Tvær vélar flugu inn fjörðinn þennan örlagaríka dag og lét önnur þeirra tvær sprengjur falla, önnur lenti í sjónum en hin sjö metrum frá fjórum drengjum sem voru að leika sér með lítinn bát.
Stór gígur myndaðist við sprenginguna, tveggja metra djúpur og ellefu eða tólf metrar í þvermál.
Drengirnir, sem voru sjö og átta ára, slösuðust mismikið. Verst slasaðist Grétar Oddsson sem taka þurfti af fótlegg við hné.
Í nærliggjandi húsi lék allt á reiðiskjálfi og brotnuðu rúður á þeim vegg sem í átt að sprengingunni sneri. Auk þess urðu skemmdir á öðrum húsum í nágrenninu.
Seyðfirðingar tóku árásinni þó af mikilli stillingu.