fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Mannshvörf voru skoðuð í tengslum við beinafund í Faxaskjóli

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 20. janúar 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í síðustu viku fjallaði Tímavél DV um fund mannabeina við Faxaskjól í Reykjavík, sumarið 1975. Fyrir tilviljun fundu krakkar nokkuð heillega beinagrind karlmanns, grafna á um eins metra dýpi í gömlu byrgi frá stríðsárunum. Að sögn Jóhanns Wathne, sem var einn af þessum krökkum, var rannsókn málsins stutt og hroðvirknislega unnin. Málið var mikið í fjölmiðlum þetta sumar en lognaðist síðan út af og aldrei fékkst niðurstaða í það, hverjum beinin tilheyrðu eða hvernig látið hefði borið að. Nokkrir menn hurfu á því tímabili sem lögreglan horfði til, á árunum 1951 til 1956. Seinna tók rannsóknin óvænta beygju þegar mun eldra máli var velt við.

Fjórir horfnir menn

„Það er alls ekki hægt að slá því föstu hvort um morð sé að ræða eða ekki,“ sagði Haukur Bjarnason rannsóknarlögreglumaður við Þjóðviljann þann 9. júlí árið 1975. „Þótt byssukúlur hafi fundist sannar það ekkert. Við höfum fullkomna skrá yfir öll mannshvörf frá árinu 1942, en það er mín trú að þessi bein séu ekki nándar nærri svo gömul.“

Fyrstu athuganir á beinunum voru taldar benda til þess að beinagrindin hefði legið þarna í jörð frá árunum 1955 til 1965. Eins og áður var sagt voru byrgin fyllt af garðaúrgangi í kringum 1954. Síðar var rannsóknin þrengd og beindist þá að árunum 1951 til 1954, þegar byrgin voru að fyllast. Gert var ráð fyrir að gryfjan hefði verið tóm fram að því.

Gröfin í Faxaskjóli
Morgunblaðið 9. júlí 1975.

„Við höfum farið yfir skrá um það fólk sem hvarf á þessum árum og fannst aldrei og það eru fjórar manneskjur,“ sagði Magnús Eggertsson, hinn rannsóknarlögreglumaðurinn sem kom að málinu. „Það liggur alveg ljóst fyrir að þarna hefur einhver þurft að fela lík.“

Greining á beinunum var ónákvæm miðað við tækni nútímans. Prófessorar við Háskóla Íslands áætluðu að beinin væru af manni sem hefði látist um fertugt en gátu ekki sagt til um hversu lengi hann hefði verið grafinn. Nokkrir karlmenn á þessum aldri hurfu á árunum eftir 1951.

Svavar Þórarinsson
Var um borð í Herðubreið.

Hvarf af strandferðaskipi

Svavar Þórarinsson rafvirkjameistari var 34 ára gamall þegar hann hvarf sporlaust í apríl árið 1951. Hann fór heiman frá sér að Bragagötu 38 föstudaginn 13. þess mánaðar. Þá var hann í frakka og höfuðfatslaus og í brúnum fötum. Hann lét ekkert uppi um hvert hann ætlaði.

Rannsóknarlögreglan yfirheyrði bílstjóra sem ók Svavari að strandferðaskipinu Herðubreið þetta kvöld og hélt skipið úr höfn um miðnætti. Svavar hafði hins vegar ekki keypt farseðil og var farangurslaus. Herðubreið var á leið á Vestfirði og kom við á mörgum stöðum og öll veðurskilyrði góð.

Skipverjar voru yfirheyrðir þegar Herðubreið kom aftur til Reykjavíkur. Þegar skipið fór frá Hellissandi á Snæfellsnesi laugardaginn 14. apríl var Svavar enn þá um borð. Eftir það sást hann ekki meir og enginn varð þess var að hann færi í land. Einn skipverjanna, Guðmundur Andrésson, segir Svavar hafa verið einn síns liðs og í brúnum jakkafötum. Annar, Elías Guðmundsson, sagði að Svavar hefði sagst ætla að fara til Patreksfjarðar þótt hann ætti hvorki ættingja né hefði atvinnu þar. Var hann mjög fámáll og virtist þungt hugsi. Var talið að hann hefði fallið fyrir borð, viljandi eða óviljandi.

Svavar var einhleypur og átti eina dóttur.

Magnús Guðlaugsson Ætlaði á sjóinn aftur.

Átti það til að hverfa

Magnús Guðlaugsson var 34 ára þegar hann hvarf haustið 1953. Hann var atvinnulaus en hafði stundað sjóinn. Magnús leigði herbergi að Leifsgötu 4 í Reykjavík en var upprunalega frá Bolungarvík. Hann var í fæði hjá öðru fólki í bænum en eftir 9. október sást hann á hvorugum staðnum.

Magnús hafði átt það til að hverfa öðru hverju og var hvarf hans því ekki tilkynnt fyrr en rúmum tveimur mánuðum síðar, eða þann 18. desember. Hafði hans þá verið leitað í Reykjavík og víðar. Einhver hafði þó heyrt Magnús segja að hann myndi bráðlega fara á sjóinn aftur.

Magnúsi var lýst sem háum í vexti, lotnum í herðum, ljóshærðum og með skalla. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Magnús Ottósson
Aðeins fötin fundust.

Föt í fjörunni

Þann 20. ágúst árið 1955 fundu starfsmenn bensínstöðvarinnar BP við Skúlagötu (nú Bríetartún) karlmannsföt á steini í fjörunni þar fyrir neðan. Voru þetta skór, hattur, jakki og yfirhöfn.

Létu þeir lögregluna samstundis vita sem komst fljótt að því hver ætti þau. Var þá talið að maðurinn sem átti fötin hefði, skilið þau þar eftir og gengið í sjóinn.

Degi seinna var greint frá því að fötin hefðu verið í eigu Magnúsar Ottóssonar. Magnús var 45 ára gamall og hafði horfið 19. ágúst. Hann var meðalmaður að hæð, rauðskolhærður og hafði kennt sér lasleika dagana fyrir hvarfið og ekki getað unnið.

Eftir að fötin fundust leitaði lögreglan í Reykjavík og skátarnir að honum í fjörunni. Höfðu þeir hins vegar ekki erindi sem erfiði og ekkert fannst nema fötin.

Magnús var ókvæntur og barnlaus.

Pétur Guðmundsson
Hálft ár leið þar til hvarf hans var auglýst.

Heimilis- og atvinnulaus

Pétur Guðmundsson, 35 ára, hvarf þann 15. desember árið 1956. Sást hann síðast gangandi á Laugaveginum. Þá var hann klæddur í gráan jakka, grænar vinnubuxur, bláa peysu og brúna skó. Pétur var hávaxinn, grannur, dálítið lotinn, skolhærður og með gráblá augu. Hann var bæði heimilis- og atvinnulaus.

Lögreglan hafði spurst fyrir um Pétur en opinberlega var ekki lýst eftir honum fyrr en 6. júní árið 1957, um hálfu ári eftir hvarfið, þá bæði í dagblöðum og útvarpi. Var það gert eftir að móðir hans bað rannsóknarlögregluna að grennslast fyrir um málið. Pétur hafði áður horfið langtímum saman en ekki svona lengi án þess að tala við ættingja sína.

Móðir Péturs hafði síðast séð hann um mánaðamótin nóvember og desember. Þá sagðist hann vilja fara á sjóinn. Lögreglan hafði ekki heimildir fyrir því að Pétur hefði fengið nokkurt skipspláss. Taldi rannsóknarlögreglan ólíklegt að Pétur hefði verið munstraður á erlent skip.

Pétur var ókvæntur og átti eina dóttur.

Með fulla vasa fjár

Þann 18. júlí, ellefu dögum eftir beinin fundust, gaf lögreglan út óvænta tilkynningu; að nú beindist rannsóknin ekki lengur að þeim mönnum sem hefðu horfið á árunum upp úr 1951 heldur að Sveinbirni Jakobssyni, sem hvarf árið 1930.

Sveinbjörn var 46 ára þegar hann hvarf þann 6. október, 1930. Hann var frá Ólafsvík en sást síðast þegar hann var í vikuheimsókn hjá dóttur sinni í Reykjavík. Fimmtudaginn 9. október tók hann leigubíl til að fara að húsi sem nefndist Sauðagerði. Það var torfbær, áður fjárhús frá Hlíðarhúsum, nálægt því sem nú er Grenimelur 46.

Eftir það fréttist ekkert af honum en skátar gerðu dauðaleit að honum á sunnudeginum. Leituðu allt frá Gróttu og inn í Fossvog. Vitað var að Sveinbjörn hafði fulla vasa fjár þegar hann kom til Reykjavíkur og hjá lögreglunni var hvarf hans rannsakað sem sakamál á sínum tíma.

Það að lögreglan hefði bendlað hvarf Sveinbjarnar við beinin í Faxaskjóli olli nokkurri undrun miðað við það sem áður hafði komið fram í málinu. Ef byrgið sem beinin fundust í fylltist ekki af torfi og mold fyrr en eftir 1951, hvar gæti lík Sveinbjarnar þá hafa legið öll þessi ár?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“