fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fókus

Anna drottning missti öll sautján börnin sín

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 24. janúar 2019 22:00

V

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Anna Stúart ríkti yfir Bretlandi frá 1702 til 1714 og hefur oft verið talin óhamingjusamasta drottning sögunnar. Sautján sinnum varð hún þunguð, en engin barna hennar komust á legg. Sjö sinnum missti hún fóstur, fimm börn fæddust andvana og fjögur dóu í frumbernsku. Einn sonur hennar náði ellefu ára aldri. Þessi mikla sorg og sífelldu vonbrigði höfðu skiljanlega mikil áhrif á Önnu sem þjóðhöfðingja. Þar sem hún eignaðist engan erfingja lauk valdatíð Stúart-ættarinnar með henni.

 

Fyrsta barnið fætt andvana

Anna var fædd árið 1665, dóttir Jakobs II. konungs, og systir Maríu II. drottningar, sem stýrði Bretlandi ásamt eiginmanni sínum Vilhjálmi III. Á þessum tíma stóð mikill styr um að halda krúnunni í höndum mótmælenda. Jakobi II., sem var kaþólikki, var steypt af stóli. María og Vilhjálmur eignuðust enga erfingja og því tók Anna við árið 1702, eftir að þau voru bæði fallin frá.

Anna var gefin Georgi, prins af Danmörku, árið 1683. Eftir aðeins örfáa mánuði varð hún þunguð af þeirra fyrsta barni. Þann 12. maí árið eftir fæddi Anna andvana stúlkubarn. Þetta hefur vissulega verið áfall en engu að síður ekki óalgengt á þeim tíma. Fæðingar voru hættulegar fyrir bæði móður og barn, ríkar jafnt og fátækar konur. Það eina sem hægt var að gera var að nýta sér reynslu eldri kvenna og biðla til almættisins.

Skömmu eftir þetta varð Anna ólétt að nýju og 2. júní árið 1685 fæddi hún heilbrigt stúlkubarn. Stúlkan var skírð María líkt og systir hennar drottningin, sem Anna var mjög náin. Ekki leið á löngu þar til Anna varð þunguð aftur og 12. maí árið 1686 kom önnur stúlka undir vænginn, Anna Sófía. Enn á ný varð Anna þunguð og leit allt út fyrir að fimm yrðu í fjölskyldunni árið 1687.

 

Annus horribilis

Árið 1687 hófst með slæmum fyrirboða. Þann 21. janúar missti Anna fóstur í fyrsta skipti. Nokkrum dögum síðar smitaðist Georg og dæturnar báðar af bólusótt. Þann 2. febrúar dó Anna Sófía litla, sem hafði ekki náð eins árs aldri. Tæpri viku síðar lést María.

Georg fékk mikla hitasótt en náði líkamlegri heilsu á nýjan leik. Sorg hans og Önnu var hins vegar slík að öll hirðin var undirlögð. Þau grétu saman eða sátu þögul og leiddust. Inni á milli lýstu þau sorg sinni með orðum. Í mars varð Anna þunguð á nýjan leik. Georg heimsótti heimaland sitt um sumarið en þegar hann sneri aftur um haustið var ljóst að eitthvað var að. Þegar Anna var gengin sex mánuði hætti fóstrið að hreyfa sig. Mánuði síðar, þann 22. október, fæddi Anna andvana son.

 

Vilhjálmur Hinrik
Langlífasta barn Önnu.

Erfingi krúnunnar með vatnshöfuð

Vorið 1688 missti Anna fóstur í annað skiptið. Á þessum tíma var talið ljóst að Anna myndi taka við sem drottning af systur sinni og því mikil pressa á hana að eignast erfingja. Bæði konungur og drottning voru viðstödd, þann 24. júlí árið 1689 þegar Anna fæddi loks dreng. Þremur dögum síðar var hann skírður Vilhjálmur Hinrik og fékk hann í kjölfarið titilinn hertoginn af Gloucester.

Litli Vilhjálmur var heilsuveill frá fæðingu. Að öllum líkindum var hann með vatnshöfuð, þó að það hafi aldrei verið staðfest. Hann var með stórt höfuð, fékk tíða höfuðverki og þrýsting. Hirðlæknarnir reyndu að stinga á og hleypa vökva út og gáfu honum kínín sem olli honum uppsölum.

Vilhjálmur var langt á eftir öðrum börnum í þroska og gat ekki talað fyrr en hann var orðinn þriggja ára. Hann átti einnig erfitt með gang. Þegar hann var fimm ára neitaði hann að ganga upp stiga án þess að fá hjálp þjóna. Vilhjálmur var sífellt veikur og útlit hans endurspeglaði það. Anna sagðist elska hann af öllu hjarta en gæti ekki gortað sig af fegurð hans.

 

Vonbrigði á vonbrigði ofan

Eftir að Vilhjálmur fæddist héldu Anna og Georg áfram að reyna að búa til erfingja. Í október árið 1690 fæddist María, tveimur mánuðum fyrir settan dag. Hún lifði aðeins í tvo klukkutíma. Í apríl árið 1692 fæddist Georg. Hann lifði í örfáar mínútur. Í mars árið 1693 ól Anna andvana dóttur.

Anna missti næstu fimm fóstur. Í janúar 1694, febrúar 1696, september 1696, mars 1697 og desember 1697. Áhöld eru uppi um hvort að um tvíbura var að ræða í síðasta skiptið. Í tvígang varð Anna þunguð eftir þetta, en þau börn fæddust andvana; í september 1698 og það síðasta í janúar 1700. Anna var tæplega 35 ára gömul og hafði orðið þunguð sautján sinnum. Eina barnið sem hún átti var Vilhjálmur Hinrik, sem var mjög veiklaður og þurfti mikla umönnun. Systir hennar, María, lést árið 1694.

Olivia Colman
Leikur Önnu í kvikmyndinni The Favourite.

Hin óhamingjusama drottning

Á ellefu ára afmælisdaginn sinn, 24. júlí árið 1700, veiktist Vilhjálmur. Hann kvartaði undan þreytu eftir veislu og um kvöldið fékk hann hálsbólgu og hita. Læknir kom og tók honum blóð en það hafði engin áhrif. Vilhjálmur fékk mikil höfuðverkjarköst, niðurgang og útbrot. Honum hrakaði með hverjum deginum eftir þetta og læknar gátu engan veginn komið sér saman um hvað væri að honum.

Anna sat við rúm Vilhjálms í mikilli angist. Í eitt skiptið féll hún í yfirlið af áhyggjum. Þann 29. júlí leit hann betur út og útlit fyrir að hertoginn ungi myndi ná sér af sóttinni. En það kvöld hrakaði honum aftur og hratt. Foreldrar Vilhjálms sátu við rúm hans klukkan eitt, aðfaranótt 30. júlí þegar hann lést.

Anna sökk í djúpt þunglyndi eftir þetta. Hún lokaði sig af í herbergi sínu en á kvöldin báru þjónarnir hana út í garð til að reyna að bæta andlega heilsu hennar. Þann 8. mars lést Vilhjálmur III. konungur og Anna tók þá við sem drottning. Öll hennar stjórnartíð einkenndist af slæmri líkamlegri heilsu og óhamingju. Engu að síður var hún vinsæl drottning, sem beitti sér sérstaklega fyrir listum og menningu. Hún lést eftir heilablóðfall, aðeins 49 ára gömul, þann 1. ágúst árið 1714.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa

Stjörnurnar og mótleikarinn sem þeim líkaði alls ekki við að kyssa
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna