Fyrstu hugmyndir að Stöð 3 komu fram árið 1988 þegar fyrirtækið Ísfilm vildi koma henni á legg. Í nóvember varð stöðin loks að veruleika en þá á vegum Íslenska sjónvarpsins hf. í eigu Árvakurs, Japis, Sambíóanna og fleiri. Illa gekk að finna nothæfa myndlykla fyrir starfsemina sem þýddi að stöðin fékk engar áskriftartekjur. Dagskrá Stöðvar 3 byggði á erlendu, aðallega bandarísku, skemmtiefni, en auk þess sendi hún út erlendar stöðvar á borð við CNN, MTV, Discovery Channel og Eurosport. Í október árið 1996 óskaði Íslenska sjónvarpið eftir nauðasamningum og Íslensk margmiðlun hf. tók yfir reksturinn. Í janúar árið 1997 virtust málin vera að leysast. Réttu myndlyklarnir fundust í Sviss og fimm starfsmenn Stöðvar 2 voru ráðnir, sem reyndar voru sakaðir um að hafa stolið trúnaðargögnum. Mánuði síðar rann Stöð 3 inn í Stöð 2 og hættu þá útsendingarnar.