fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Giftingin bjargaði Henný frá helförinni en bróðir hennar myrtur í gasklefunum

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 14. september 2018 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1938 munaði minnstu að Íslendingar vísuðu saumakonu sem hér bjó, Henný Goldstein, beint í gin nasista. Að öllum líkindum hefði það þýtt endalok hennar, sonar hennar og móður, enda voru þau gyðingar. Björgun Hennýjar var sú að íslenskur velvildarmaður, Hendrik Ottósson, var tilbúinn til að kvænast henni og varð hún þar með íslenskur ríkisborgari. Með þeim þróaðist ást sem varði út ævina en Henný missti hins vegar bæði bróður sinn og barnsföður í helförinni.

Þetta er brot úr stórri umfjöllun í helgarblaði DV.

Giftingin lífsbjörg

Á þessum tíma kynntist Henný Hendrik Ottóssyni, tungumálakennara og síðar fréttamanni hjá Ríkisútvarpinu. Hendrik var mjög vinstrisinnaður og gallharður andstæðingur nasista. Auk þess hafði hann mikinn áhuga á trúarbrögðum og sérstaklega gyðingdómi. Hendrik var því í forsvari fyrir þá sem vildu að gyðingar fengju hæli á Íslandi en staða þeirra fór versnandi dag frá degi í Þýskalandi.

Árið 1938 var samningur Hennýjar að renna út og vildi hún þá losna undan honum sem fyrst og stofna eigin saumastofu. En eigandinn undi því ekki og sendi inn tilkynningu til stjórnvalda um að dvalarleyfið væri að renna út og bæri því að vísa henni úr landi.

Hendrik bauðst þá til þess að kvænast Henný og sú varð raunin það sama ár. Eftir giftinguna var Henný orðinn íslenskur ríkisborgari og því ekki hægt að vísa henni úr landi. Eigandi stofunnar kærði Henný hins vegar fyrir samningsbrot og var hún dæmd til að greiða skaðabætur.

Var hún mjög nálægt því að vera send úr landi?

„Ég held að hún hafi verið mjög nálægt því að vera send úr landi og Hendrik hafi bjargað henni á síðustu stundu. Ég efast ekki um að ef henni hefði verið vísað úr landi þá hefði hún þurft að fara aftur til Þýskalands. Á þessum tíma skiptist heimurinn í tvennt, annars vegar voru lönd sem vildu losna við gyðinga og hins vegar lönd sem ekki vildu taka við þeim. Gyðingar áttu hvergi höfði sínu að halla,“ segir Hannes.

Var það illska af hálfu kærandans og stjórnvalda að vilja senda hana úr landi í ljósi þess sem gyðingar máttu þola í Þýskalandi á þessum tíma?

„Ég er ekki viss um að fólk hafi gert sér grein fyrir þessu eða þá lokað augunum fyrir því. Mestu gyðingaofsóknirnar hófust ekki fyrr en eftir Kristalsnóttina, haustið 1938, og það verður að líta á þetta út frá sjónarhorni fólks sem var statt þarna á þessum tíma. Sjálf helförin hófst ekki fyrr en í stríðinu og það var ekki fyrr en eftir stríðið sem umfang ofsóknanna voru ljósar. Við sjáum þetta öðrum augum í dag. Á þessum tíma voru margir sem héldu að fólk sem flytti til Íslands tæki störf frá Íslendingum. Í dag sér fólk að þeir sem koma með nýja þekkingu eru aufúsugestir í hverju þjóðfélagi.“

Í ljósi þess sem á eftir kom, helförin þar sem milljónir gyðinga enduðu í gasklefunum, hefði hæglega værið hægt að ímynda sér að Henný, sonur hennar og móðir, hefðu ekki lifað stríðið af. Mætti því segja að Hendrik hafi bjargað lífi þeirra með giftingunni. En þó að hjónabandið hafi byrjað sem málamyndagjörningur þá þróuðust með þeim miklir kærleikar sem entust út lífið. Sjálfur tók Hendrik gyðingasið og var sá fyrsti sem fermdist upp á gyðinglega vísu (bar mitzvah) hér á landi.

Annar bróðir til Akureyrar en hinn til Auschwitz

Þetta ár, 1938, kom Harry, bróðir Hennýjar til Íslands og settist hér að og segir Hannes að Hendrik hafi gengið mjög hart fram við Hermann Jónasson forsætisráðherra til að koma því í kring. Ástandið í Þýskalandi var þá orðið voveiflegt fyrir gyðinga en Harry hafði áður verið yfirmaður hjá skóframleiðandanum Salamanders. Harry varð að skilja eignir sínar eftir í Þýskalandi, íbúð, bifreið og sumarhús, en með sér tók hann gullúr og myndavél til að selja. Fyrir andvirðið keypti hann grænmetisgarð og seldi hann afurðirnar úr honum. Árið 1939 flutti unnusta hans, Hildegard Heller, einnig til landsins og giftust þau skömmu síðar. Þau settust að á Akureyri undir íslenskum nöfnum, Höskuldur og Hildigerður.

Saga Siegberts, hins bróður Hennýjar, er öllu sorglegri en hann varð einn af þeim milljónum gyðinga sem myrtir voru í helförinni. Siegbert og unnusta hans, Erna, eignuðust sitt fyrsta og eina barn árið 1939, dreng sem fékk nafnið Denny. Þá var stríðið að bresta á og ofsóknirnar gegn gyðingum jukust enn frekar. Henný og Hendrik buðust til að taka við Denny en foreldrar hans vildu ekki senda hann úr landi. Fjölskyldurnar tvær héldu sambandi með bréfaskriftum og var Rauði krossinn milliliður.

Í miðju stríðinu bað Hendrik sænska sendiráðið í Reykjavík að hafa milligöngu um að útvega landvistarleyfi fyrir Siegbert og fjölskyldu hans. Sænsk yfirvöld beittu sér í málinu og sendu fyrirspurn um fjölskylduna vorið 1943. Þá fékkst hins vegar það svar að hún hefði skömmu áður verið send á ókunnan stað. Síðar kom það í ljós að sá staður var Auschwitz, hinar alræmdu útrýmingarbúðir.

Henný komst að þessu en örlög fjölskyldunnar voru henni þó ókunn. Innst inni hefur hún þó sennilega vitað að bróðir sinn, mágkona og bróðursonur væru öll látin. Hvarf Siegberts fékk mikið á Minnu, móður þeirra, en Henný fékk sig samt ekki til þess að segja henni frá því að þau hefðu verið send í Auschwitz. Minna lést á Íslandi árið 1947.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024