fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025

Robert Johnson var sennilega myrtur af afbrýðisömum eiginmanni

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 23. febrúar 2019 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tónlistarunnendur þekkja vel bölvunina við 27 ára aldurinn. Jimi Hendrix, Janis Joplin, Brian Jones, Jim Morrison, Kurt Cobain og nú síðast Amy Winehouse. Öll dóu þau 27 ára gömul eftir að hafa skotist upp á stjörnuhimininn og lifað hátt en illa. Í þessum fræga klúbbi gleymist oft sá sem var sennilega hæfileikaríkastur af þeim öllum, sem var Robert Johnson. Johnson dó árið 1938 og er sennilega það ungstirni sem setti hvað mest mark á sína tegund tónlistar, blúsinn.

Seldi sál sína djöflinum

Robert Johnson var fæddur árið 1911 í bænum Hazlehurst. Það er lítið og fátækt krummaskuð í vesturhluta Mississippi, þar sem blökkumenn eru í miklum meirihluta. Johnson var hins vegar af nokkuð vel efnuðum landeigendum kominn. Það var illa séð af hvítum íbúum bæjarins að svartir gætu efnast og því var fjölskyldan hrakinn úr bænum.

Um tíma bjó Johnson í borginni Memphis en flutti síðan aftur til Mississippi. Hann var óvanalega vel læs og skrifandi miðað við önnur svört börn í dreifbýlinu og fékk snemma áhuga á tónlist. Hann spilaði á munnhörpu og gítar og þótti hafa einstaka hæfileika. Almennt er þó lítið vitað um æsku og unglingsár Johnson.

Hann giftist ungur sextán ára stúlku, Virginiu Travis, en strangtrúaðir foreldrar hennar voru ekki hrifnir af ráðahagnum. Johnson var þá farinn að spila tónlist, en ekki til heiðurs drottni. Þvert á móti trúðu þau því að hann hefði selt sál sína djöflinum. Skömmu síðar lést Virginia af barnsförum og fjölskylda hennar sagði að það hefði verið refsing frá guði sjálfum.

Hæfileikaríkur kvennaflagari

Á þrítugsaldri var Johnson farinn að ferðast um Suðurríkin og spila blús. Í dag er tónlistin kölluð órafmagnaður blús eða Delta-blús, eftir svæðinu í Mississippi þar sem stefnan varð til. Sá kvittur um að Johnson hefði samið við myrkrahöfðingjann sjálfan til að öðlast hæfileikana varð sífellt háværari. Johnson var einnig mikill kvennaflagari. Hann var ungur, hæfileikaríkur, myndarlegur, kurteis, heillandi og hættulegur.

Hann ferðaðist einnig lengra, um öll Bandaríkin og alla leið norður til Kanada. Stundum notaði hann ekki eigið nafn á ferðalögum sínum. Hann drakk mikið og komst stundum í vandræði vegna kvennafars. Johnson var hins vegar engin stórstjarna og oft þurfti hann að spila vinsæl lög eftir aðra á götuhornum fyrir smápeninga.

Of flókin lög fyrir fjöldamarkað

Þegar Johnson var 25 ára gamall, árið 1936, fór hann í hljóðver í fyrsta skipti. Plöturnar voru teknar upp í borginni San Antonio í Texas en slógu ekki í gegn. Sú vinsælasta, Terraplane Blues, seldist aðeins í 5.000 eintökum. Tónlist hans var metnaðarfull en sennilega of flókin og óaðgengileg fyrir fjöldamarkað á þeim tíma.

Hann var þó ekki af baki dottinn og ári síðar ferðaðist hann til Dallas til að taka aftur upp tónlist. Ellefu plötur í það heila sem gefnar voru út árið 1938 með jöfnu millibili. En Johnson sjálfur átti ekki eftir að lifa það að sjá þær allar koma út.

Sennilega myrtur af afbrýðisömum eiginmanni

Margt er á huldu varðandi dauða Robert Johnson, þann 16. ágúst árið 1938. Johnson hafði verið að spila vikum saman á litlum skemmtistað nálægt borginni Greenwood í norðvesturhluta Mississippi.

Samferðamaður hans, blúsarinn Sonny Boy Williamson, sagði að Johnson hefði daðrað við gifta konu þar á dansleik. Hún hafi rétt Johnson viskíflösku en Williamson slegið hana úr höndum hans. Hann ætti aldrei að drekka úr flösku sem hann hefði ekki séð opnaða. Seinna hafi Johnson drukkið úr annarri viskíflösku sem honum var rétt.

Þetta sama kvöld veiktist Johnson og það varð að hjálpa honum inn í herbergi hans seint um nóttina. Næstu þrjá daga versnaði ástand hans en enginn læknir var kvaddur á staðinn. Hvíti landeigandinn sem Johnson fékk leigt herbergi hjá taldi sig ekki skuldbundinn til að kalla á lækni þar sem Johnson var ekki starfsmaður hans.

Að lokum gaf Johnson upp andann, með miklum sársaukaveinum að sögn sjónarvotta. Talið var að striknín hefði verið sett í flöskuna en eiturefnafræðingar hafa slegið þá kenningu út af borðinu. Striknín sé of lyktarmikið til að fela í áfengi og Johnson hefði ekki getað lifað svona lengi.

Dauði Johnson var ekki vel rannsakaður en landeigandinn sagði að hann hefði sennilega dáið úr sárasótt. Blúsáhugamaðurinn Robert McCormick sagðist hafa fundið manninn sem eitraði innihald flöskunnar og fengið játninguna frá honum. McCormick vildi hins vegar ekki gefa upp hver sá maður var en flestir telja að það hafi verið eiginmaður konunnar sem Johnson gaf sig á tal við.

O Brother, Where Art Thou?
Persóna Chris Thomas King var að hluta til byggð á Robert Johnson.

Uppgötvaðist á sjöunda áratugnum

Áratugir liðu þar til almenningur áttaði sig á snilld Roberts Johnson. Fyrst um sinn var hann næstum gleymdur og tónlist hans hafði lítil áhrif á aðra blúsara. En í kringum 1960 varð mikil vakning í bæði þjóðlagatónlist og blús. Áhugamenn þræddu smábæi í Suðurríkjunum og Appalachia-fjöllunum til að finna upptökur af týndum snillingum og ræða við eldra fólk sem hafði þekkt þá.

Það var á þessum tíma sem fólk fór að veita Johnson eftirtekt og árið 1961 gaf útgáfufyrirtækið Columbia út helstu verk hans á plötunni King of the Delta Blues Singers. Skyndilega varð hann frægur og sagan um að hann hefði selt sálu sína djöflinum var rifjuð upp.

Fjöldi frægra tónlistarmanna, bæði í blús og rokki, varð fyrir áhrifum frá Johnson. Þar á meðal Bob Dylan, The Rolling Stones, Led Zeppelin, Eric Clapton og Fleetwood Mac. Margir fluttu sínar eigin útgáfur af verkum hans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello

Höggvinn með exi á A. Hansen – Svaraði fyrir sig með hnefunum 20 árum síðar á Castello
Fókus
Fyrir 8 klukkutímum

Stórum sprengjum varpað um hertogahjónin í óvæntri afhjúpun Vanity Fair – Kölluð illmennin í hverfinu af nágrönnum sínum

Stórum sprengjum varpað um hertogahjónin í óvæntri afhjúpun Vanity Fair – Kölluð illmennin í hverfinu af nágrönnum sínum
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Strákarnir okkar mæta Skotum í sumar

Strákarnir okkar mæta Skotum í sumar
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Sölvi stoltur og hlakkar til komandi tíma – „Mig er búið að gruna þetta“

Sölvi stoltur og hlakkar til komandi tíma – „Mig er búið að gruna þetta“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Efling klagar Subway og Hard Rock: Alþjóðlegir risar látnir vita af meintum réttindabrotum

Efling klagar Subway og Hard Rock: Alþjóðlegir risar látnir vita af meintum réttindabrotum
Fókus
Fyrir 14 klukkutímum

Vill að RÚV geri samning við Vesturport

Vill að RÚV geri samning við Vesturport