fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

TÍMAVÉLIN: Brutust inn í Kanasjónvarpið og spreyjuðu á veggi

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 11. maí 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kanasjónvarpið er það sem Íslendingar kölluðu sjónvarpsstöð bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli. ARFTS Keflavik, eða Armed Forces Radio and Television Service Keflavik, hét hún fullu nafni og var starfrækt í rúma hálfa öld.

Sumir tóku því fagnandi að fá ókeypis útsendingar á góðu bandarísku efni en aðrir töldu stöðina ógna menningu og þjóðerni Íslendinga.

Fréttir og skemmtun fyrir dátana

Árið 1941 var samið um að Bandaríkjamenn tækju við vörnum Íslands af breska hernámsliðinu og tugþúsundir amerískra dáta streymdu til landsins. Árið 1943 var Keflavíkurflugvöllur byggður og undir lok stríðsins var hann gerður að aðalbækistöð hersins.

Í stríðinu kom herinn upp tímabundinni útvarpsstöð til að miðla fréttum, áróðri og skemmtiefni. Þegar Íslendingar sömdu um áframhaldandi varnir Bandaríkjahers árið 1951 var hafist handa við að koma á fót varanlegum ljósvakamiðlum fyrir dátana.

Útvarpið kom fyrst, í nóvember sama ár og varnarsamningurinn var undirritaður, en styrkur útsendingarinnar var lítill. Hálfu ári síðar fékkst leyfi frá íslenskum stjórnvöldum fyrir tíföldun útsendingarstyrksins og náðist þá útsending um allt land. Jafn framt fékkst leyfi fyrir því að útvarpa allan sólarhringinn.

Stefna hersins var að koma upp sjónvarpsstöð í Keflavík líkt og í öðrum herstöðvum en það reyndist mun viðkvæmara. Leyfi frá íslenskum stjórnvöldum fékkst árið 1954 með skilyrðum um takmarkaða útbreiðslu og fyrsta sjónvarpsstöðin á Íslandi hóf útsendingar 4. mars árið 1955.

Bonanza, Perry Mason og Roy Rogers

Þó að leyfi stjórnvalda hafi verið bundið því að reynt yrði að beina útsendingum aðeins að Keflavíkurstöðinni þá náðust útsendingarnar á öllum Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Á sumum heimilum var keypt inn sjónvarp og varð þá yfirleitt mjög gestkvæmt því allir vildu sjá dagskrána.

Tækin voru dýr en þó nokkuð blómlegur endursölumarkaður ef marka má þann fjölda sem var auglýstur í smáauglýsingum dagblaðanna.

Til að byrja með skildu ekki allir Íslendingar hvað fór fram enda var enskukunnátta á sjötta áratugnum ekki jafn útbreidd og í dag. En Íslendingar vöndust þessu efni í síauknum mæli og „Kanasjónvarpið“ eða „Kaninn“ festi sig í sessi. Árið 1962 fóru íslensk dagblöð meira að segja að birta dagskrána.

Dagskráin hófst klukkan 17 virka daga og stóð fram að miðnætti.

Þarna voru sýndir margir af þekktustu sjónvarpsþáttum þess tíma eins og Bonanza, Ozzie and Harriet, Perry Mason, The Real McCoys, Peter Gunn og spjallþáttur Bobs Hope.

Á laugardögum hófst dagskráin klukkan 10 um morgun með barnaefni á borð við Kiddie’s Corner og Roy Rogers. Á sunnudögum hófst dagskráin um hádegi með messu. Auk þess var stöðin með sína eigin fréttatíma og fréttaskýringarþætti sem oft og tíðum báru keim þess að vera áróður.

Helga Kress, Stúdentablaðið mars 1966

Tveir forsetar mótmæltu

En ekki voru allir sáttir við innreið bandarísks frétta- og menningarefnis á íslensk heimili.

Dagblaðið Frjáls þjóð var stofnað til höfuðs þessum áhrifum og Sósíalistar, og síðar Alþýðubandalagsmenn, börðust hart gegn því. Talað var um ómenningu sem myndi tortíma íslenskri tungu og menningu.

Það var heldur alls ekki eldra fólkið sem lét í sér heyra því stúdentar við Háskóla Íslands voru sennilega einn háværasti hópurinn og fremst í flokki fór Helga Kress, síðar prófessor. Í Stúdentablaðinu árið 1966 skrifaði hún:

„Það má telja eðlilegt, að bandarískir hermenn vilji hafa sitt sjónvarp. En það er ekki eðlilegt, að íslenzkir ráðamenn leyfi ótilkvaddir, að áhugi þjóðarinnar á andlegum verðmætum sé slævður með smekklausri hermannaskemmtun.“

Með greininni fylgdi áskorun 600 stúdenta til stjórnvalda um að stöðva útsendingar Kanasjónvarpsins utan herstöðvarinnar. Meðal þeirra voru Ólafur Ragnar Grímsson, Vigdís Finnbogadóttir, Svavar Gestsson, Ragnar Arnalds og Ellert B. Schram.

 

Ungmenni lögðu undir sig stöðina

Þetta ár, 1966, tók hóf Ríkisútvarpið eigin sjónvarpsútsendingar og sífellt fleiri landsmenn eignuðust sjónvarpstæki. Upp úr því komu fram kröfur frá framleiðendum bandarísks skemmtiefnis að varnarliðið ætti að greiða hærri gjöld þar sem útsendingin næðist langt út fyrir herstöðina. Brugðist var við þessu haustið 1967 með því að minnka styrk útsendingarinnar. Áttu þær þá að ná einungis yfir Suðurnesin og syðsta hluta Hafnarfjarðar en í raun náðist stöðin enn þá í Reykjavík.

Unga fólkið var enn þá reitt og vildi Kanasjónvarpið burt. Sunnudagskvöldið 16. nóvember árið 1969 brutust tuttugu mótmælendur gegn stríðinu í Víetnam inn á sjónvarpsstöðina og lögðu hana undir sig. Meðal þeirra sem stóðu að aðgerðunum voru Birna Þórðardóttir og Róska, þekktir aðgerðasinnar.

Þau komu inn á völlinn í tveimur hópum, sumir þóttust vera að taka á móti ættingjum úr farþegaflugvél en aðrir klifruðu yfir vírgirðingu vallarins. Þegar þau komust inn í húsakynni stöðvarinnar spreyjuðu þau á veggi slagorð á borð við „Viva Cuba“, „Vietnam will win“ og „Brainwash center“. Síðan settust þau í hring á miðju gólfinu og héldust í hendur uns lögreglan kom og handtók þau. Útsending var rofin í fimmtán til tuttugu mínútur á meðan þessi atburðarás átti sér stað.

Stangir og greiður, Alþýðublaðið 6. september 1974

Stöðin sett í kapal

Útsendingar Ríkissjónvarpsins urðu sífellt vinsælli og raddirnar gegn Kanasjónvarpinu sífellt háværari. Í Þjóðviljanum birtust margar gagnrýnisgreinar þar á meðal frá Einari Braga, skáldi og rithöfundi, árið 1973 þar sem hann fór fram á að einkaréttur Ríkissjónvarpsins væri virtur:

„Stundum heyrist sú viðbára, að hér sé aðeins um æskilega samkeppni að ræða í líkingu við sendingar útvarpsstöðva víða um lönd, sem menn geta hlustað á eftir frjálsu vali. Það er átakanlegt ef fullorðnir menn eru svo óskýrir í hugsun, að þeir greini ekki grundvallarmuninn á þessu tvennu. Ameríski herinn starfrækir skóla á Vellinum fyrir börn hermanna … Ætli margur yrði ekki dálítið hvumsa, ef hermenn af Keflavíkurvelli kæmu einn morguninn stikandi í skólana og gerðu kröfu til að fá að taka við uppfræðslunni að hálfu og kenna ensku?“

Vissulega voru margir sem horfðu frekar á Kanann en Ríkissjónvarpið, svo margir að dagskráin var birt í dagblöðum vel inn í áttunda áratuginn.

Fólk á jaðri útsendingarsvæðisins kostaði miklu fé til að koma sér upp magnara og alls kyns búnaði til að ná stöðinni. En þrýstingurinn hafði áhrif og árið 1974 var stöðin færð í kapalkerfi.

Urðu þá margir Íslendingar svekktir og Albert Guðmundsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fram þingsályktunartillögu um að leyfa útsendingar Kanasjónvarpsins. Var hún felld með 40 atkvæðum gegn 5.

Einn yfirlýstur Sjálfstæðismaður skrifaði í Morgunblaðið árið 1976:

„Mér finnst það vera hrein og bein skömm, að við skulum ekki sjálf fá að ráða hvaða sjónvarpsefni við horfum á. Hvergi í heiminum eru eins miklar hömlur lagðar á í slíkum efnum. Sjónvarpið á Keflavíkurflugvelli er stofnun, sem ríkið greiðir ekki með og því engin ástæða til að loka því. Það er talið að nokkrum ofstopafullum körlum og konum, sem vilja láta mikið á sér bera, að allt sem aflaga fer í þessu landi svo og glæpir stafi af Keflavíkursjónvarpinu. Þetta eru auðvitað ekkert annað en móðursjúkar hugsanir.“

Raddir af þessum toga heyrðust alveg fram á tíunda áratuginn. Mörgum fannst dagskrá Ríkissjónvarpsins leiðinleg og auk þess voru engar útsendingar á fimmtudögum. Með tímanum dofnuðu þessar raddir og þegar einkarétti ríkisins á ljósvakamiðlum var aflétt árið 1986 voru þær svo til horfnar enda jókst framboð þá til muna. Kanasjónvarpið var starfrækt á Keflavíkurflugvelli alveg þangað til herstöðinni var lokað árið 2006.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“