fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Fókus

TÍMAVÉLIN: Glímukappi úr Mývatnssveit dæmdur fyrir samkynhneigð

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 2. júní 2018 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Sigurjónsson Hofdal, glímukappi úr Mývatnssveit, var árið 1924 dæmdur til átta mánaða betrunarvinnu fyrir kynferðismök við aðra karlmenn. Var hann því eini Íslendingurinn sem dæmdur var á grundvelli laga frá 1869 um „samræði gegn náttúrulegu eðli.“

 

Ólympíuleikar og stríð

Guðmundur var frá bænum Litluströnd í Mývatnssveit og ólst þar upp í sárri fátækt og tíu systkina hópi eins og segir í bók Þorvalds Kristinssonar, Svo veistu að þú varst ekki hér. Hann flutti til Reykjavíkur árið 1905, æfði glímu og þótti meðal þeirra bestu á landinu. Árið 1908 komst hann í sveitina sem send var á Ólympíuleikana til að sýna glímu. Guðmundur starfaði innan Ármanns en einnig sem íþróttakennari á vegum Ungmennafélags Íslands. Strax á þeim árum fóru kvittir á kreik um að Guðmundur liti fremur til karlmanna en kvenna en á Íslandi var þetta slíkt tabú að varla nokkur þorði að ræða það.

Árið 1913 sigldi hann vestur til Kanada til að læra íþróttaþjálfun og þar féll hann fyrir ísknattleik, enda alinn upp á svellinu á Mývatni. Hann spilaði með og þjálfaði Íslendingaliðið Winnipeg Falcons og árið 1916 fór hann með flestum leikmönnum á vesturvígstöðvarnar til að berjast með Bandamönnum við keisarann þýska. Eftir stríðið bjó hann um stund í Svíþjóð og árið 1920 flutti hann aftur heim til Íslands og tók upp fyrri iðju íþróttakennslu og þjálfunar.

Á Íslandi fékk Guðmundur vinnu á Litla-Kleppi við Laufásveg og aðstoðaði þar geðsjúka. Þetta voru bannárin og Guðmundur var virkur góðtemplari. Iðulega kom hann upp um ólöglega áfengissölu í bænum og kærði til dæmis þrettán menn til lögreglu við litlar vinsældir.

 

Kærður fyrir samkynhneigð

Í janúar árið 1924 var Guðmundur kærður til lögreglunnar í Reykjavík. Maður að nafni Steindór Sigurðsson sagði að Guðmundur hefði í september árið áður ítrekað reynt að fá hann til að hneppa frá sér buxunum og sýna sér ástaratlot. Hefði hann einnig heyrt frá fleirum að Guðmundur væri haldinn „þessum mjög svo sorglega lesti“ að vilja hafa samræði við aðra menn. Steindór sakaði Guðmund einnig um slæma meðferð á geðsjúkum í störfum sínum á Litla-Kleppi. Steindór dró kæruna seinna til baka og viðurkenndi að illvildarmenn Guðmundar úr sprúttheiminum, Kristmann Guðmundsson og fleiri, hefðu boðið honum fé en rannsóknin hélt engu að síður áfram og málið var höfðað.

Réttarhöldin yfir Guðmundi hófust í undirrétti þann 28. febrúar og fjórtán manns báru vitni. Guðmundur neitaði öllu til að byrja með og ljóst var að kæran um illa meðferð var röng. En eftir að vitnaleiðslur hófust var Guðmundur settur í gæsluvarðhald og þá játaði hann að hafa átt í samböndum við karlmenn um nærri tveggja áratuga skeið, þar á meðal nokkurra þeirra sem vitnuðu í málinu. Hann sagðist einnig hafa hneigðir til kvenna en aldrei unglinga undir 16 ára aldri.

Enginn vitnaði um að samfarir í endaþarm hefðu átt sér stað en löggjöf víða um heim gegn samkynhneigð beindist sér í lagi gegn „sódómíu.“ Skýrasti vitnisburðurinn kom frá tvítugum manni sem sagði að Guðmundur hefði nýtt sér ölvunarástand hans, boðið honum á Litla-Klepp og þar bæði fróað honum og veitt munngælur.

 

Fordæmalaus niðurlæging

Dómari komst að þeirri niðurstöðu að Guðmundur væri einn gerandi í málinu og sekur. Aðrir, sem viðurkennt höfðu að hafa stundað kynlíf með honum, voru taldir þolendur og sluppu við refsingu, þar á meðal 23 ára gamall maður sem titlaður var unglingur. Var Guðmundi gerð átta mánaða refsing í betrunarvinnu.

Virðist þó sem dómurinn hafi reynst yfirvöldum vandræðalegur og hófst afplánunin ekki fyrr en níu mánuðum eftir uppkvaðningu. Guðmundur Thoroddsen læknir og Guðmundur Björnsson landlæknir gagnrýndu dóminn og töldu löggjöfina úrelta. Þeir töldu að nútímavísindi sýndu fram á að Guðmundur hefði ekki framið neinn glæp. Ætla má að þessi þrýstingur hafi valdið því að Guðmundur afplánaði aðeins þrjá mánuði.

En félagslegur skaði var skeður. Guðmundur missti vinnuna og hraktist tímabundið úr ungmennafélagsstarfinu. Í bók Þorvalds segir: „Niðurlæging hans var einsdæmi og auðmýking hans tengdist engu í reynsluheimi Íslendinga þeirrar tíðar.“ Fimm árum síðar sneri hann aftur í glímuna og gat sér gott orð allar götur síðan þótt pískrað væri um hann. Guðmundur lést árið 1967.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það

Fer í gegnum síma eiginmannsins á hverju kvöldi og skammast sín ekkert fyrir það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Boða grundvallarbreytingar á Söngvakeppninni – Ekkert einvígi og alþjóðleg dómnefnd

Boða grundvallarbreytingar á Söngvakeppninni – Ekkert einvígi og alþjóðleg dómnefnd
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að „flensubomban“ geti gert kraftaverk í veikindum – Svona er uppskriftin

Segir að „flensubomban“ geti gert kraftaverk í veikindum – Svona er uppskriftin
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Það er gaman að sjá þessa konu við hliðina á honum, sem er styrkurinn hans og ýtir honum út fyrir þægindarammann“

„Það er gaman að sjá þessa konu við hliðina á honum, sem er styrkurinn hans og ýtir honum út fyrir þægindarammann“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024

Vinsælustu heyrnartólin á skrifstofuna 2024
Fókus
Fyrir 5 dögum

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife

Málin sem vöktu mesta athygli á árinu á Fókus – Afmælisferð sem breyttist í martröð, strákarifrildi og hættur Tenerife