fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fókus

Lögregluskjölin: Sjómaður hvarf við hús þekktrar spákonu

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 30. janúar 2019 20:00

Djöflaeyjan Halldór og Jósefína voru fyrirmyndirnar að Tómasi og Karólínu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tímavél DV hefur undanfarið fjallað um beinafundinn við Faxaskjól árið 1975. Blaðið hefur nú undir höndum skjöl rannsóknarlögreglunnar og réttarmeinafræðinga sem gefa sterklega til kynna að beinin hafi ekki alltaf legið í byrginu sem þau fundust í. Einnig hvernig rannsóknin beindist að hvarfi Sveinbjarnar Jakobssonar frá árinu 1930.

Þetta er brot úr stærri umfjöllun í Helgarblaði DV.

Þekkt svallhús

Hvarf Sveinbjarnar Jakobssonar þann 9. október árið 1930 er með þeim dularfyllri í Íslandssögunni og lögreglan rannsakaði það sem sakamál. Sveinbjörn, sem var 45 ára gamall sjómaður frá Ólafsvík, var í heimsókn í Reykjavík eftir vel heppnaðan síldartúr. Um tíma lék grunur á að ábúendur á bænum Sauðagerði tengdust málinu. Þangað var hann keyrður af leigubílstjóra daginn sem hann hvarf. Þegar leigubílstjórinn hafði samband við lögregluna til þess að fá aðstoð við að innheimta túrinn fannst Sveinbjörn hvergi og fólkið í Sauðagerði sagðist ekki kannast við að Sveinbjörn hefði komið þangað.

Sveinbjörn dvaldi hjá Sigríði, dóttur sinni, og tengdasyni á Meistaravöllum í vesturbæ Reykjavíkur í fimm daga. Ætlaði hann aftur heim til Ólafsvíkur kvöldið 10. október með strandferðaskipinu Esju en um borð skilaði hann sér aldrei. Tengdasonurinn, Hjalti Einarsson, tilkynnti hvarfið.

Sveinbjörn var drykkfelldur maður og mikið ölvaður á öðrum tímanum þann 9. október, þegar hann fór frá Meistaravöllum. Sagði Hjalti lögreglunni að Sveinbjörn hefði pantað sér leigubíl og farið að bænum Sauðagerði til þekktrar spákonu er hét Jósefína Eyjólfsdóttir. Í Sauðagerði, sem er nú við Reynimel, var oft glatt á hjalla á þessum árum og oftar en ekki vín haft um hönd. Klukkan þrjú hafi aftur verið hringt á leigubíl fyrir Sveinbjörn. Var honum þá ekið á Laugaveg 33B. Þar hafi Sveinbjörn skroppið inn og síðan farið að Sauðagerði að nýju.

 

Fékk ekki greitt

Leigubílstjórinn sem ók Sveinbirni hét Skúli Eggertsson, 25 ára gamall og starfaði fyrir stöðina Bifröst. Í yfirheyrslu sagði Skúli að eiginmaður Jósefínu, Halldór Sigurðsson á Sauðagerði eða „Halldór rukkari“, hefði hringt og beðið um bíl. Þangað fór hann og beið fyrir utan í fimm mínútur þangað til Jósefína og maður, sem reyndist vera Sveinbjörn, komu út. Í skýrslunni segir:

„Yfirheyrði sá þau stoppa miðja vegu milli bílsins og rauða hússins, sem er þar í námunda, og sneri Jósefína þar við og hvarf bakvið rauða húsið, en kom brátt aftur og sá þá yfirheyrði ekki betur en að Jósefína gengi til mannsins og spenntist þá frakkabarmur mannsins út, líkt og væri verið að láta eitthvað í vasa hans. Fylgdi svo Jósefína manni þessum, sem var mjög drukkinn, að bifreiðinni, opnaði hana fyrir hann og sagði yfirheyrða að aka honum að Laugavegi 33B.“

Skúli sagði jafnframt að Sveinbjörn hefði ekki fundið neina peninga á sér til að greiða fargjaldið, sem var þrjár krónur. Hafi hann þá beðið Skúla að keyra sig aftur að Sauðagerði til að fá lánaða peninga og skipti engu þó það kostaði aðrar þrjár krónur. Þegar þangað var komið fór Sveinbjörn bak við hið téða rauða hús en Skúli beið í alls klukkutíma.

„Kom þá Halldór rukkari neðan úr bæ og piltur með honum, og kallaði yfirheyrði til hans og sagðist bíða hér manns, sem mundi vera á heimili hans og sagði honum jafnframt aðdraganda þess. Fór þá Halldór burtu og kom aftur litlu seinna og sagði, að vegurinn lægi í kringum Sauðagerði og maður þessi mundi hafa farið þann veg að Meistaravöllum því þar ætti hann heima í kjallaranum.“

Sagðist Halldór ekki vita hvað Sveinbjörn héti en Skúli ók að Meistaravöllum þar sem hann hitti fyrir Hjalta. Hjalti sagði Skúla þá að Sveinbjörn hefði ekki skilað sér þangað.

Faxaskjól þar sem bein fundust 1975
Bærinn Austurkot til vinstri.

Jarpur, rúnnvaxinn og með ljóta húfu

Leið nú fram á kvöldið og Hjalti fór að ókyrrast. Gekk hann áleiðis að Sauðagerði og leitaði á þeim stöðum sem Sveinbjörn gæti hafa lognast út af í ölæði, bæði úti í mýrunum og í húsum í nágrenninu. Þegar Sveinbjörn hafði ekki skilað sér heim um morguninn tilkynnti Hjalti hvarfið til lögreglunnar. Einnig fór hann og beið við höfnina þar sem Esja lá bundin við bryggju. Allur farangur Sveinbjarnar var enn þá á Meistaravöllum. Hjalti lýsti Sveinbirni svo fyrir lögreglunni:

„Lágur vexti og rúnnvaxinn, jarphærður með jarpt yfirskegg, frekar rauður í andliti og þreytulegur, augun blágrá. Aldur 45. Klæddur í blá chiviot föt og gráan rykfrakka með ljóta gráa húfu, sem fór honum illa.“

Bætti Hjalti því við að Sigríður, kona hans, hafi fundið að drykkju föður síns og hirt hann fyrir það. Jafnframt að hann hefði tekið því svo illa að við vinslitum lá. Einnig bætti Hjalti því við að Sveinbjörn hefði verið í tygjum við konu að nafni Hrefna Einarsdóttir að Laugavegi 128 og að hún hafi haft af honum peninga.

Sögðust ekki hafa séð Sveinbjörn aftur

Jósefína og Halldór í Sauðagerði voru bæði yfirheyrð vegna hvarfsins. Hvorugt þeirra sagðist hafa séð Sveinbjörn eftir að Skúli keyrði hann til baka að Sauðagerði. Sagði Halldór að Sveinbjörn hefði komið í alls þrjú skipti að Sauðagerði, en sagðist engu að síður ekki vita nafn hans. Þegar hann hafi komið um miðjan dag þann 9. október hafi hann verið mjög drukkinn, með „Sherry flösku fulla óátekna og slatta á annarri.“ Sagðist hann ekki vita hvort Sveinbjörn hafi verið með peninga á sér. Eftir að Hjalti kom til þeirra hefði hann leitað að Sveinbirni á túnunum og einnig síðar um kvöldið.

Jósefína sagði að Sveinbjörn hefði fyrst komið til þeirra þann 8. október eftir að hún sendi eftir honum. Vildi hún þá fá neftóbak frá Sveinbirni því hún vissi að hann tæki í nefið. Var hann þar í kaffi og mjög ölvaður. Morguninn eftir hefði hann komið allsgáður um morguninn og beðið hana um að fara í ríkið fyrir sig. Hann hafi farið þegar hún neitaði en komið aftur síðar um daginn, talsvert ölvaður og með tvær flöskur af Spánarvíni. Hafi hann setið lengi og drukkið, en Jósefína síðan hringt á bíl fyrir hann. Ætlaði hann þá að Laugavegi 33. Þegar bíllinn kom hafði hann gleymt annarri flöskunni sem hún segist hafa sótt fyrir hann.

Þegar Skúli kom hefðu þau hvorugt séð hann koma til baka. Ágústa, systir Jósefínu, hefði hins vegar séð bíl koma að Sauðagerði og mann ganga fram hjá húshorninu hjá Sauðagerði og í áttina að Skálholti. Það var bær í Sauðagerðislandinu, nú Grenimelur 46. Var leitað þar um kring.

„Kl. 11 um kvöldið fór yfirheyrða (Jósefína) til Hjalta og Sigríðar, og voru þau þá bæði háttuð. Eggjaði yfirheyrða þau á að klæða sig og leita Sveinbjarnar, því leitt væri, ef hann hefði kannske eitthvað farið sér að voða, eða sofnað einhvers staðar úti. Neitaði Hjalti að leita, en Sigríður sagði ekkert um það, en sagði að Sveinbjörn hefði verið með peninga, og giskaði á, að hann mundi hafa lent hjá einhverri stelpu.“

Sagðist Jósefína ekkert vita um hvort að Sveinbjörn hefði haft peninga eða ekki.

Halldór og Jósefína voru fyrirmyndirnar að Tómasi og Karólínu úr bókinni og kvikmyndinni Djöflaeyjan.

Gryfjan við Faxaskjól
Til hægri má sjá brotna hauskúpuna.

Bréf frá Las Vegas

Við rannsóknir á höfuðkúpunni sem fannst í Faxaskjóli kom fram að tvær miðframtennur hefur vantað í lifanda lífi og gómurinn hefði verið skakkur. Einnig að höfuðkúpan hefði verið brotin sem gæti hafa orsakað dauðsfallið. Rannsókn lögreglunnar beindist því að því að komast að upplýsingum um tennur Sveinbjarnar.

Skúli og Halldór voru báðir látnir árið 1975 og Jósefína sagðist ekki muna hvort tennur hafi vantað í Sveinbjörn. Sendi lögreglan bréf út til Sigríðar, dóttur Sveinbjarnar, sem þá var búsett í Las Vegas í Bandaríkjunum.

Í svarinu sagði Sigríður að faðir hennar hefði verið með falskar tennur og mundi hún ekki eftir því að hann hefði haft skakkt bit. Hún myndi hins vegar ekki allt og hefði ekki verið í miklum samskiptum við hann. Í bréfinu segir:

„Ég get ekki gefið miklar upplýsingar af föður mínum, meiri en við gáfum þá. Ég hafði lítið af honum að segja. Ég var heima í Reykjavík fyrir þremur árum og reyndi þá að fá allar þær upplýsingar sem ég hélt að kannski fyrir mig lagðar af þeim sem áttu að vita. Bæði í Ólafsvík og Stykkishólmi. Enginn vissi neitt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Eygló byrjaði að stunda sjálfsskaða sem barn – „Ég festist alveg í þessu og þetta varð bara verra og verra“

Eygló byrjaði að stunda sjálfsskaða sem barn – „Ég festist alveg í þessu og þetta varð bara verra og verra“
Fókus
Fyrir 2 dögum

María hlustaði á hjartað og flutti í þorp fjölskyldunnar á Spáni – „Maður þarf að þora að taka áhættu“

María hlustaði á hjartað og flutti í þorp fjölskyldunnar á Spáni – „Maður þarf að þora að taka áhættu“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Íslenska húsið í vinsælustu jólamynd Hallmark í ár er til sölu

Íslenska húsið í vinsælustu jólamynd Hallmark í ár er til sölu