1907–1994
Gísli var einn stofnandi og formaður Þjóðernishreyfingar Íslendinga árið 1933 og eftir það var hann gjarnan kallaður Gitler af pólitískum fjendum sínum enda hafði Gísli Adolf Hitler í miklum metum.
Árið 1928 hélt hann til Dresden til náms og hreyfst þar af öllu þýsku og sér í lagi nasismanum. Foreldrar hans stofnuðu dvalarheimilið Grund og átti hann síðar eftir að taka þar við sem forstjóri en á þessum árum var hann frímerkjasali, sá fyrsti á Íslandi.
Ekkert hataði Gísli meira en kommúnisma sem hann kallaði „dulbúna drepsótt“ en hann átti eftir að heyja ýmsar rimmur við þá sem formaður þjóðernissinna, sér í lagi ein slagsmál á kolabing við Reykjavíkurtjörn í apríl 1933. Þar reyndu þjóðernissinnar að hleypa upp samstöðufundi kommúnista en Einar Olgeirsson og fleiri veittust að þeim. Gísli reyndi að stilla til friðar en var þá sleginn í rot og færður til læknis. Seinna var Gísla steypt úr formannssætinu fyrir linkind við kommúnista.
Gísli kom víða við, var formaður íþróttafélagsins Víkings og stofnaði Krabbameinsfélag Íslands. Árið 1987 hlaut hann íslensku fálkaorðuna.