Matgæðingar DV voru Úlfar Eysteinsson, Dröfn Farestveit og Sigmar B. Hauksson. Þau voru margreynd og með bragðskerpuna upp á tíu. Mátu þau þær fjórar tegundir frystra vorrúlla sem á markaði voru; Daloon, Tortelle, Hverdag og Oriental Express. Samkvæmt pakkningum voru þó mismunandi aðferðir notaðir við hitun. Daloon og Tortelle skyldu hitaðar í ofni en hinar á pönnu. Kvarðinn var sá sami og gjarnan var notaður hjá DV, einkunn frá einum upp í fimm.
Athygli vakti að enginn matgæðingur gaf fimm stjörnur og munurinn á rúllunum heilt yfir var lítill. Fór svo að Tortelle sigraði með tíu stig, Hverdag hlaut níu en Oriental Express og Daloon rak lestina með átta.
Tortelle rúllurnar voru að mati Úlfars „matarmiklar og bragðgóðar“ en áferðin of lin. Dröfn var á öndverðum meiði og fannst kakan seig. Urðu það að teljast vonbrigði og áfellisdómur að þetta væru virkilega bestu vorrúllurnar sem Íslendingum bauðst.
Hverdag náði silfri en fékk ekki beint skjallandi umsagnir. „Lítið spennandi,“ sagði Dröfn og „frekar lin og bragðlítil,“ sagði Úlfar. Það var hins vegar Sigmar sem hífði Hverdag upp í einkunn.
Allir þekktu Daloon rúllurnar og gátu sungið lagið úr auglýsingunni. Engu að síður fengu þær brotlendingu hjá matgæðingum. Dröfn gaf þeim að vera „fallegastar í útliti“ en laukurinn yfirgnæfði allt. Sigmar sagði „bragðið vont og kryddið undarlegt.“ Úlfar var sá eini sem kunni að meta Oriental Express rúllurnar. Dröfn sagði þær „vondar og ólystugar“.