Hinn mikli stríðsmaður frá Makedóníu, Alexander mikli, lagði undir sig stærstan hluta Mið-Austurlanda, allt til Indlands, á 4. öld fyrir Krist. Alexander, sem lést aðeins 32 ára að aldri, giftist í þrígang. Einni konu af ást en tveimur af stjórnmálalegum ástæðum.
Sagnaritarar fornaldar segja frá því undir rós að Alexander hafi sýnt karlmönnum áhuga. Sem dæmi nefna þeir að hann hafi faðmað geldingsþræl sinn Bagoas fyrir allra augum. Samband Alexanders og lífvarðar hans, Hephaestions, hefur verið nefnt í þessu sambandi. Þeir voru mjög nánir og þegar Hephaestion dó ungur fékk það mjög á Alexander. Fráfall hans gæti hafa átt þátt í slæmri heilsu Alexanders síðustu árin, bæði andlegri og líkamlegri. Sagnaritarar segja ekki fullum fetum að Alexander og Hephaestion hafi verið ástmenn, en ýja sterklega að því.
Alexander eignaðist tvo syni. Annan með eiginkonu sinni en hinn með frillu. Hann hélt nokkrar frillur á lífsleiðinni og um tíma átti hann kvennabúr í austrænum stíl. En þangað fór hann sjaldan.
„Maður allra kvenna og kona allra karla,“ eru orð sem hafa verið sögð um rómverska herforingjann og einvaldinn Júlíus Cesar. Gefur það til kynna að hann hafi hneigst jafnt til kvenna og karla.
Rómverskt samfélag var ekki jafn umburðarlynt gagnvart samkynhneigðum og hið gríska hafði verið. Það var lenska að spyrða pólitíska andstæðinga við samkynhneigð til þess að lítillækka þá og sýna þá sem undirgefna. Þetta átti við í því tilviki þegar Cesar var sagður eiga í ástarsambandi við Nicomedes IV., konung Bíþýnu (Norðanvert Tyrkland í dag). Sagt er að jafnvel hermenn Cesar hafi sungið „Cesar lagði undir sig Gallana en Nicomedes lagði Cesar undir sig.“ Sjálfur neitaði Cesar þessum orðrómi, eiðsvarinn.
Kenningin um að Júlíus Cesar hafi verið samkynhneigður lifði hins vegar áfram og hann var orðaður við fleiri menn. Þar á meðal arkitektinn Marmurra og Ágústus, fyrsta keisara Rómaveldis.
Ríkharður I Englandskonungur hefur verið talinn einn mesti herforingi sem borið hefur krúnuna. Hann ríkti frá 1189 til 1199 en var mest alla stjórnartíð sína í hernaði gegn Frökkum, í krossferðum eða í haldi óvina.
Ríkharður var sonur Hinriks II og Elenóru af Aquitaine og gegndi hann stöðu hertoga víðs vegar í Frakklandi. Í Frakklandi gekkst hann Filippusi Frakklandskonungi á hönd og barðist gegn föður sínum. Ríkharður og Filippus voru einstaklega nánir. Aðalsmaður sem þekkti til sagði að þeir borðuðu af sama diski og um nætur aðskildu rúm þeirra þá ekki. Þeir hafi elskast heitt.
Þegar Ríkharður var krýndur og stóð í krossferðum í Landinu helga átti hann ástmann sem hann frelsaði úr dýflissum múslima, hinn franska Raife de Clermon.
Ríkharður var lítið með drottningu sinni, Berengaríu af Navarre, en það hjónaband var ákveðið fyrir þau. Eignuðust þau engin börn en Ríkharður eignaðist einn son með frillu. Einnig eru til sögur um að hann hafi haldið fleiri frillur og hann var því sennilega tvíkynhneigður.
Leonardo da Vinci var þekktasti listamaður og uppfinningamaður endurreisnarinnar, fæddur í Flórens árið 1452. Eftir hann liggja mörg þekktustu verk sögunnar, svo sem Mona Lisa og Síðasta kvöldmáltíðin.
Þegar Leonardo var 24 ára gamall var hann ákærður fyrir sódómísku ásamt þremur öðrum ungum mönnum. Voru þeir sakaðir um að hafa sængað hjá sautján ára karlmellu að nafni Jacopo Saltarelli. Einn af þeim sem sakaðir voru var tengdur hinni voldugu Medici-ætt og ákæran því látin niður falla gegn því að sambærileg mál kæmu ekki aftur upp.
Sams konar kæra kom hins vegar fram mánuði seinna gegn fjórmenningunum og aftur var nafn Saltarelli nefnt. En þar sem ekkert vitni þorði að stíga fram var sú kæra einnig látin niður falla.
Da Vinci átti marga ástmenn á lífsleiðinni og suma þeirra gerði hann teikningar af. Eitt af málverkum hans af heilögum Jóhannesi skírara er talið gert eftir ástmanni hans, Gian Giacomo Caprotti da Oreno, sem var kallaður Salai eða „litli djöfullinn.“
Giovanni Maria Ciocchi del Monte frá Toskana í Ítalíu varð páfi árið 1550 og ríkti í fimm ár. Tíð hans verður ávallt nefnd í samhengi við hneykslismál tengd betlara að nafni Innocenzo del Monte.
Innocenzo var fimmtán ára götudrengur frá Parma sem Júlíus gerði að þjóni á heimili sínu. Eftir að hann var kjörinn páfi ættleiddi bróðir hans Innocenzo. Fékk hann opinbera stöðu innan kirkjunnar, sem „kardínála-frændi“ og mikinn framgang í embætti.
Fljótlega fór af stað kvittur um samband Júlíusar og Innocenzo. Skáld ortu um sambandið og óvinir Júlíusar nýttu sér það. Eftir að Júlíus dó var Innocenzo bannfærður af kirkjunni og hvarf síðan úr sögunni.