Um páskana árið 1975 voru nokkrir drengir um tólf ára aldur að leik í fjörukambinum við Faxaskjól í vesturbæ Reykjavíkur. Grófu þeir ofan í jörðina og komu þá niður á tvö stór bein, sennilega lærleggi. Nokkru síðar, mánudaginn 7. júlí, fóru þeir aftur á sama stað til að grafa og komu þá fleiri bein í ljós.
Jóhann Wathne, þá búsettur við Faxaskjól 4, var einn af þessum drengjum. Hann segir að beinin hafi fundist við Faxaskjól 12 þar sem einn af drengjunum bjó, á um það bil eins metra dýpi innan í steyptum stokki.
„Við vorum mikið að leika okkur þarna í móunum og skurðunum. Þetta var ábyggilega gömul skotgröf frá tíma herliðsins. Fyrir framan var hóll og við vorum búnir að grafa okkur í gegnum hólinn til að gera kofa þarna í gröfinni. Þegar við fundum lærbeinin var okkur sagt að þau væru ábyggilega af kúm. Þegar við fórum aftur að grafa þarna seinna um sumarið fundum við sokk. Þetta var nokkuð heillegur sokkur og við sturtuðum kjúkunum og fótbeinunum úr honum. Þá áttuðum við okkur á því að þetta væri af manni.“
Drengirnir urðu mjög spenntir yfir þessum fundi og héldu áfram að grafa. Þá fundu þeir hvert beinið á fætur öðru. Einnig fundu þeir tvær byssukúlur og pípuhaus en engin önnur föt en sokkinn. Jóhann segir að strákarnir hafi alist upp við að lesa bækurnar um Frank og Jóa. Þarna voru þeir lentir í slíku ævintýri.
„Að lokum fundum við hauskúpuna. Einn af okkur tók kjálkann og hljóp um allt með hann. Þegar við vorum búnir að grafa þetta allt upp létum við afa eins okkar vita af fundinum. Hann hringdi þá á lögregluna.“
Rannsóknarlögreglumenn komu á svæðið, fóru í gegnum allan hauginn og tóku beinin. Einnig grófu þeir sjálfir og fundu fleiri bein en krakkarnir fundu þau flest. Svæðið var hins vegar ekki lokað af eins og venjulega er gert á vettvangi glæps þó að aðstæðurnar þættu grunsamlegar.
Magnús Eggertsson og Haukur Bjarnason sáu um rannsókn málsins hjá lögreglunni. Haukur sagði við Þjóðviljann þann 9. júlí 1975 að frumrannsókn málsins hefði tekið tvo tíma, frá klukkan eitt til þrjú. Lögreglan amaðist ekki við því að krakkarnir héldu áfram að grafa.
„Þau eru komin á kaf í lögreglumál, og finni þau fleiri bein eða skot, mun lögreglan þiggja þá aðstoð með þökkum,“ sagði Haukur. Magnús sagði að frekari rannsókn á staðnum yrði ekki gerð nema að nýjar upplýsingar kæmu fram sem krefðust þess. Lögreglan spurði þó íbúana í nágrenninu, í Faxaskjóli og Sörlaskjóli, um þennan stað og hvort þeir hefðu séð eitthvað óvanalegt í kringum hann en ekkert kom úr því.
Þegar lögreglumennirnir voru farnir af svæðinu fóru krakkarnir þangað aftur og héldu áfram að grafla í jörðinni. Voru þar börn allt niður í þriggja ára aldur. Fundu þau þá meira að segja nokkur bein til viðbótar. Jóhann segir að einn strákanna hafi átt hund sem tók eitt beinið og fór að naga það.
„Eftir á að hyggja var undarlegt hvernig tekið var á þessu máli. Það var heldur ekki talað um þetta eins og um sakamál hafi verið að ræða,“ segir hann.
Tölduð þið að þetta hefði verið morð?
„Já, við fórum alveg á fullt með það og örugglega frá stríðsárunum eða síðar út af skotgröfinni. Hverfið fer síðan að byggjast þarna upp í kringum 1950. Það er enginn sem dettur þarna og deyr og grefur síðan yfir sig. Auk þess hefur líkið sennilega aðeins verið í sokkum.“
Í Faxaskjóli reisti hernámsliðið mikil mannvirki, bragga og fleira. Á þeim stað sem beinagrindin fannst var skotæfingasvæði og því hugsanlegt að byssukúlurnar hafi verið frá þeim tíma. Kúlurnar voru 45 kalíber sem var harla óvanaleg stærð fyrir skotvopn á Íslandi. Hins vegar var stærðin algeng í skotvopnum fyrir heri. Við stokkinn þar sem beinin fundust stóðu skotmörk sem dátarnir skutu að og kúlur því hæglega geta lent í jarðveginum. Það útskýrir hins vegar ekki af hverju líkið endaði þarna grafið, að mestu klæðlaust.
Svæðið var vinsælt leiksvæði barna eftir stríðið. Á fyrri hluta sjötta áratugarins var það rutt og grafið ofan í byrgin, meðal annars grasi, mold og torfi úr görðum í nágrenninu. Kunnugur maður sagði að byrgin hefðu verið orðin full árið 1954. Benti það til þess að líkið hefði verið sett þar ofan í um þetta leyti eða síðar. Á móti kemur að staðurinn var þá orðinn sérlega óhentugur til þess að grafa lík, aðeins um þrjátíu metrum frá næsta íbúðarhúsi.
Beinin voru flutt á rannsóknarstofu Háskóla Íslands til aldurs- og kyngreiningar. Um skoðun beinanna sáu Ólafur Bjarnason, prófessor í meinafræði, og Jón Steffensen, prófessor í líffæra- og lífeðlisfræði. Skömmu eftir að beinin komu til þeirra sagði Ólafur að beinin væru af karlmanni sem hafi verið um fertugt þegar hann lést. Hann gat hins vegar ekki sagt til um hversu lengi þau hefðu legið grafin en horft var til áranna 1951 til 1955. Allar tennurnar sem fundust voru heilar og því ekki hægt að nota tannkort frá tannlæknum. Hins vegar hafði vantað tvær tennur í neðri góm og hann hafi því átt erfitt með að tyggja. Einnig að beinin sjálf væru ósködduð og hæð mannsins á bilinu 163 til 181 sentimetra. Sennilega hefur hann þó verið um 170 til 173 sentimetra hár.
Jóhann segir að þrír drengjanna haldi enn þá góðu sambandi og málið leiti enn þá á.
„Ég hef margoft hugsað um þetta í gegnum tíðina. Þá leitar það alltaf á mig hver þetta gæti hafa verið. Þetta þótti mjög spennandi fyrst og gatan fylltist af fólki og bílum. Fjallað var um þetta í öllum blöðunum en ég man að við strákarnir voru svolítið spældir að sjónvarpið var í fríi. Við hugsuðum meira að segja um að geyma þetta þangað til að sjónvarpið kæmi úr fríi. En svo kom aldrei neitt í ljós um hver þetta hefði verið og við fréttum aldrei neitt meira af þessu. Síðan var mokað yfir svæðið og við byggðum okkar kofa neðar í götunni.“
Framhald í næsta blaði.