fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fókus

Vændishúsið á Túngötu: „Þeir gerðu allt sem þeim sýndist“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 10. febrúar 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við Túngötu í Vesturbæ Reykjavíkur stendur hús þar sem lengi var stundað vændi, allt fram á tíunda áratug síðustu aldar, einnig voru vændiskonur gerðar út þaðan. Um þetta sá kona, sem áður hafði starfað við vændi, en varð síðar svokölluð maddama. Sögusagnir gengu lengi og sumir voru sannfærðir um að staðurinn væri lítið annað en goðsögn. En árið 1997 birtist viðtal í Mannlífi við nafnlausa stúlku sem hafði leiðst út í fíkniefnanotkun og fjármagnaði neysluna með því að starfa á Túngötu. Síðar kom í ljós að hin nafnlausa stúlka var Kristín Gerður Guðmundsdóttir.

Vændishúsið við Túngötu var ekki það eina í Reykjavík, en það best þekkta. Þrjú eða fjögur önnur hús voru þekkt á þeim tíma er viðtalið í Mannlífi birtist. Á þessum tíma var löggjöfin þannig að sala vændis var ólögleg en umburðarlyndi ríkti gagnvart starfseminni. Aðeins einn einstaklingur hafði verið dæmdur fyrir vændismiðlun, árið 1989, og hefur Tímavél DV áður greint frá því máli. Viðtalið sýndi glöggt þær ömurlegu aðstæður og það kynferðisofbeldi sem vændiskonur í Reykjavík urðu og verða fyrir á hverjum degi.

 

Undir eftirliti

Maddaman sem um ræðir, sem var á sextugsaldri, hafði áður starfað sem vændiskona og kallaði sig þá Fjólu. Hafði hún verið gift og með börn á heimilinu. Í grein Mannlífs var hún nefnd Inga en þolandinn Kristín Gerður var nefnd Hugrún. Inga þessi var sögð hafa verið undir eftirliti lögreglunnar vegna gruns um vændi en þvertók fyrir það aðspurð.

Hugrún, þá þrítug, starfaði hjá Ingu árið 1992 og sagðist hafa verið eign hennar. Hugrún hafði þá náð sér upp úr mikilli eiturlyfjaneyslu sem hófst á unglingsaldri. „Þeir gerðu allt sem þeim sýndist,“ sagði Hugrún um mennina sem keyptu hana. Sumir ofbeldisfullir og afbrigðilegir en aðrir venjulegir menn. Hún taldi ábyrgð hinna síðarnefndu hins vegar ekki síðri. Það væri alltaf afbrigðilegt að borga annarri manneskju fyrir að fá að misnota líkama hennar.

Hugrún var búsett í Reykjavík en var utan af landi. Hún kynntist amfetamíni þegar hún vann á veitingastað á menntaskólaárunum. Í stúdentaferð til Amsterdam fór allt úr böndunum og hún skilaði sér ekki heim. Hún leiddist út í heróínneyslu og endaði allslaus í Kaupmannahöfn. Þegar henni var bjargað heim fór hún um tíma á Vog og inn á geðdeild. Eftir það lá leiðin í undirheima Reykjavíkur og neyslu. Það var þá sem hún kynntist Túngötunni þar sem vændiskonur voru gerðar út.

 

Eiginmaðurinn tefldi við kúnnana

Inga var dökk yfirlitum, feitlagin, svarthærð með rauðsprengt net sem breiddi sig yfir kinnarnar samkvæmt lýsingu Hugrúnar. Karlarnir vildu hana ekki lengur en hún sagði Hugrúnu að það hafi ekki alltaf verið svo. Hún hafi verið svo vinsæl að eiginmaðurinn hefði teflt við kúnnana á meðan þeir biðu.

Sumir kúnnarnir keyptu þjónustuna á staðnum og þá tók Inga helminginn af kaupverðinu sem byrjaði í 35 þúsund krónum en gat farið neðar. Vændiskonurnar sömdu sjálfar í viðurvist Ingu. Þjónustan fór fram í svefnherberginu hennar en hún beið frammi í stofu á meðan. Þeir máttu ekki vera of lengi, þá fór Inga að banka á dyrnar. Ef hún sendi vændiskonu til kaupanda úti í bæ tók hún aðeins þriðjung af fénu, en það var hættulegra. Kaupendurnir beittu frekar ofbeldi annars staðar en á Túngötunni. Inga sat oft á börum Reykjavíkur við drykkju og tók við pöntunum.

Þegar inn var komið á Túngötunni mætti kúnnunum dimmur gangur. Gengið var gegnum eldhúsið og inn í svefnherbergið. Allir gluggar voru huldir með þykkum tjöldum og dyrnar kirfilega lokaðar. Í íbúðinni var sjónvarpstæki þar sem spilaðar voru klámmyndir allan daginn, nema rétt á meðan fréttirnar voru lesnar.

Kristín Gerður
Lýsti hryllingnum í Mannlífi árið 1997.

Faldi sprautuförin

Kúnnarnir voru af öllum stærðum og gerðum. Sumir fínir menn en aðrir síður, en aldrei rónar samt. Gamlir og ungir, fatlaðir og ófatlaðir. Sumir fantar sem vildu slá og lemja. Aðrir vildu meiða með orðum. Sumir vildu láta meiða sig. Enn aðrir sem vildu láta kalla sig pabba eða afa. Sumir komu í hópum og skiptust á. Hugrún sagði að langstærsti hlutinn vildi niðurlægja hana á einhvern hátt. Sumir vildu spjalla við hana og spurðu um hversdagsleg málefni. Það var erfitt þar sem hún var ekki hún sjálf, hún aftengdi sig alveg þegar hún starfaði við þetta. Hún þurfti að þykjast vilja sænga hjá þeim. Faldi það að hún notaði krem í leggöngin og faldi sprautuförin á höndunum. Þeir máttu ekki vita að hún væri í neyð, þeir gætu orðið hræddir við smit.

Í einu af fyrstu skiptunum þurfti Hugrún að fara á City Hotel þar sem hennar beið skipstjóri utan af landi. „Hann er á buxum og nærbol, ofboðslega feitur og illa lyktandi og svo drukkinn að hann stendur varla í fæturna.“ Reiddist hann við að heyra verðið, þuklaði hana alla og niðurlægði með orðum. Þegar hún ákvað að fara hélt hann henni fastri og nauðgaði henni í herberginu. Hún náði samt að komast undan og heim til sín. Hringdi þá Inga mjög reið, skipaði henni að koma og sagði að þetta yrði tekið af næstu viðskiptum hennar. Þegar Hugrún sagði henni frá nauðguninni hló hún. „Maður nauðgar ekki mellu bjáninn þinn.“

Saga Kristínar Gerðar er vel þekkt. Hún svipti sig lífi vorið 2001.

 

Umdeilt viðtal við „hamingjusama hóru“

Önnur vændiskona lýsti störfum sínum á Túngötunni í Fréttablaðinu árið 2002. Var það kona á fimmtugsaldri, öryrki í úthverfi Reykjavíkur, sem enn þá stundaði vændi til að sjá sér og fimmtán ára dóttur sinni farborða.

Hún hafði starfað sem vændiskona frá árinu 1985, meðal annars á Hótel Loftleiðum þar sem hún náði í kúnnana af veitingastaðnum Skálafelli. Þessi kona starfaði á Túngötunni fram til ársins 1990 og kunni maddömunni góða sögu. Konan hafði ekki aðstöðu á Túngötunni heldur var á eigin bíl og ók til kúnnanna.

„Ég þekki ekki þessa dökku hlið sem hefur verið dregin upp af henni af sumum þeirra sem störfuðu í skjóli hennar.“

Sagði hún að það truflaði sig ekki að selja líkama sinn og að hún hefði aldrei lent í ofbeldi af neinu tagi. Ástæðuna sagði hún vera að hún sorteraði úr viðskiptavinum sínum, en þegar viðtalið var tekið náði hún til þeirra í gegnum stefnumótasíðuna einkamal.is. Sagðist hún enn þá vera í góðu sambandi við maddömuna á Túngötunni.

Viðtalið var gagnrýnt, meðal annars af Guðrúnu Ögmundsdóttur alþingismanni, sem sagði frásögnina ekki trúverðuga: „Það klingir alla vega mörgum bjöllum í mínu höfði.“ Vísaði hún sérstaklega í viðtalið úr Mannlífi því til stuðnings og þeim harmi sem Hugrún gekk í gegnum.

 

Býr þar enn

Árið 1999 var rætt við tvær íslenskar nektardansmeyjar en þá voru nektarstaðir algengir í miðbæ Reykjavíkur. Sögðu þær að sumar dansmeyjanna stunduðu vændi, stundum inni á stöðunum sjálfum, og eigendur staðanna tækju sinn hluta af peningunum. Vændi væri enn þá stundað í vændishúsum, var Túngatan nefnd og önnur hús. Vændi var þá farið að þróast í þá átt að vera stundað af erlendum vændiskonum. Í dag er nægt framboð á netinu af konum sem dvelja hér stutta stund í leiguíbúðum og auglýsa á netinu eins og DV hefur áður greint frá.

Ekki er vitað til þess að vændi hafi verið stundað á Túngötunni á þessari öld en maddaman býr enn í húsinu, nú á áttræðisaldri.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“