Á þessum tíma var fjölkvæni grundvöllur að fjölskylduskipulagi mormóna enda predikaði Joseph Smith að það væri guðdómlegt. En hjónabandið hafði ekki sömu merkingu og hjá flestum öðrum. Mormónakarlmenn kvæntust ekki konum heldur „innsigluðu“ þær, sumar „til eilífðar“ en aðrar tímabundið.
Talið er að Smith hafi átt um 40 eiginkonur en Young sló honum við og innsiglaði 55 konur, flestar til eilífðar. 21 hafði aldrei verið gift áður, 16 voru ekkjur, 6 voru fráskildar, 6 áttu eiginmenn fyrir en óvitað er með stöðu 6 þeirra. Hann eignaðist þó „aðeins“ 56 börn og „aðeins“ með 16 af þeim. Young virtist þó hafa litið á fjölkvænið sem böl og þegar hann heyrði fyrst af boðorðinu sagði hann: „Það var í fyrsta sinn sem ég þráði að komast í gröfina.“
Eiginkonunum kom ekki alltaf vel saman, sérstaklega eftir að Amelia Folsom kom til sögunnar árið 1863. Hún var sú fimmtugasta í röðinni og var í mestu uppáhaldi hjá Young. Hann var þá 61 árs gamall en hún 24 ára.
Young bjó ekki með þeim öllum en til að halda utan um fjölskylduna byggði hann risavaxið raðhús árið 1856 sem kallast Ljónahúsið. Í dag er þar safn og veitingastaður.