Árið 1911 létu fjandmenn Björns teikna skopmynd af honum og hans félögum og var myndinni dreift um allt land. Enginn var skráður fyrir myndinni en hún hefur fengið heitið „Kjötpottur landsins“ enda stendur það á henni miðri.
Myndin er mjög ítarleg og augljóslega mikið lagt í hana. Víða er myndmál og ýmsar tölur sem hægt er að rýna í og túlka. Við kjötpott landsins stendur ráðherrann Björn í líki skepnu og ofan í hann hella landsmenn sínum sköttum. Úr pottinum útdeilir Björn gæðunum til vina sinna sem einnig eru í dýrslíki. Má þarna sjá þingmennina Bjarna Jónsson frá Vogi sem gölt og Björn Kristjánsson sem hrút. Einnig skáldið Einar Hjörleifsson Kvaran sem kött. Fjöldi annarra skepna og tákna eru á myndinni og fyrirtaks gáta til að spreyta sig á.