Bjarni fæddist í Reykjavík en flutti sjö ára gamall til Kanada með foreldrum sínum og er búsettur í Vancouver við Kyrrahafið. Hann var ekki aðeins fyrsti Íslendingurinn heldur einnig fyrstur Norðurlandabúa til að ferðast út í geiminn.
Í ferðinni gerði Bjarni, sem er eðlisverkfræðingur, rannsóknir á breytingum í lofthjúpi jarðarinnar.
Hann fór með geimskutlunni Discovery frá Canaveral höfða í Flórída klukkan 14:41 og var alls tólf daga í geimnum. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Guðrún Katrín forsetafrú voru meðal gesta þegar flauginni var skotið á loft.
„Við erum þjóð landkönnuða og landnema og við lítum á þetta sem framhald mikillar víkingahefðar,“ sagði Ólafur.