Blaðamaður og ljósmyndari Tímans voru á rölti í Austurstrætinu þriðjudaginn 6. september árið 1960. Var þeim brugðið þegar þeir litu inn um búðarglugga og sáu tvo einkennilega ávexti, sem uppstillt var í glugganum. Höfðu þeir ekki hugmynd um hvað þetta var en ávextirnir voru „rauðgulir að lit með grænum blaðabrúsk úr öðrum endanum.“
Forvitnin rak þá inn og spurðust þeir fyrir um þetta framandi aldin. Fengu þeir þá þau svör að þetta væri ananas. Svona liti hann út áður en hann væri sneiddur niður og soðinn ofan í dósir. Einnig komust þeir að því að kílóverðið væri 116 krónur og að hver ananas væri um tvö kílógrömm að þyngd. Kílódós af niðursoðnum ananas kostaði hins vegar ekki nema 45 krónur og 30 aura.