fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

TÍMAVÉLIN: Freddabar: „Þetta snerist um að vera alltaf með það nýjasta og fylgjast vel með“

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 20. maí 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Leiktækjasalurinn Freddi, sem staðsettur var í miðborg Reykjavíkur, lifir í huga margra Íslendinga sem eru að komast á miðjan aldur. Þar hengu unglingar og ungt fólk og dældi smápeningum í kassa með Pac Man, Donkey Kong og fleiri sígildum leikjum. Viggó Sigurðsson handboltakappi, sem rak Fredda í sextán ár, ræddi við DV um þennan tíma.

 

Kynntist leiktækjunum í Þýskalandi

Það mætti segja að leiktækjasalirnir ættu ættir sínar að rekja til 17. aldar þegar fyrsti kúluspilakassinn var smíðaður í Frakklandi í tíð Loðvíks XIV. Á fjórða tug síðustu aldar var græjan tengd við rafmagn og fljótlega á sjötta og sjöunda áratugunum urðu kúluspilastaðir vinsælir.

The Who sungu um kúluspilagaldrakarlinn árið 1969 og þremur árum síðan kom fyrsti vinsæli tölvuleikjakassinn fram á sjónarsviðið, Pong frá Atari. Fleiri leikir fylgdu í kjölfarið og leiktækjasalir spruttu upp víða um heim, meira að segja á Íslandi sem var þó aftarlega á merinni hvað varðar tækninýjungar á þessum árum. Jóker voru með tvo sali, við Grensásveg og í Bankastræti, Kaupland voru með sali í Einholti og við Aðalstræti og á Laugaveginum, við hlið Stjörnubíós, var Vegas. Jarðvegurinn var frjór fyrir þessa starfsemi á Íslandi.

Árið 1981 er þó eitt stærsta árið í íslenskri tölvuleikjasögu því þá opnaði Viggó Sigurðsson handboltaleikmaður leiktækjasalinn Fredda í húsinu Fjalakettinum við Aðalstræti 8 í Reykjavík. Viggó spilaði á þessum árum með liðinu Bayer Leverkusen í Þýskalandi og þar sá hann allt það nýjasta og besta í þessum geira. Leiktækin flutti hann síðan beint inn, bæði nýjustu tölvuleikina og kúluspilin, frá Þýskalandi og Bandaríkjunum.

Viggó rak Fredda í alls sextán ár, samhliða handboltaiðkun og þjálfun.

Viggó Sigurðsson

Hiti í borgarstjórn

Samkeppnin harðnaði og staðirnir spruttu upp eins og gorkúlur. Árið 1983 voru þeir orðnir tíu talsins í Reykjavík en Freddi stóð upp úr sem sá vinsælasti. Helsti samkeppnisaðilinn var þá Tralli á Skúlagötu. Viggó passaði upp á að endurnýja leikina og innleiða nýja tækni, svo sem fyrsta lasergeislatækið sem flutt var inn. Það sendi myndina beint á skerminn með aðstoð tölvu og bauð upp á bestu myndgæðin.

„Þetta snerist um að vera alltaf með það nýjasta og fylgjast vel með. Við Tralli áttum markaðinn á þessum tíma og gekk vel á báðum stöðum. Þá kassa sem ég var hættur að nota gat ég síðan selt, til dæmis til Eden í Hveragerði þar sem var stór leiktækjasalur.“

Fljótlega var Freddi búinn að sprengja Fjalaköttinn utan af sér og vildi flytja yfir á Tryggvagötu 32, við hliðina á ESSO-stöðinni á horni Tryggvagötu og Kalkofnsvegar árið 1984, í húsnæði sem var sérhannað fyrir leiktækjasal með fjörutíu tækjum.

Flutningurinn varð hins vegar hitamál í borgarstjórn og barnaverndarnefnd lagðist gegn flutningnum og sagði húsnæðið of lítið fyrir starfsemina.

Meirihluti Sjálfstæðismanna og Framsóknarflokkur samþykktu opnun hins nýja Freddabar á Tryggvagötu en vinstrimenn og einn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði á móti.

Viggó í Morgunblaðinu 29.apríl 1984

Boxpúðar og bílaleikir vinsælir

Seinni hluti níuna áratugarins og fyrri hluti þess tíunda var gullöld Freddabars og var staðurinn sá langvinsælasti í borginni. Staðurinn var opinn frá klukkan tíu á morgnana til hálf tólf um kvöldin.

En fáir mættu snemma nema þeir sem voru að skrópa í skólann eða unglingavinnuna. Í Fredda hópuðust unglingar saman, ekki aðeins til að spila leikina heldur einnig til þess að hittast, spjalla og jafn vel fara á stefnumót.

Var Freddi eins og félagsmiðstöð?

„Já, þetta var það stundum, og þegar á leið hættum við að hafa opið á kvöldin um helgar því fólk var farið að líta á þetta sem partístað. Sumir komu ölvaðir þarna inn og til að forðast leiðindi og vandræði þá lokuðum við klukkan níu á föstudögum og laugardögum.“

Var troðfullt önnur kvöld?

„Kannski ekki troðfullt en það var alltaf mjög góð aðsókn. Tækninni fleygði stanslaust fram og það var alltaf eitthvað nýtt að sjá og prófa, til dæmis þegar þrívíddarspilararnir komu fram.“

Hverjir voru vinsælustu leikirnir?

„Í upphafi var það Pac Man, sem allir muna eftir, og Donkey Kong var rosa vinsæll. Svo kom boxleikur þar sem fólk barði í púða, hann gekk mjög vel. Bílaleikirnir, sem fólk settist inn í, voru líka alltaf mjög vinsælir.“

Nokkrum sinnum var haldið keppnismót á Fredda, í ákveðnum leikjum með veglegum verðlaunum. Viggó nefnir til dæmis keppni sem haldin var í febrúar árið 1993 í leiknum NBA Jam. Keppnin stóð yfir í fjórar vikur og var gerð í samstarfi við Pepsí. Þeir tveir keppendur sem stóðu uppi sem sigurvegarar unnu ferð á NBA leik í Bandaríkjunum.

Pressan 20. desember 1990

Dópsölum hent út

Árin 1985 til 1995 þjálfaði Viggó ýmis lið hérna á Íslandi en þegar honum bauðst staða hjá þýska liðinu Wuppertal árið 1996 ákvað hann að selja Fredda til Tralla. Skömmu seinna hætti staðurinn.

„Leikjatölvurnar komu á markaðinn og þá dempaðist þetta smátt og smátt niður,“ segir Viggó og á þá við tölvur á borð við Nintendo, Sega, Playstation og fleiri sem fólk gat spilað í sjónvörpunum heima hjá sér.

Eins og áður segir var starfsemin óvinsæl hjá sumum aðilum, þar á meðal barnaverndarnefnd Reykjavíkur sem taldi leiktækjasalina vágest hjá unglingunum og vildi helst banna alla slíka staði.

Sagt var að unglingarnir skrópuðu í skólann til þess að spila og leiddust jafnvel út í vasaþjófnað til að fjármagna spilunina. Í sölunum væri verið að búa til spilafíkla.

„Þetta var óvinsæl starfsemi hjá sumum aðilum sem voru með mikinn áróður gegn starfseminni en þetta gekk fínt fyrir sig að öllu leyti,“ segir Viggó. „Fólk komst yfir þessa móðursýki, sem er oft fylgifiskur nýjunga, þar sem sagt var að leikirnir myndu skaða heilann í börnunum. Ég las alls konar hluti um þetta í blöðunum.“

Fannst þú beint fyrir þessari andstöðu?

„Nei, en lögreglan fylgdist vel með og vissi hvað var í gangi í leiktækjasölunum. Við pössuðum okkur því alltaf á því að hleypa ekki dópsölum og öðrum óæskilegum inn. Við vorum mjög strangir og ég leyfi mér að fullyrða það að Freddabar var alltaf hreinn. Það voru alltaf tveir á vakt og það þurfti oft að vísa krökkum út.“

Morgunblaðið 15. október 1985

Nafnið lifir

Árið 2014 var opnaður nýr staður undir nafninu Freddi en þá algerlega ótengdur fyrri eigendum. Hinn nýi staður var fyrst á Ingólfsstræti 2 en fluttist síðan yfir á Bankastræti 0 þar sem hann er enn.

Það er ekki aðeins nafnið Freddi sem er vísun í gullöld leiktækjasalanna heldur svífur nostalgían yfir vötnum í leikjaúrvalinu. Þar má sjá klassíska leiki eins og Pac Man, Donkey Kong, Mortal Kombat og NBA Jam. Líkt og á hinum gamla Fredda hafa verið haldin mót í ákveðnum leikjum og til dæmis varð rapparinn Emmsjé Gauti þar Íslandsmeistari í Donkey Kong árið 2015.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024