Veitingastaðurinn Hrafninn stóð í Skipholti 37, þar sem Lumex er nú til húsa. Þar var seldur matur á daginn en á kvöldin kom fólk til að fá bjórlíki. Þar var einnig spiluð lifandi tónlist. Hrafnkell Guðjónsson opnaði staðinn haustið 1984. Hann hafði áður stofnað samlokufyrirtækið Júmbó og rekið bílaleigu og fasteignafélag svo eitthvað sé nefnt. Guðmundur sonur hans starfaði hjá föður sínum frá unga aldri.
„Bjórlíkið var aðalaðdráttaraflið,“ segir Guðmundur. „Ég var fjórtán eða fimmtán ára farinn að blanda það í skúrnum heima þar sem það var ekki aðstaða á staðnum. Þetta var svo mikið magn.“
Hrafnkell pantaði tunnur af pilsner frá Vífilfelli og var 2,25 lítrum tappað af tunnunum og tveimur flöskum af kláravíni og svolitlu af Glenfield-maltviskíi hellt í staðinn.
Þú varst mjög ungur í þessu?
„Já, það var enginn miskunn hjá gamla. Ég var farinn að vinna fyrir hann sex ára þegar hann rak biljarðstofuna Júnó,“ segir Guðmundur.
Varst þú stundum að stelast í bjórlíkið?
„Nei, ég byrjaði ekki að drekka fyrr en ég var nítján ára, í kringum bjórdaginn sjálfan. Ég vissi aldrei hvort þetta var gott eða vont bjórlíki sem ég var að blanda. Mér var bara sagt að blanda þetta í ákveðnum hlutföllum og vanda mig. Fimmtán kúta fyrir hvert kvöld. Ég prófaði að blanda bjórlíki aftur fyrir nokkrum árum og það var ekki bragðgott.“
Þrátt fyrir að bragðið af bjórlíki jafnist ekki á við alvöru bjór þá var það geysivinsælt og Hrafninn troðfullur allar helgar. Guðmundur segir að eina helgina hafi selst fyrir jafn mikið og nýi Daihatsu Charade föður hans kostaði. Í dag væri það um þrjár milljónir króna.
„Stundum kom það fyrir að magnið dugði ekki og ég var vakinn um miðnætti til að blanda meira.“
Guðmundur vann á Hrafni eftir skóla og allan daginn um helgar, fram á kvöld. „Það yrði ábyggilega tekið hart á þessu í dag,“ segir hann og skellir upp úr. Var hann þá í uppvaski, að tína af borðum og fleira.
Hrafnkell fékk enga aukvisa til starfa á Hrafni. Einn þekktasti barþjónn landsins, Valur Kristinn Jónsson, var fenginn af Hótel Sögu eftir tuttugu ára starf á Mímisbar. Yfirkokkurinn Jóhann Bragason kom af Naustinu.
Staðurinn var innréttaður í stíl þriðja áratugarins og ekkert til sparað til að gera hann sem glæsilegastan. Veggirnir voru hvítmálaðir og stórir speglar á veggjum. Um hönnunina sá Karl Júlíusson leðursmiður sem hafði þá nýlega hannað leikmyndina fyrir kvikmyndina Hrafninn flýgur.
Stór bar stóð við vegginn á móti inngöngudyrunum. Þar var aðalmatsalurinn. Á neðri hæð var svo minni salur með dansgólfi og diskóteki. Á virkum dögum var gjarnan spilaður djass en popp um helgar.
Frægasti gesturinn sem snæddi á Hrafninum var skoski popparinn og eilífðartöffarinn Rod Stewart. Guðmundur man vel eftir þeim degi.
„Henson var við hliðina á okkur. Halldór fékk Rod Stewart í heimsókn og hann kom á Hrafninn einn daginn þegar ég var að vinna. Ég hafði séð hann í myndböndum og blöðum og þekkti hann strax. Hann var með einhverja ofurskutlu með sér. Ég var í algjöru stjörnulosti að sjá hann.“
Fékk hann sér íslenskt bjórlíki?
„Mig minnir að hann hafi smakkað það og ekki litist vel á,“ segir Guðmundur og hlær.
Helsta vandamálið sem Hrafnkell þurfti að glíma við í rekstrinum var að fá fullt vínveitingaleyfi. Á þessum árum var Framsóknarmaðurinn Jón Helgason dómsmálaráðherra og deildi afar sparlega út leyfunum. Jón var sjálfur mikill bindindismaður. Guðmundur segir:
„Það var erfitt að fá fullt vínveitingaleyfi en minna mál að fá léttvínsleyfi. Pabbi var sjálfur mjög innlyksa í pólitíkinni og þekkti vel áhrifamenn sem beittu sér fyrir því að hann fengi leyfið. Það voru Halldór Ásgrímsson sjávarútvegsráðherra, Björgvin Vilmundarson, bankastjóri Landsbankans, Magnús L. Sveinsson, forseti borgarstjórnar, og Guðlaugur Þorvaldsson ríkissáttasemjari. Þetta gekk að lokum en eftir miklar tafir. Ég held að tafirnar hafi átt stóran þátt í að þetta fór allt saman á hliðina að lokum.“
Hrafninum var lokað árið 1988 en Hrafnkell opnaði á sama stað ítalskan veitingastað sem bar nafnið La bella Napoli. Tveimur árum síðar hætti hann rekstri. Guðmundur segir að barátta föður síns við Bakkus hafi haft sitt að segja. Hann lést árið 1998, aðeins 51 árs að aldri. „Hann fór hratt upp og hratt niður,“ segir Guðmundur.