sínum. Oft voru stórar fullyrðingar um hvernig hinir og þessir hópar höguðu sér án þess að það væri skýrt neitt frekar. Sem dæmi má nefna langa grein frá 20. apríl árið 1970 þar sem fullyrt er að nemendur Verzlunarskólans hafi allir stundað gegndarlausa fíkniefnaneyslu og stóðlífi og það með blessun skólastjórans.
Þegar líða tók á fóru kynferðismál að verða áberandi á síðum blaðsins og orðið stóðlífi kom glettileg oft fyrir. Ein frétt frá 1. október árið 1973 lýsir Mánudagsblaðinu vel og hvernig fréttir þar voru unnar.
„Til eru í Reykjavík eiturlyfjaklúbbar, eins og allir vita. Kunningi okkar lenti þar á dögunum og sagði sínar farir ekki sléttar. Hann brúkar ekki hass eða annað slíkt og var litinn hornauga fyrir bragðið. Út yfir tók þó þegar „gestirnir“, allir í kringum 15–18 ára, bæði kynin, hófu upp stóðlífi þarna, blönduðust hvert innan um annað og voru þar á ýmsum stigum samfara eða öðrum ástarleikjum. Hann sagði að þau hefðu verið alveg blygðunarlaus og ekkert haft á móti, þótt þeir sem ekki tóku þátt, horfðu á.“
Þrátt fyrir þessa heilögu vandlætingu greinarhöfundar var sífellt kjamsað á kynferðislegum málum. Einnig birtust í auknum mæli nektarmyndir, og þá helst af konum og ekki var hikað við að birta slíkar myndir á forsíðunni. Á áttunda áratugnum má eiginlega segja að blaðið hafi verið gegnsýrt af kynferðislegum málum og hreinlega klámfengið.
Það sem stingur helst í stúf þegar gömlum tölublöðum af Mánudagsblaðinu er flett, er hin mikla menningarumfjöllun sem þar tíðkaðist. Innan um djarfar ljósmyndir, upphrópanir um kommúnista og blammeringar á drykkjumenningu unga fólksins má finna gagnrýni í löngu máli og skrifaða af talsverðri þekkingu um Ibsen, Shakespeare, Dalí og Woody Allen.
Leiklistargagnrýnin var ávallt hornsteinninn í menningarumfjöllun Mánudagsblaðsins og það sem skilaði sér hvað best út í samfélagið. Agnar sjálfur var í félagi leikdómara hjá Reykjavíkurblöðunum og sinnti skrifum um leiklist lengur en flestir aðrir. Félagið veitti verðlaunin Silfurlampann til þeirra sem þóttu hafa skarað fram úr í leiklist á hverju ári. Voru þau verðlaun undanfari Grímunnar.
En leiklist fékk ekki allt rýmið. Í Mánudagsblaðinu mátti einnig finna mikla umfjöllun um kvikmyndir, sjónvarpsþætti, myndlist, dans og sér í lagi bókmenntir. Þessi umfjöllun gat verið mjög harkaleg á köflum og listamenn fengið rækilega á baukinn ef Agnari fannst þeir ekki standa sig í stykkinu. Varð gagnrýnin oft mjög umtöluð í þjóðfélaginu þó að blaðið sjálft þætti ekki mjög fínt. Sjálfsagt hafa margir menningarvitar laumast í skjóli myrkurs til þess að kaupa blaðið og ekki sagt nokkrum manni frá því.
Fram til ársins 1970 voru að jafnaði prentuð um tólf þúsund eintök af Mánudagsblaðinu. Þá byrjaði salan að dala. Í viðtali við Vikuna árið 1979 greindi Agnar frá því að hann hefði fengið heilablóðfall árið 1974 og lamast hægra megin í líkamanum. Hann varð óvinnufær í heilt ár og útgáfan var stopul eftir það. Þegar viðtalið var birt var upplagið komið niður í þrjú þúsund eintök.
„Nú er ég líka fátækari en nokkur kirkjurotta, þrátt fyrir 20 ára útgáfustarf. Ég væri líklega stórríkur maður núna ef ég hefði haldið áfram í tannlækningunum en það átti ekki við mig að hanga yfir gapandi kjöftum,“ sagði Agnar.
Síðasta tölublaðið kom út þann 20. desember árið 1982. Agnar lést tæpu ári síðar.