fbpx
Þriðjudagur 07.janúar 2025
Fókus

Ævintýramaðurinn og sagnameistarinn Lúðvík Karlsson

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 9. júní 2019 15:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lúðvík Karlsson flugmaður var einn mesti ævintýramaður landsins á síðustu öld. Hann féll frá í þyrluslysi á Kjalarnesi árið 1975, aðeins 31 árs að aldri. Sögurnar sem hann sagði og sagðar hafa verið af honum hafa margar goðsagnakenndan blæ og ekki er alltaf auðvelt að sjá hvað er satt og hvað logið. Ómar Ragnarsson, fréttamaður og félagi Lúðvíks úr fluginu, ræddi við DV um þennan merka mann og rifjaði upp nokkrar sögur.

Ævintýramaður

Lúðvík var fæddur árið 1943. Hann var af efnuðu fólki kominn og gat leyft sér ýmislegt sem aðrir gátu ekki. Hann var víðförull og fékk snemma áhuga á flugi. Hann lauk flugnámi árið 1964 og á sjöunda áratugnum var hann orðinn hæfileikaríkasti svifflugmaður landsins og síðar átti hann eftir að fljúga bæði litlum vélum, í ferjuflugi og þyrlum. Einnig stundaði hann fallhlífarstökk og froskköfun.

Í sviffluginu vann Lúðvík mörg afrek eins og samferðamenn hans vitna um. Dag einn á Íslandsmótinu árið 1969 þraut uppstreymið og Lúðvík þurfti að nauðlenda. Sá hann þá lítinn hólma í miðri á sem rann í gegnum mýri og náði að lenda þar á ótrúlegan hátt. Hann hafði líka einstakt lag á því að halda sér á lofti þegar aðrir komust hvorki lönd né strönd.

„Þetta var fluggáfaður maður, gríðarlega hæfileikaríkur og orkumikill. Hann hafði miklar tilfinningar og óþrjótandi lífsgleði,“ segir Ómar Ragnarsson í samtali við DV. „Hann var að fljúga og ég var að fljúga, og stundum flugum við saman. Hann var mjög klár og alveg júník maður. Maður kynnist ekki nema einum svona á ævinni.“

Hella 1970
Lúðvík á bíkíkní.

Hljóp á heitu hrauni í sandölum

Ómar rifjar upp Íslandsmeistaramótið árið eftir, einnig á Hellu, en þá var Heklugos í gangi.

„Ég á mynd af honum í kvenmannsbikiníi að hella bensíni á vélina mína, sem þá var TF-GIN. Sagan af því hvernig hann kom sér í bikiníið var ekki eftir hafandi en þeir sem heyrðu hana veltust um af hlátri. Svo fór hann upp á hraunið og hljóp eftir rennandi hrauninu, á sandölum. Hann slapp með það því hann hljóp akkúrat þar sem skorpan var byrjuð að harðna. En hún var alveg sjóðandi heit. Hann hefði ekki komist mikið fleiri metra því hann var búinn að brenna sig í gegnum sandalana,“ segir Ómar og skellihlær.

Komst hann alveg óskaddaður frá þessu?

„Já, hann komst algjörlega óskaddaður frá þessu. En allir ferðamennirnir sem voru þarna að fylgjast með gosinu voru þrumulostnir að sjá þessi ósköp.“

Sagnameistari

Frásagnarhæfileiki Lúðvíks er eitt af því sem margir af samferðamönnum hans hafa talað um. Ómar tekur undir það.

„Ég hef aldrei heyrt í jafn góðum sagnameistara og Lúlla. Engan sem kemst í líkingu við hann. Að kynnast Lúlla gaf mér innsýn í það hvernig Íslendingasögurnar urðu til. Það var líka óvenjulegt, og eiginlega einstætt, hvað hann var góður að segja sögur á ensku. Lúlli fór á tvö stór mót í svifflugi erlendis. Í lokahófunum á báðum mótunum hélt hann sölunum gapandi af spennu og undrun. Hann var ennþá betri á ensku en íslensku. Hann laug sig meira að segja inn í Royal Air Force Club, en þar voru aðeins Þorsteinn Jónsson og gömlu ásarnir.“

Ómar lagði þessar sögur Lúðvíks á minnið og skrifaði niður stikkorð. Eina slíka endursagði hann á bloggsíðu sinni árið 2010. Þar segir:

„Ein af mörgum sögunum af ævintýrum Lúlla upp úr miðri síðustu öld var þegar hann var að keppa á alþjóðlegu svifflugmóti, en misreiknaði sig eitthvað og varð að lenda á öryggissvæði kjarnorkuvers.“

Ómar og Lúðvík fylla á vélina TF-GIN.

Þoka í Eyjum

Tvær af sögunum um Lúðvík rötuðu í bókina Í einu höggi sem gefin var út árið 1990. Það er skáldsaga en persónan Baróninn er byggð á Lúðvíki. Í þeirri bók er saga byggð á atviki sem varð í Vestmannaeyjum. Ómar segir við DV:

„Hann kom eitt sinn til Vestmannaeyja þegar Sumargleðin var þar. Þá var þokan alveg niður í braut, algerlega ólendandi. En svo kom hann plaffandi inn. Ég var síðasti maður inn á undan honum og skildi ekkert í því þegar maðurinn mætti. Þá hló hann og sagðist hafa verið heppinn að það hafi verið farið að skyggja. „Nú?“ spurði ég, „Hvernig stendur á því að það sé betra?“ Þá sagði hann: „Ég bað flugumferðarstjórann að kveikja á ljósunum. Svo flaug ég undir þokunni að hamrinum austanverðum, sem er hundrað metra hár, og þá sá ég ljósin upp í þokunni. Þegar ég kom að endanum á hamrastálinu þá lyfti ég vélinni upp og lét hana detta inn á endann. Nú man ég það, hann sá mig náttúrulega aldrei. Ég þarf að láta hann vita að ég sé lentur.“ Hann var alveg einstakur,“ segir Ómar og hlær.

„Hin sagan í bókinni var byggð á partíi á Akureyri. Lúlli hélt okkur þá vakandi til morguns. Hann lifði svo hratt og svo æðislega.“

„Trúir þú ekki þessu? Þá skal ég segja þér annað“

Ómar segir að Lúðvík hafi aðallega flogið vélum Sverris Þóroddssonar, tveggja hreyfla vélum af gerðinni Cessna 310.

„Við flugum einu sinni saman frá Akureyri til Reykjavíkur. Við vorum í blindflugi en hann sagði sögur allan tímann. Hann var svo upptekinn við það að allt í einu vorum við komnir á hvolf og þá þurfti hann að rétta sig af. Þetta gerðist ítrekað. Ég held að við höfum verið hálfa leiðina á hvolfi.“

Eru einhverjar sögur ýktar?

„Jájá. Lúlli ýkti sínar sögur og notaði sérstaka aðferð við að fá fólk til að trúa þeim. Hann sagði einhverja sögu sem var svo fáránlega ýkt að maður sagði: „Lúlli, láttu ekki svona, það trúir þessu ekki nokkur maður.“ En þá kom alltaf sama svarið: „Trúir þú ekki þessu? Þá skal ég segja þér annað.“ Þá kom saga sem var enn ótrúlegri og hún var sögð til að gera þá fyrri sennilegri. Þannig gat hann bætt í sögurnar aftur og aftur og í lokin var maður orðin alveg sannfærður um að fyrstu ein eða tvær væru dagsannar. Ég man ekki eftir að hafa heyrt nokkurn mann haft slíkt vald á frásögnum eins og Lúlla,“ segir Ómar.

Hasar á Grænlandi

Einhver mesti hasarinn sem Lúðvík lenti í var í Grænlandi sumarið 1974 en þá munaði minnstu að hann og tveir félagar hans yrðu undir flóðbylgju þegar ísjaki skall í hafið. Var þessu lýst í Morgunblaðinu þann 21. ágúst árið 1974.

Lúðvík, ásamt Páli Kristjánssyni flugmanni, Hannesi Thorarensen fallhlífarstökkvara og þýskum manni að nafni Thomas Gruler, héldu til Grænlands í tengslum við flugvallargerð í Nansensfirði. Voru þeir á Cessnu-vél í eigu Austurflugs og voru að athuga skilyrði til gerðar flugbrautar í firðinum. Þegar þeir höfðu fundið stað flaug Páll með Hannes til Ísafjarðar en Lúðvík og Thomas urðu eftir á Grænlandi. Þegar vélin sneri aftur frá Íslandi til að sækja þá hvarf hún í mikilli þoku. Voru þá sendar leitarvélar frá Keflavíkurflugvelli og fannst vélin loks í Nansensfirði, á hvolfi.

Var send þyrla frá Kulusuk til að sækja mennina og vél frá Sverri Þóroddssyni send frá Íslandi til að sækja þá til Kulusuk. Þegar þeir lentu loks í Keflavík höfðu þeir sögu að segja. Lúðvík og Páll sögðu að lending Páls hefði gengið að óskum en vélinni hefði hvolft í reynsluflugi.

„Við vildum kanna hvernig flugtakið gengi, og þyngdum við vélina með bensíntunnu, en dr. Gruler beið á jörðinni. Flugtakið gekk að óskum, og síðan komum við aftur til lendingar. Gekk það vel í fyrstu, en þegar vélin var komin að því að stöðvast, sprakk á vinstri hjólbarða, og skipti þá engum togum, að hjólið grófst niður, vélin fór út af brautinni, og hvolfdi,“ sögðu þeir við Morgunblaðið.

Morgunblaðið
Grænlandsfarar lýsa reynslu sinni.

Flóðbylgja skellur á

Þegar þeir komust út úr vélinni sáu þeir að skrokkurinn var ekki mikið skemmdur en annar hjólbarðinn ónýtur. Var þá Þjóðverjinn Gruler sendur upp á næsta fjall með neyðarsendi en hann var þaulvanur fjallgöngumaður. Lúðvík sagði:

„Aftur á móti fórum við að taka ýmislegt úr vélinni. Það fyrsta, sem við tókum, voru framsætin og síðan fengum við okkur sæti í þeim og byrjuðum að lesa nýjustu blöðin, sem Páll hafði komið með frá Ísafirði.“ Sáu þeir þá illan fyrirboða, þrjá hrafna sem flugu að þeim og létu öllum illum látum. „Ég var byrjaður á annarri síðu Morgunblaðsins þegar gífurlegir skruðningar í skriðjöklinum byrjuðu, og skipti það engum togum, að ísborg á stærð við fjall steyptist í sjóinn. Þarna kom hún niður 10-20 kílómetra í burtu frá okkur, og við höfðum ekki miklar áhyggjur.“

Þeir hefðu þó mátt hafa meiri áhyggjur af þessu. Lúðvík hélt áfram:

„Fyrstu sekúndurnar gerðist ekkert annað á firðinum, nema hvað litlir ísjakar voru á hoppi um allt og tókum við eftir því , að þeir hækkuðu á sjónum, þegar miðað var við borgarísjakana. En fyrr en varði var sjórinn kominn upp á fjörukampinn fyrir framan okkur, en hann var í um 1 metra hæð yfir sjónum áður. Við áttuðum okkur strax, gripum það lauslegt, sem var í kringum okkur, og tókum á rás. Heil flóðbylgja og ísjakar eltu okkur, en við náðum upp á hól, sem var þarna skammt frá, í tæka tíð, en þá voru fyrstu jakarnir ekki nema 2-3 metra á eftir okkur. Höfum við sennilega sett Íslandsmet á þessari vegalengd. Það, sem við gátum gripið með okkur, voru neyðarblys, matarpakki, riffill og álsvefnpokar. Það kom í ljós að við höfðum týnt myndavélinni, kíki og fleiru.“

Gruler kom hlaupandi niður af fjallinu þegar hann sá flóðbylgjuna skella á. Hélt hann að Lúðvík og Páll hefðu orðið fyrir henni og væru ekki á lífi. Taldi hann að sjórinn hafi gengið 100-200 metra í loft upp þegar ísfjallið brotnaði.

Félagarnir týndu munum í bylgjunni og flugvélin gjöreyðilagðist. Þeir gátu þó tekið hitamæli, áttavita, klukku og fleira úr henni. Gátu þeir komið sér upp vísi að veðurathugunarstöð. Þá ristu þeir klæðninguna af vélinni og tóku allt sem hægt var að brenna, hjólbarða, felgur og fleira.

Um nóttina sváfu þeir úti í miklum kulda og raka. Skiptust þeir á að vaka og vaktmaður var með riffilinn til að verjast hvítabjörnum. Þeir sáu engar flugvélar fyrr en Herkúlesvél varnarliðsins kom um hádegið næsta dag. Flugmennirnir köstuðu neyðarpakka með mat, talstöð, sígarettum og fleiru til þeirra. Um kvöldið kom danska þyrlan frá Kulusuk að sækja þá.

Lúðvík Karlsson
Lífsglaður ævintýramaður.

Slysið á Kjalarnesi

Í nóvember árið 1974 greindi Morgunblaðið frá því að Lúðvík og Kristján S. Helgason, framkvæmdastjóri hefðu fest kaup á ellefu sæta þyrlu frá Orlando í Flórídafylki. Var hún af gerðinni Sikorsky 55, eða S-55, sömu tegund og varnarliðið á Keflavíkurflugvelli hafði áður notað. Höfðu veitustofnanir sýnt áhuga á að nota vélina í tengslum við margs konar framkvæmdir í byggð og óbyggðum.

Þyrlan hafði ekki farið nema nokkrar ferðir þegar hún hrapaði til jarðar, þann 17. janúar árið 1975. Með henni fórust Lúðvík, Kristján og fimm starfsmenn rafveitunnar. Ferðinni var heitið til Vegamóta á Snæfellsnesi þar sem rafveitustarfsmennirnir ætluðu að fylgjast með framkvæmdum. Nokkrum mínútum eftir flugtak heyrðist dauft kallmerki frá þyrlunni en síðan ekkert meir.

Þyrlan hrapaði skammt frá bænum Hjarðarnesi á Kjalarnesi og töldu sjónarvottar að flugmaðurinn hefði misst stjórn á vélinni, hugsanlega vegna sviptivinda. Í tryggingamáli fyrir hæstarétti árið 1983 var talið að ekki hefði verið um gáleysi að ræða.

Slysið á Kjalarnesi markaði djúp spor fyrir alla viðkomandi. Lúðvík skyldi eftir sig konu og þrjú ung börn og allt flugsamfélagið minntist hans. Ómar Ragnarsson þar á meðal.

Verður þér oft hugsað til hans?

„Já, svo sannarlega,“ segir Ómar. „Þann dag þegar Lúlli hefði orðið fimmtugur komum við allir úr fluginu saman til að minnast hans. Það var athöfn niðri í bæ og upptaka í gangi. Ég rifjaði þá upp allar þær sögur sem ég mundi eftir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

„Ég myndi ekki velja mér lífsþjálfa sem aldrei hefur fengið synjun á kortið“

„Ég myndi ekki velja mér lífsþjálfa sem aldrei hefur fengið synjun á kortið“
Fókus
Í gær

Þetta eru sigurvegarar Golden Globes – Íslendingar fengu sérstaka kveðju

Þetta eru sigurvegarar Golden Globes – Íslendingar fengu sérstaka kveðju
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vinsælasti dagurinn fyrir Íslendinga í leit að ástinni er í dag – „Sturlað“ að gera á stefnumótaforriti

Vinsælasti dagurinn fyrir Íslendinga í leit að ástinni er í dag – „Sturlað“ að gera á stefnumótaforriti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Heilsumarkþjálfinn Erla nefnir dæmi um vörur sem hún segir markaðssettar sem heilsuvörur – „Sem eru það ekki, heldur gjörunnin matvæli“

Heilsumarkþjálfinn Erla nefnir dæmi um vörur sem hún segir markaðssettar sem heilsuvörur – „Sem eru það ekki, heldur gjörunnin matvæli“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Eigandi Airbnb-íbúðar í sjokki eftir að hann komst að því hvað fór fram þar

Eigandi Airbnb-íbúðar í sjokki eftir að hann komst að því hvað fór fram þar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það