fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Sigurður Breiðfjörð dæmdur fyrir tvíkvæni

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 6. janúar 2019 20:17

Sigurður Breiðfjörð Kraftaskáld og íbúi í Brúnshúsi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður Eiríksson Breiðfjörð var eitt af merkisskáldum 19. aldar en lifibrauð sitt hafði hann af beykisiðn. Sigurður var rímnaskáld mikið og ótal verk hans hafa verið gefin út á prenti. Minningu hans fylgdi hins vegar alltaf sú skömm að hafa hlotið dóm fyrir tvíkvæni.

Trassaði að skilja í Eyjum

Sigurður var fæddur árið 1798 á Rifgirðingum í Breiðafirði. Hann hélt út til Danmerkur til að nema beykisiðn og starfaði við það víða um land, til dæmis á Ísafirði, í Reykjavík, Flatey og Vestmannaeyjum. Einnig á Grænlandi. Sigurður varð ekki ríkur af þessu og um tíma var hann í óreglu og fór illa með peninga. Kvennamál hans voru einnig mikið til tals.

Árið 1826, þegar Sigurður bjó í Eyjum, gekk hann að eiga Sigríði Nikulásdóttur, vinnukonu í Kornhól. Það hjónaband var ekki sprottið af ást heldur af greiða við kaupmanninn, Andreas Petreus, sem hafði barnað hana. Nokkrum mánuðum síðar eignaðist Sigurður sjálfur barn með með annarri vinnukonu í Kornhól, Guðríði Sigurðardóttur. Það dó hins vegar ungt úr ginklofa. Tveimur árum síðar flutti Sigurður vestur á Snæfellsnes og skildi Sigríði eftir í Eyjum. Hún tók þá saman við verslunarmann að nafni Otti Jónsson.

Dómar, fátækt og drykkja

Árið 1836 flutti Sigurður á Grímsstaði í Breiðavík á Snæfellsnesi og hóf sambúð með Kristínu Illugadóttur sem þar bjó. Eftir eitt ár í sambúð giftust þau en Sigurður hafði aldrei skilið við Sigríði í Eyjum. Gengið var á Sigurð í tvö ár vegna tvíkvænisins og var hann að lokum dæmdur til 20 vandarhögga og hárra fjársekta. Fór svo að konungur náðaði Sigurð hvað vandarhöggin varðaði en sektirnar lágu á honum eins og mara.

Árið 1841 fluttu þau snauð til Seltjarnarness og var Sigurður þá orðinn mjög bitur. Yfirgaf hann jörðina með þessum orðum:

„Fjögur ár lét ég ljá

leiðar þúfur rota,

aldrei vaxi á þeim strá

eigendum til nota.“

Var sagt að túnin á Grímsstöðum hafi aldrei orðið söm eftir þessi álög skáldsins. Sigurður fékk vinnu í Reykjavík en bjó í fátækt, drykkju og heilsuleysi. Fékk hann reglulega köst, hugsanlega flogaveikisköst. Árið 1843 var hann dæmdur til fangelsisvistar fyrir ávísanafölsun en landlæknir beitti sér fyrir því að hann myndi ekki þurfa að sæta þeirri refsingu. Heilsa Sigurðar var þá þannig að líklegt væri að hann myndi ekki lifa lengi og mannúðlegra að hann fengi að deyja heima hjá sér. Hann var hins vegar látinn sitja inni um hríð árið 1845. Ári síðar var Sigurður látinn úr mislingum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“