„Ástæðan fyrir því að kassarnir hafa ekki verið opnaðir fyrr en nú er sú að við höfum hreinlega ekki vitað hvar og hvernig við ættum að koma þessu fyrir,“ sagði Ólafur Jónsson, listfræðingur á Kjarvalsstöðum. Áttu hlutirnir að verða notaðir til að gefa fólki innsýn í lífshlaup meistarans á aldarafmælinu.
Upp úr kössunum komu ýmsar skissur og uppdrættir, sem voru grunnurinn að sumum af málverkum Kjarvals. Sumt rissað á sígarettupakkningar eða servíettur og annað frá barnæsku. Einnig fundust litaspjöld, málningartúpur og penslar. Eitthvað fannst af beinum, bæði leggir og kjammar sem og steinar, skeljar, ígulker og margt fleira úr náttúrunni. Einnig lampar, skór, hattar, tóbaksklútar, skeifur, styttur, öskjur, bækur og sjúkrakassi svo eitthvað sé tiltekið.
Kjarval var þekktur fyrir að fleygja ekki nokkrum hlut. En vitað var að þegar hann var að pakka ofan í kassana á níræðisaldri þurfti að henda einhverju af mat og fatnaði. Sumt sem var í kössunum hafði verið óhreyft í áratugi. Eitthvað af mat slapp í gegn, til að mynda jólakaka, sem var orðin nánast steinrunnin, og saltfiskur.
Í kössunum fannst til að mynda töluvert af miðum af ýmsum toga. Bíómiðum, rútumiðum, þvottahúskvittunum og reikningum. Inni á milli fannst tjaldbúðamiði frá Alþingishátíðinni árið 1930. Einnig ógrynni af sendibréfum. Voru þetta einstakar heimildir um daglegt líf hans.