fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fókus

Heimshöfin hitna sífellt meira

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 4. febrúar 2019 21:30

Niðurstöður hermilíkansins eru hræðilegar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fæstir velkjast væntanlega í vafa um að hnattræn hlýnun er staðreynd og verður sífellt meira áberandi. Þessi hlýnun byggir á einfaldri eðlisfræði sem mannkynið hefur vitað af síðan um miðja nítjándu öld. Þessi hlýnun væri miklu meiri og verri ef við hefðum ekki heimshöfin en þau drekka í sig 90 prósent af þeim hita, sem einhvers konar sæng gróðurhúsaáhrifanna heldur á jörðinni. Hitinn sem heimshöfin drekka í sig svarar til þess að nokkrar kjarnorkusprengjur séu sprengdar á hverri sekúndu allt árið. Það munar því um minna. Þetta er allt saman farið að hafa áhrif á heimshöfin því eins og við höfum áttað okkur á þá á máltækið: „Lengi tekur hafið við,“ ekki við rök að styðjast. Það eru takmörk fyrir öllu og þar með því magni sem hafið getur tekið við.

Nýlega voru birtar, í vísindaritinu Science, niðurstöður nýrrar rannsóknar sem staðfesta að staða heimshafanna er mjög alvarleg og verri en talið hafði verið. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar hitna heimshöfin 40 prósentum hraðar en fram kom í nýjustu stóru loftslagsskýrslu loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna, IPCC. Um 93 prósent af orkuójafnvæginu enda í hafinu. Vísindamennirnir komust einnig að þeirri niðurstöðu að það gefi mun betri sýn á áhrif mannkyns á loftslagið að mæla hita heimshafanna en lofthita. En þeir komust einnig að þeirri niðurstöðu að þessi hlýnun hafi haft alvarlegar afleiðingar. Zeke Hausfather, hjá Berkeley-háskóla, er einn aðalhöfunda rannsóknarinnar. Hann segir að síðasta ár hafi aðeins verið fjórða hlýjasta ár sögunnar síðan skráningar hófust en það hafi verið hlýjasta ár sögunnar fyrir heimshöfin og hafi slegið 2017 og 2016 við en þau ár áttu fyrri met. Hann segir að það sé mun auðveldara að uppgötva hnattræna hlýnun á heimshöfunum en í andrúmsloftinu.

Katherine Richardson, prófessor í lífrænum sjávarrannsóknum við Kaupmannahafnarháskóla, segir að þessar niðurstöður staðfesti að hnattræn hlýnun hafi meiri áhrif á hafið en við getum ímyndað okkur.

„Hafið er einfaldlega lykillinn að þessu öllu. Hafið er okkur ókunnugt og þess vegna hugsum við ekki út í þetta. En það er ótrúlega mikilvægt fyrir okkur og allt líf á jörðinni.“

Heitt vatn er rúmfrekara en kalt vatn

Hlýnun heimshafanna hefur áhrif á nær alla þætti loftslags á jörðinni. Ein fyrsta afleiðingin er að yfirborð sjávar hækkar því vatn er rúmfrekara þegar það hitnar. Þessi hlýnun sjávar veldur því að yfirborð sjávar mun hækka um 30 sentimetra fram til næstu aldamóta. Auk þess hefur hlýrri sjór í för með sér að ís og jöklar, sem komast í snertingu við hann, bráðna hraðar. Hafstraumar geta líka breyst.

Hlýrri sjór breytir einnig grundvallareiginleikum hafanna. Hlýrra vatn getur ekki geymt eins mikið af lofttegundum og er því ekki eins gott í að geyma CO2. Það sama á við um súrefni sem hverfur samhliða þessu úr höfunum því hlýrri sjór hefur í för með sér hraðari rotnunarferli sem aftur leiðir til minna magns súrefnis í höfunum og fleiri hafsvæða þar sem súrefnisskorts verður vart. Ekki má síðan gleyma að hlýrri sjór þýðir að meiri orka er í höfunum, orka sem knýr veðurkerfi heimsins áfram. Öflug óveður, sem við upplifum meðal annars hér á landi, eiga upptök sín yfir hafi, þangað sækja þau orku sína. Hver kannast ekki við fréttaflutning af fellibyljum þar sem veðurfræðingar útlista að þeir missi mikið afl þegar þeir koma yfir land því þá fá þeir ekki lengur orku úr hafinu. Hlýrri sjór hefur einnig aukna úrkomu í för með sér, til dæmis á borð við þá sem íbúar í austurrísku Ölpunum og Bæjaralandi í Þýskalandi þurftu að þola í byrjun árs þegar allt fór á kaf í snjó.

 

Laure Zanna
Prófessor við Oxford.

Gríðarleg orkuupptaka

Nýlega var önnur ný rannsókn birt en að þessu sinni í vísindaritinu PNAS. Í þessari rannsókn reiknuðu vísindamenn út þá heildarorku sem heimshöfin hafa drukkið í sig síðan 1871. Hér er ekki um neitt smáræði að ræða og eiginlega erfitt að lýsa því hversu mikil orka þetta er. Um er að ræða 436 x 1021 júl. Blaðamenn The Guardian reiknuðu þetta yfir í skiljanlega tölu fyrir almenning en samkvæmt því sem þeir segja þá svarar þessi orka til þess að orka úr 1,5 kjarnorkusprengjum, af sömu stærð og var varpað á Hiroshima í síðari heimsstyrjöldinni, hafi endað í hafinu á hverri sekúndu síðustu 150 ár! Þar með er sagan ekki öll sögð því hlýnunin hefur aukist mikið á síðustu 150 árum og svarar nú til þess að hafið taki við orku úr þremur til sex kjarnorkusprengjum á sekúndu. Þetta svarar til þess að á undanförnum 150 árum hafi heimshöfin tekið 1.100 sinnum meiri orku í sig en heildarorkuframleiðsla heimsbyggðarinnar var á þessum tíma.

„Ég reyni að framkvæma ekki svona útreikninga. Einfaldlega af því að það vekur alltof miklar áhyggjur. Þess í stað líkjum við þessu við orkunotkun,“ sagði Laure Zanna, prófessor við Oxford-háskóla, um þessar niðurstöður The Guardian.

Höfin eru svo góð í að halda hitanum í sér að það munu líða margir áratugir þar til þróunin snýst við, jafnvel þótt við myndum stöðva losun gróðurhúsalofttegunda í dag. Þau munu samt sem áður drekka hita í sig því magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu er miklu meira en það var fyrir 150 árum en það er nú næstum tvöfalt meira en það var áður en iðnbyltingin hófst.

Meiri rannsóknir

Það er ekki ýkja langt síðan vísindamenn fóru að rannsaka og átta sig á hlutverki heimshafanna í hnattrænni hlýnun. Meðal annars vegna þess hversu erfitt er að mæla sjávarhita. En nú hefur verið gerð bragarbót á því en 4.000 baujum, sem tilheyra eftirlitskerfinu Argo, hefur verið komið fyrir í hafinu og mæla þær sjávarhita í sífellu. Þær mæla hita efstu tveggja kílómetra sjávar og senda niðurstöðurnar í gegnum gervihnött. Með þessu er hægt að mæla á margan hátt og mörgum stöðum samtímis. Þau miklu gögn sem hafa fengist með þessu staðfesta því miður það sem loftslagslíkön hafa sýnt. Stöðug hlýnun er óhugnanleg áminning um að við eigum mikið verk fyrir höndum því ef við náum ekki að stöðva hnattræna hlýnun förum við inn í áður óþekkt ástand sem enginn getur spáð fyrir um hvernig endar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Grátt, svart og hvítt áberandi í endurnýjaðri eign í Reykjavík

Grátt, svart og hvítt áberandi í endurnýjaðri eign í Reykjavík
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aron var handtekinn af fjórum lögreglumönnum, sprautaður niður og fluttur á Landspítalann – Greindur með sjaldgæfan sjúkdóm í kjölfarið

Aron var handtekinn af fjórum lögreglumönnum, sprautaður niður og fluttur á Landspítalann – Greindur með sjaldgæfan sjúkdóm í kjölfarið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að ótrúlegir hlutir hafi gerst þegar hún hætti að borða ávexti, grænmeti og kolvetni

Segir að ótrúlegir hlutir hafi gerst þegar hún hætti að borða ávexti, grænmeti og kolvetni