Þjóðernishreyfing Íslendinga var stofnuð árið 1933 að þýskri fyrirmynd en helsta kveikjan að stofnun flokksins var Gúttóslagurinn svokallaði, 9. nóvember árið 1932. Kreppan var þá í hámæli og atvinnuleysi mikið og ákvað bæjarstjórn að lækka launin í atvinnubótavinnunni. Eftir fundinn í Gúttó, góðtemplarahúsi Reykjavíkur, þar sem þessi ákvörðun var tekin urðu uppþot og slagur á milli lögreglu og verkamanna. Verkamenn, studdir af kommúnistum, höfðu betur í slagnum og hætt var við tillöguna.
Margir Sjálfstæðismenn yst á hægri vængnum voru ósáttir við slíka „lögleysu“ og fannst flokkurinn ekki hafa bein í nefinu til að takast á við þennan uppgang kommúnista. Einnig voru óánægðir Framsóknarmenn meðal stofnenda sem og fólk sem ekki hafði verið í stjórnmálum áður en hreifst af hinum þýska nasisma og Hitler sem var þá ný orðinn kanslari.
Helstu stefnumál Þjóðernishreyfingarinnar var að vernda íslenska þjóðmenningu og hvíta kynstofninn. Vildu flokksmenn loka fyrir innflutning fólks nema sérmenntað fólk sem Íslendingar þyrftu á að halda. Vandamál flokksins var hins vegar að Ísland var mjög einsleitt samfélag á fjórða áratugnum og lítið af útlendingum á landinu, nema þá Dönum sem komnir voru af kaupmönnum. Þýski nasisminn byggði að miklu leyti á gyðingahatri en sárafáir gyðingar voru búsettir á Íslandi. Íslensku þjóðernissinnarnir beindu því spjótum sínum aðallega að kommúnistum.
Innbyrðisdeilur komu fljótt upp hjá Þjóðernishreyfingunni, líkt og oft gerist hjá nýjum öfgaflokkum, og ollu þær því að flokkurinn klofnaði aðeins ári eftir að hann var stofnaður. Árið 1934 var því stofnaður nýr Flokkur þjóðernissinna. Sá flokkur reyndist mun skipulagðari en forveri sinn og bauð fram til kosninga árið 1934, bæði til Alþingis og bæjarstjórnar Reykjavíkur, en hafði ekki erindi sem erfiði. Hinn nýi flokkur var að miklu leyti sprottinn upp úr ungliðahreyfingu Þjóðernishreyfingarinnar, Fánaliðunum sem marseruðu um með íslenska fána og sungu ættjarðarlög.
Í bæjarstjórnarkosningunum hlaut flokkurinn tæplega 400 atkvæði og 2,79 prósent atkvæða sem var langt frá því að duga fyrir fulltrúa. Í alþingiskosningunum fékk flokkurinn færri atkvæði og samanlagt 0,7 prósent. Ekki var árangurinn betri í næstu kosningum á eftir. Eitt af vandamálum þessara hreyfinga var að margir stuðningsmennirnir voru óharðnaðir unglingar sem höfðu ekki aldur til að kjósa. Þjóðernissinnar náðu eyrum margra nema, bæði í Menntaskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands. Áttu þeir þar bæði inspector scolae og fulltrúa nemendaráðs um tíma.
Bræðurnir Illugi og Hrafn Jökulssynir skrifuðu bókina Íslenskir nasistar árið 1988 sem rokseldist en þar ráku þeir þessa merkilegu sögu sem fæstir Íslendingar þekkja mjög vel. Illugi segir:
„Okkur fannst vanta umfjöllun um íslensku nasistana. Að það hafi yfir höfuð verið til nasistaflokkur á Íslandi hafði verið mikið feimnismál í langan tíma. Ásgeir Guðmundsson sagnfræðingur hafði skrifað nokkuð um þetta í tímaritsgreinum en það vantaði bók. Því gengum við í þetta.“
Illugi segir að margir sem þeir ræddu við hafi ekki haft neinn áhuga á að rifja þennan tíma upp og skelltu þeir miskurteisislega á þá í símanum.
Af hverju gekk þjóðernisflokkunum svona illa að ná fylgi á Íslandi?
„Við fundum aldrei nein góð svör við því en við Íslendingar getum verið ánægðir með að þeir hafi ekki náð neinni fótfestu. Það hefði alveg eins verið hægt að búast við góðu gengi því að þær þjóðernishugmyndir sem hér voru ríkjandi voru ekkert mjög langt frá því sem flokkarnir boðuðu. Efnahagslegur jarðvegur var einnig til staðar þar sem Ísland fór illa út úr kreppunni. En við höfðum vit á því að stíga skrefið ekki lengra en til hefðbundinnar þjóðrækni og fáir sem leiddust út í þessa vitleysu. Sjálfsagt hefðu sterkari leiðtogar skipt einhverju máli en það er ekki gott að segja. Í sumum Evrópulöndum náðu nasista- og fasistahreyfingar fylgi en í öðrum ekki.“
Vildu þeir afnema lýðræðið?
„Já, ábyggilega. Þeir fylgdu þeim fasísku straumum sem bárust frá Evrópu og fyrirlitningu á lýðræðinu en sem betur fer var fylgi þeirra aldrei það mikið að þeir stæðu frammi þeirri spurningu að ræða um framtíðarskipulagið.“
Íslenskir þjóðernissinnar voru fámennur en vel sýnilegur hópur með sína einkennisbúninga og fánahyllingar og sólunduðu aldrei tækifæri til að sýnast stærri en þeir voru í raun. Þannig gekk það allan fjórða áratuginn á meðan fasisminn óx í Evrópu og óveðursskýin hrönnuðust upp. En þegar Bretar hernámu landið þann 10. maí árið 1940 lækkaði hratt á þeim risið.
„Þeir létu lítið fyrir sér fara eftir það. Áhuginn var lítill að ganga til liðs við Þjóðverja fyrir hernámið en eftir það hurfu þjóðernissinnarnir undir yfirborðið. Það komu upp einstök tilvik þar sem íslenskir þjóðernissinnar grýttu hermenn á götum úti en ekkert stóralvarlegt. Margir af þeim gengu þá í Sjálfstæðisflokkinn og sumir urðu áhrifamenn þar. Sumir af þeim áttu að stunda njósnir hér á landi og þeir sem voru erlendis voru jafnvel sendir hingað með kafbátum til þess en sú starfsemi var í skötulíki þegar allt kom til alls. Sumir fóru og börðust á austurvígstöðvunum og sú saga hefur ekki verið sögð nema að litlu leyti enda höfðu þeir ekki hátt um það þegar þeir sneru aftur.“
Hvernig tóku Íslendingar á sínum nasistum eftir stríðið?
„Þeir reyndu að þegja það í hel og þrýstu á að fá handtekna nasista heim til að þeir slyppu við refsingu. Eftir stríðið vegnaði mörgum af þessum mönnum prýðilega í íslensku þjóðfélagi og komust til áhrifa, bæði í stjórnmálum og í viðskiptum. Sjálfsagt fóru einhverjir í hundana eins og gerist en enginn af þeim þurfti að gjalda þess á nokkurn hátt að hafa verið nasisti. Það var þagað um þetta í marga áratugi eftir stríð.“
Hvað varð um þessi öfgafullu viðhorf, frá stríðslokum þar til nýju þjóðernisflokkarnir voru stofnaðir?
„Það var ákveðin þjóðernisbylgja í gangi eftir sjálfstæðið og tiltölulega eðlilegur þjóðernisbelgingur fékk útrás samfélaginu og þótti almennt viðurkennt. En þessi viðhorf hurfu aldrei og lágu alltaf undir yfirborðinu. Þetta sást til dæmis þegar Íslendingar vildu ekki að svartir hermenn kæmu til Íslands til að starfa á herstöðinni í Keflavík.“