Árið 1994 var NBA-fárið í hæstu hæðum á Íslandi. Krakkar og unglingar skiptust á körfuboltamyndum, vöktu fram á nætur til að fylgjast með Valtý Birni og Einari Bollasyni og fóru í bíó til að sjá skelfilegar bíómyndir á borð við Blue Chips og The Air Up There.
Íslensk börn nötruðu af spenningi þegar tilkynnt var að NBA-stjarna væri á leiðinni til landsins til að kenna þeim listir, frá sjálfu Orlando Magic, sem var eitt heitasta liðið. Skyldi sjálfur Shaq vera að koma eða Penny Hardaway? Nei, það var víst varamaðurinn Anthony Bowie.
Þrátt fyrir að Bowie væri ekki skærasta stjarnan var þó umtalsverð eftirvænting. Bowie kom síðan í byrjun júní og hélt körfuboltabúðir í Austurbergi og Fellaskóla í Breiðholtinu. Pláss var fyrir 88 börn á aldrinum 8 til 18 og kostaði 12.500 krónur. Með Bowie kæmu þrír amerískir þjálfarar úr atvinnumennskunni og háskólaboltanum.
Reyndust búðirnar ákaflega vel heppnaðar. Athygli vakti að Bowie tók með sér Otis Smith, gamlan liðsfélaga úr Orlando Magic og umtalsvert betri leikmann. Einnig kom á daginn að þeir fengu ekkert greitt fyrir námskeiðið heldur virtist það haldið til að breiða út boðskap NBA.
Frægðarsól Bowie, sem var nú ekki skær, seig með hverju árinu eftir þetta og datt hann úr deildinni árið 1998. Þá hafði hann einna helst unnið það sér til frægðar að sýna fortakslausa eigingirni í leik árið 1996 til þess að ná svokallaðri þrefaldri tvennu, þjálfara sínum og liðsfélögum til mikils ama. Bowie endaði ferilinn í Úralfjöllum í Rússlandi árið 2002. Bowie verður aldrei nema neðanmálsgrein í sögu NBA-deildarinnar en á Íslandi var hann sannkölluð stjarna.