fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fókus

„Mér var sagt að Hendrik afi og tveir aðrir menn hefðu kastað teningi upp á hver þeirra ætti að kvænast ömmu“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 15. september 2018 20:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kolbrún Erna Pétursdóttir leikkona er fjórða dóttir Péturs Goldstein og Hlínar Guðjónsdóttur en afkomendur þeirra eru nú orðnir 21 talsins og einn á leiðinni. Hún ræddi við DV um þessa merkilegu fjölskyldusögu.

 

Hendrik vann teningakastið

Þetta var nú töluvert af fólki sem var í raun bjargað þegar Henný og Hendrik giftust?

„Já, það munaði nú ekki miklu að það hefði ekki orðið því það átti að henda henni úr landi. Hún „braut lög“ og stóð uppi í hárinu á konunni sem hún vann hjá og fór og stofnaði sitt eigið fyrirtæki.“

Kolbrún segir að fjölskyldan hafi alla tíð verið meðvituð um uppruna sinn en í rauninni hefði hún og systur hennar fengið alíslenskt uppeldi. Jól og páskar voru haldin á íslenska vísu og gyðingdómi ekki sérstaklega haldið að börnunum, þó að við kynntumst einhverjum hefðum hjá ömmu.

„Pabbi minn var meiri Íslendingur í sér en margir í kringum hann. Hann talaði virkilega góða íslensku og leiðrétti okkur systurnar alltaf ef við sögðum eitthvað vitlaust. Einnig var hann fróður um jarðsögu landsins og landafræði. Ég er samt mjög meðvituð um upprunann og hver örlögin hefðu getað orðið. Mér var sagt að Hendrik afi og tveir aðrir menn hefðu kastað teningi upp á hver þeirra ætti að kvænast ömmu. Úr þessu varð þetta fína og ástríka hjónaband.“

Það voru ekki aðeins örlög Hennýjar sem voru að veði. Kolbrún segir að Hendrik hefði bjargað Harry, ömmubróður hennar, og unnustu hans, Hildigerði, einnig.

„Afi fór og lagðist fyrir fæturna á ráðherra til að Harry yrði hleypt inn í landið. Stríðið var að bresta á og Harry var við landamæri Danmerkur þegar ráðist var inn í íbúðina hans.“

„Af sjálfsögðu sá ég alltaf sársaukann“

Grét þegar hún ræddi um fortíðina

Hvernig kona var amma þín?

„Hún var stolt, svakalega stolt kona. Að sjálfsögðu sá ég alltaf sársaukann og var oft að reyna að tala við hana um þetta en það var ekki fyrr en undir það síðasta, og hún var orðin mjög slitin, að hún fór að opna sig um þetta við mig. Flest allt hennar fólk var drepið í fangabúðunum. Tveir frændur hennar náðu að flýja og fluttu til Kanada. Við fjölskyldan höfum haft samband við þá og einnig frænku okkar í Englandi. En það var ekki mikið meira. Ég get vel ímyndað mér að þetta allt hafi haft mikil áhrif á heilsu hennar enda var hún orðin sjúklingur undir það síðasta. Hún var mjög sorgmædd þegar hún ræddi um þetta og grét.“

Talaði hún íslensku?

„Já, hún lærði málið og gerði það. Svolítið bjagaða reyndar og við systurnar hlógum oft að ambögunum,“ segir Kolbrún kímin.

Urðuð þið einhvern tímann fyrir fordómum vegna upprunans?

„Það var frekar lítið talað um það, en pabbi sagðist hafa lent í fordómum endrum og eins. En þó ekkert sem fór illa með hann. Hann var vissulega talinn vera „útlendingurinn“ á þeim stöðum sem hann vann. Ég man sérstaklega eftir því þegar ég var að vinna í fiski í plássi úti á landi og pabbi kom þá með skipi í land. Við hittumst og leiddumst saman eftir götu bæjarins og þá komst sá kvittur á kreik að ég „væri kominn í útlendingana“,“ segir Kolbrún og hlær. „Jújú, auðvitað hafði baksaga okkar áhrif á okkur og uppeldi okkar. En það var ekki verið að tala mikið svona hluti í gamla daga.“

 

Stjórnvöld geta lært af sögunni

Eins og áður hefur verið nefnt fékk Henný íslenskan ríkisborgararétt við giftinguna en Pétur fékk hann hins vegar ekki þó að hann væri aðeins tíu ára gamall. Kolbrún sjálf fór fyrir skemmstu og rannsakaði af hverju það væri.

„Hann fékk ekki ríkisborgararétt fyrr en 21 árs gamall. Þegar ég skoðaði þingræðurnar í tengslum við það hvernig ríkisborgararétturinn var veittur sá ég ýmislegt einkennilegt. Sérstaklega í tengslum við kynþætti. Þeir sem höfðu íslenskt blóð öðrum hvorum megin í ættinni fengu frekar ríkisborgararétt en aðrir og pabbi minn hafði það ekki og börn fengu ekki sjálfkrafa ríkisborgararétt þó að foreldrarnir fengju hann. En einn þingmaðurinn lagðist sérstaklega gegn því að hann fengi ríkisborgararétt af því að hann var ekki með íslenskt blóð. Þetta var kynþáttahyggja og ekkert annað.“

Reynsla fjölskyldurnar hafði mjög sterk áhrif á Pétur og mótaði hans afstöðu í málefnum flóttamanna. Kolbrún segir:

„Pabbi minn hafði mjög sterkar skoðanir í þessum málum og taldi að fólk sem væri að flýja stríð ætti að fá hæli. Hann tók stríðið í Júgóslavíu sem hófst árið 1991 mikið inn á sig og aðstoðaði fólk sem hingað flúði frá átökunum.“

Útlendingamál hafa verið mikið í deiglunni á undanförnum árum og upp komið mál þar sem fólki er vísað úr landi, jafnvel með lítil börn og um miðjar nætur. Kolbrún telur að sín fjölskyldusaga hafi skírskotun í nútímann.

„Við sjáum hvernig Útlendingastofnun neitar fólki um dvöl hér á landi og ekki endilega á forsendum sem fólk skilur. Það er eins og þeir vilji ekki viðurkenna að fólk sé í hættu jafnvel þótt það sé augljóst.“

Finnst þér að stjórnvöld geti dregið lærdóm af þessari sögu?

„Að sjálfsögðu. Sagan sýnir að flóttamenn geta orðið nýtir þjóðfélagsþegnar.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?
Fókus
Í gær

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“