fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fókus

Hákon Sturluson einbúi var kynlegur kvistur

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 8. desember 2018 18:00

Stiklur Hákon með bréfpokahattinn.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hákon Sturluson var einbúi sem bjó á Hjallkárseyri við Arnarfjörð á síðustu öld. Líkt og Gísli á Uppsölum varð hann nokkuð þekktur þegar hann kom fyrir sjónir landsmanna í viðtölum bæði í sjónvarpi og dagblöðum. Eins og fleiri einbúar var Hákon kynlegur kvistur með sérstakar skoðanir. Bjó hann án allra nútímaþæginda og hafði í sig með sauðfjárbúskap og refaskytteríi.

 

Ekki hrifinn af heimsóknum

Það var Ómar Ragnarsson sem vakti fyrst athygli landans á Hákoni árið 1984 í Stiklum. Hjallkárseyri var þá eitt minnsta bæjarstæði á landinu, norðan megin í Arnarfirði, mitt á milli Hrafnseyrar og Mjólkárvirkjunar. Þá heimsótti Ómar hann með myndatökuliði en Hákon kunni því illa.

„Ég er ekki hrifinn af því,“ sagði Hákon um heimsóknina en brosti þó. Þegar Ómar spurði Hákon hvort hann væri ekki ánægður með að fjallvegurinn yrði opnaður í báðar áttir neitaði hann því. „Það er alveg djöfull. Það er allur friður búinn.“ Sagðist hann kunna vel við sig í einverunni upp til fjalla. „Helst þar sem ég sé engan.“

Hákon var Barðstrendingur að uppruna og gjarnan kallaður Konni og var sum árin á Þingeyri yfir veturinn. Hann gat þó sjaldnast beðið eftir að komast aftur heim á eyrina þó að húsið þar væri lítið og hrörlegt bárujárnshús.

 

Las ekkert og var sama um útlendinga

Hákon bjó áður á jörðinni Borg í Arnarfirði. Var hann þá með konu að nafni Guðmunda. En jörðin var tekin eignarnámi þegar Mjólkárvirkjun var byggð. Var honum boðið að vera þar áfram ef hann sinnti mjólkurframleiðslu fyrir starfsfólk virkjunarinnar. En hann vildi engar kýr hafa.

Á níunda áratugnum og fram á þann tíunda, þegar hann var orðinn aldraður maður, bjó hann þar án allra nútímaþæginda. Rafmagn, heitt vatn, sími og sjónvarp var þar ekkert. Sjálfur sagði hann að það blési og fennti í gegnum veggina. Hann nýtti þó hitann af sauðfénu og hundarnir voru hans félagsskapur.

„Þægindin eru nóg fyrir mig,“ sagði Hákon. Honum sagðist hins vegar ekkert líða neitt sérstaklega vel þarna, frekar en annars staðar. „Nei og andskoti. Mér líður bara enn þá verr í kaupstað.“ Eina tæknin sem Hákon hafði var útvarpstæki. Notaði hann það einungis til þess að hlusta á veðurfréttir. Ekkert las hann heldur. Með öðrum fréttum, innlendum eða erlendum, fylgdist hann ekkert.

„Þetta útlenda kjaftæði. Djöfulinn kemur mér það við þó þeir drepi eitt og eitt kvikindi einhvers staðar úti í heimi?“

Hákon hafði hins vegar skoðanir á ýmsum málum. Fannst honum til dæmis að það ætti að leggja niður alla stóriðju í landinu.

„Andskotans vitleysan í Straumsvík og Grundartanga. Þeir ættu að vera með þetta helvíti í eyðimörkum. Mér finnst að það eigi ekki að vera með þetta helvíti þar sem að gróður er, þetta drepur allan gróður. Við eigum bara að vera nægjusamir eins og ég. Gamli tíminn var miklu betri heldur en þessi djöfulsins vitleysa sem núna er. Mikið betri.“

Hjallkárseyri
Húsin eru nú öll horfin.

Læknirinn í sjúkrabörunum

Sem dæmi um sérvisku Hákonar þá nefndi hann einn hundinn á bænum með pomp og prakt. Var honum kastað í læk og fékk nafnið Snæbjörn. Þá gekk hann gjarnan með bréfpokahatt. Aðeins einu sinni í viku eldaði hann fyrir sig og hundana. Þá mjög mikið.

Þrátt fyrir að vera einbúi á afskekktum stað þá var Hákon nokkuð víðförull. Hafði hann meðal annars búið í Reykjavík um tíma. Endrum og sinnum hitti hann nærsveitunga sína, á mannamótum og samkomum. Til dæmis þegar Vigdís Finnbogadóttir heimsótti sveitina. Sagðist hann hafa kosið hana. Jafnframt sagðist hann hafa verið mikill samkvæmismaður á sínum yngri árum og leitað í glauminn.

„Ætli ég drepist ekki hérna,“ sagði Hákon, þá 63 ára gamall. „Það er enginn sem bíður eftir manni hérna. Maður getur lagst bak við stein og beðið eftir góðu veðri. Ég hef nú staðið af mér él en lítið sofið.“ Sagðist hann vilja láta heygja sig í báti uppi á hól, eins og fornmenn gerðu.

Hákon var þekkt refaskytta og skaut hátt í tíu tófur á hverjum vetri. Tók hann af þeim skinnin og verkaði þau sjálfur. Annað skaut hann ekki. Stæka óbeit hafði hann hins vegar á minknum. „Hann er viðbjóður,“ sagði hann ómyrkur í máli við Ómar. „Ég hef nú skotið þá ef þeir koma í færi. Ég hef skotið fjóra minka.“

Um það leyti sem Ómar heimsótti Hákon fékk gamli maðurinn hjartaáfall. Neitaði hann fyrst um sinn að fara með sjúkrabílnum til Ísafjarðar. Eftir þriggja tíma rekistefnu féllst hann á að fara en sat frammi í og hafði kindabyssu í beltinu. Læknirinn sem var með í för þurfti að liggja á sjúkrabörunum á leiðinni til baka.

Hákon náði sér og var í nokkur ár til viðbótar á Hjallkárseyri við búskap og refaskytterí. Hann lést þann 3. október árið 1992, sjötugur að aldri. Bærinn að Hjallkárseyri er nú horfinn sem og húsin sem þar stóðu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Í gær

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi

Kynlífsóðu klámstjörnunni sparkað úr landi
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“

„Konur sem sætta sig við framkomu sem þær eiga ekki skilið eru kannski í samböndum sem þeim líður ekki vel í“