fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024

Sjómenn björguðu hollensku pari á Hornströndum

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 12. mars 2019 17:00

Gleðistund Ægir, Jón Halldór, Frank og Nel.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tveir ferðamenn, hollenskt par, lentu í miklum hrakningum sumarið 2001 á Hornströndum. Urðu þau innlyksa í harðneskjulegu landslaginu og sátu föst í rúma viku í tjaldi sínu. Urðu þau loks matarlaus og örvæntingarfull. En þá komu sjómennirnir Jón Halldór Pálmason og Ægir Hrannar Thorarensen þeim til bjargar. Jón Halldór ræddi við DV um björgunina.

 

Engin tilkynningarskylda

„Þau voru búin að vera föst í dalverpi og höfðu ákveðið að reyna að komast inn í Hornvík þar sem bátarnir voru. Það var allur matur búinn hjá þeim og þau höfðu ekkert val. Þegar þau sáu okkur koma stukku þau af stað,“ segir Jón Halldór, sem er sjómaður, búsettur á Ísafirði. Hann og félagi hans Ægir voru á veiðum á Skutli ÍS, lítilli trillu, sunnudaginn 26. ágúst árið 2001.

Var verið að leita að þeim?

„Nei. Þau höfðu ekki skilað sér á þann stað sem þau höfðu pantað en það var ekki óalgengt á þessum tíma að fólk tæki sitt hvorn bátinn til baka til Ísafjarðar, frá sitt hvoru fyrirtækinu. Það er nú búið að stokka þetta kerfi upp í dag, en á þessum tíma var ekki verið að velta þessu fyrir sér og það var engin tilkynningarskylda.“

 

Hrasaði í bratta

Hollenska parið, Frank van Wijk og Nel den Breejen, var á ferðalagi um Hornstrandir í ágústmánuði árið 2001. Hornstrandir eru nyrsti hluti Vestfjarða, óbyggðir í dag og erfitt er að komast á milli staða nema með bátum.

Þau hófu gönguna á Hesteyri á sunnanverðum Hornströndum þann 15. ágúst og voru komin í Rekavík á þeim norðan megin tveimur dögum síðar. Ætluðu þau austur að Hornvík en þurftu að fara yfir brattan fjörukamb til að komast þangað. Þá lentu þau í háska. Þann 28. ágúst þessa árs sagði Frank við Morgunblaðið:

„Við komum skyndilega að mjög bröttum kafla. Fallið var kannski ekki ýkja mikið, kannski 15 metrar, en nóg samt. Ég komst yfir og unnusta mín reyndi líka en var næstum dottin. Við urðum bæði nokkuð skelkuð svo ég sneri til baka og við tjölduðum síðan í Rekavík.“

 

Úrvinda og ráðalaus í stormi

Eftir þessa hættu ákváðu þau að hætta við að fara til Hornvíkur og halda þess í stað vestur í áttina að Aðalvík. Þar áttu þau pantað far með bát viku síðar. Þau fóru ekki sömu leið til baka heldur um Hvannadalsskarð þar sem sú leið virtist auðfær á kortunum.

Þegar á leið varð sú leið sífellt brattari og erfiðari en þau áttu von á. Að lokum voru þau hreinlega óttaslegin um eigið líf og ákváðu því að snúa aftur austur og tjölduðu í Hvannadal. Þá voru þau bæði orðin úrvinda af þreytu og ráðalaus.

Frank og Nel vissu að bátur ætti að koma til Hornvíkur á mánudeginum og vildu þau reyna að komast í hann til að sleppa úr prísund sinni. En þá skall á mikið óveður og báturinn sá ekki tjaldið sem þau hírðust í. Það hvessti mikið og rigndi um nóttina og allur búnaður Hollendinganna varð rennblautur þótt þau hefðu verið inni í tjaldinu og hefðu slegið upp varnargarði í kringum það. Um tíma var tjaldið næstum fokið út í veður og vind. „Stundum vorum við býsna örvæntingarfull, en þess á milli vorum við róleg,“ sagði Frank.

Rekavík
Frank og Nel voru innlyksa í átta daga.

Misstu 5–6 kíló

Þau voru föst í tjaldinu næstu daga vegna veðurs. Stormurinn geisaði aftur næsta dag og síðan tók við mikil þoka og rigning. Þau treystu sér ekki til þess að halda aftur af stað og ákváðu því að halda kyrru fyrir. Jón Halldór segir að símasamband sé lítið sem ekkert á svæðinu og talstöðvarsamband enn erfitt í dag. Frank og Nel höfðu því enga leið til að láta vita af sér.

Þau stóðu einnig frammi fyrir öðru vandamáli, matarskorti. Frank og Nel vissu ekkert hversu lengi þau myndu þurfa að bíða og voru með takmarkaðar matarbirgðir. Þau skömmtuðu sér nauman kost þessa daga og hungrið tók að bíta. „Við borðuðum lítið og misstum reyndar bæði um 5–6 kíló þessa daga,“ sagði Frank.

Nel ræddi við DV þann 28. ágúst. Hún sagði:

„Við þurftum að hafa okkur öll við til að komast af. Veðrið var vont og landið erfitt. Stundum greip okkur örvænting. Þá fórum við gjarnan í hollenska orðaleiki og aðra leiki til þess að dreifa huganum. Við reyndum ýmsar leiðir úr Hvannadal, en allar reyndust þær of erfiðar, ýmist varð að klifra bratta kletta eða synda fyrir ófærur.“

 

Synti út í bátinn

Frank og Nel dóu hins vegar ekki ráðalaus. Þau söfnuðu spýtum til þess að geta brennt þegar rigningunni slotaði. Einnig bjuggu þau til gínu úr drasli úr fjörunni til þess að reyna að ná athygli sjómanna sem kynnu að sigla með fram ströndinni. Þá sáu þau bát Jóns Halldórs og Hrannars. Jón Halldór segir:

„Við vorum að leggja línu þarna fyrir framan þannig að við vorum að sigla að þeim og frá þeim til skiptis. Þegar þau sáu okkur tóku þau belg og veifuðu honum. Við sáum þetta og fórum að athuga með þau. Þá komu þau æðandi út í bát, það var ekkert öðruvísi.“

Syntu þau út í bátinn?

„Já, mig minnir að karlinn hafi komið syndandi út í bát og síðan sigldum við þar sem var grynnra og sóttum konuna. Við gátum gripið hana án þess að hún færi alveg á kaf.“

 

Ætluðu að koma aftur

Hvernig var ástandið á þeim?

„Þau voru hrakin og auðvitað rennandi blaut þegar þau komu um borð til okkar. Þau voru einnig mjög svöng. Við áttum nesti þannig að það fór eitthvað af samlokum í þau og síðan var siglt beint heim til Ísafjarðar.“

Rædduð þið mikið við þau?

„Aðeins. Ferðalagið stóð alveg undir væntingum hjá þeim,“ segir Jón Halldór kíminn. „Þau vissu alveg að þau hefðu ekki verið nógu vel útbúin en ætluðu að æfa sig betur og koma aftur seinna. Þau voru ákveðin í því.“

Jón Halldór veit ekki til þess að Frank og Nel hafi komið aftur til Hornstranda. Kannski koma þau aftur einhvern daginn og sækja þá búnaðinn sinn og tjaldið sem þau skildu eftir.

 

 

 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Þorvaldur kaus utan kjörfundar en grunar að maðkur sé í mysunni – „Hvað ætli Hæstiréttur myndi segja um það kæmi málið til kasta hans?“

Þorvaldur kaus utan kjörfundar en grunar að maðkur sé í mysunni – „Hvað ætli Hæstiréttur myndi segja um það kæmi málið til kasta hans?“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Hvar er Svanberg? – Telur elskhuga eiginkonu Geirfinns hafa lykilupplýsingar í málinu – Hefur farið huldu höfði í Þýskalandi

Hvar er Svanberg? – Telur elskhuga eiginkonu Geirfinns hafa lykilupplýsingar í málinu – Hefur farið huldu höfði í Þýskalandi