fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

Kínverjar lögðu sitt af mörkum til að stríðið myndi vinnast

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 30. desember 2018 19:00

Bandamenn. Tugþúsundir Kínverja börðust í Evrópu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrri heimsstyrjöldin var blóðug og mannskæð í Evrópu og hafði mikil áhrif á atburði næstu áratuga. Í henni tókust mörg Evrópuríki á og bárust á banaspjót. En það vita kannski ekki allir að um 2,4 milljónir asískra hermanna börðust á evrópsku vígstöðvunum og að 300.000 til 500.000 þeirra féllu, margir þeirra frá Kína. Kínverjar lögðu því sitt af mörkum til að stríðið ynnist en í kjölfar stríðsins töpuðu þeir hinu diplómatíska stríði.

Kína, Japan og Indland léku stórt hlutverk í fyrri heimsstyrjöldinni sem var háð í Evrópu. Margir Asíubúar og Evrópubúar vita hins vegar ekki um þessa þátttöku Asíuríkjanna í „stóra stríðinu“ eins og það var kallað í Asíu. Stuðningur Asíuríkjanna við Vesturveldin hafði mikil áhrif á þróun Asíu og hvernig hún er í dag.

Árið 1917 bauð hið nýja kínverska lýðveldi Bretum að senda 96.000 Kínverja til Evrópu til að styrkja breska herinn. Bretar þáðu þetta boð með þökkum og það sama gerðu Frakkar þegar þeim voru boðnir 40.000 Kínverjar til styrktar franska hernum. Kínverjarnir voru þó ekki hermenn heldur voru þeir einhvers konar stuðningssveitir við herina, þeir sáu um ýmis störf sem þurfti að sinna til að hermennirnir gætu barist. Þeir fengu laun fyrir störf sín og þeir sáu um þvotta, hlúðu að særðum, sáu um birgðaflutninga og héldu innviðum herjanna gangandi. Þeir sóttu særða og látna á vígvöllinn og fluttu skotfæri til vígstöðvanna.

Japan var rísandi veldi á þessum tíma en landið hafði skotist inn í klúbb stórveldanna þegar japanski sjóherinn sigraði þann rússneska 1905 og með því að gera Kóreu að nýlendu 1910. Á síðustu árum fyrri heimsstyrjaldarinnar var mikilvægt að hafa yfir öflugum sjóher að ráða en Bretar voru komnir í þá stöðu að geta ekki lengur varið skip sín fyrir þýskum kafbátum. Japanir sendu því herskip til Miðjarðarhafs til að fylgja breskum kaupskipum og það sama var uppi á teningnum á Atlantshafi og Kyrrahafi.

Fyrri heimsstyrjöldin
Kínverskir túlkar.

Skorti reynslu

Þegar friður komst á í Evrópu í nóvember 1918 voru bæði Kínverjar og Japanir í liði sigurvegaranna. En það kom Kínverjum illa að þá skorti reynslu og herstyrk til að koma vel út úr þeim samningaviðræðum sem þá hófust. Hershöfðingjar og pólitíkusar komust að þeirri niðurstöðu að það væri mikilvægara til langs tíma litið að hafa Japani góða heldur en Kínverja. Menn óttuðust að Japanir myndu standa utan við Þjóðabandalagið, forvera SÞ, og ekki taka fast sæti í öryggisráði þess ef kröfum þeirra yrði ekki mætt. Það var því gengið að þeim kröfum Japana að þeir fengju að halda þeim svæðum sem Þjóðverjar höfðu hernumið á meginlandi Kína. Þetta varð síðar stuðpúðinn í hernámi Japan á norðurhluta Kína.

Kínverjar töpuðu þessu diplómatíska spili því vestræn ríki, þar á meðal Bandaríkin, litu með réttu á Japan sem nýtt herveldi á heimsvísu sem væri mikilvægt að eiga góð samskipti við. Japanir stóðu stórveldum þessa tíma fyllilega á sporði hvað varðaði tækni, stjórnmál, diplómatíska hæfileika og getu. Kína var á hinn bóginn veikburða ríki, þar ríkti ringulreið og samfélagið var óskipulagt og í augum Evrópumanna líktist það ekki væntanlegu stórveldi. Þetta var í hróplegu ósamræmi við hugmyndir kínversku elítunnar á kínversku samfélagi en hún taldi það vera ævafornt menningarsamfélag sem ætti eðlilega að vera á toppi fæðukeðju hins þekkta heims.

Versalasamningurinn hafði því miklar afleiðingar í Kína. Þegar innihald hans lá fyrir brutust út mikil mótmæli í Peking og öðrum stórborgum Kína. Í Shanghaí var ráðist á bresku ræðismannsskrifstofuna og byggingar sem tengdust Japan á einhvern hátt. Biturleiki og sárindi vegna misheppnaðrar taktíkur í Evrópu varð til þess að þetta nýja, brothætta lýðveldi lét undan og hrundi til grunna. Ný uppreisnarhreyfing leit dagsins ljós og út frá henni urðu síðan til pólitískar hreyfingar sem hafa sett mark sitt á Kína alla tíð síðan. Má þar nefna þjóðernissinnann Chiang Kai-Shek og Mao Zedong með kommúnistana. Samhliða grimmdarlegu framferði Japana braust blóðugt borgarastríð út. Það stóð til 1949 þegar kommúnistar sigruðu og þjóðernissinnar flúðu til Taívan þar sem þeir sitja enn þann dag í dag.

En fyrri heimsstyrjöldin hafði ekki aðeins áhrif í Kína því hermenn frá Indlandi, Víetnam, Kambódíu og fleiri ríkjum börðust í henni. Þeir upplifðu því hryllinginn með eigin augum og fréttir bárust til Asíu af átökunum svo almenningur gat fylgst með því sem gekk á. Fram til þessa höfðu nýlenduþjóðirnar verið álitnar yfirburðaþjóðir og eiginlega fyrirmyndir elítunnar í Asíu. En nú snerist dæmið við og pólitískir vindar fóru að blása sem kröfðust frelsis frá evrópsku nýlenduherrunum. Upp úr þessum jarðvegi varð til hugmyndafræði og stjórnmálamenn sem mynduðu sjálfstæðishreyfingarnar sem kröfðust sjálfstæðis eftir síðari heimsstyrjöldina. Versalasamningurinn og fyrri heimsstyrjöldin höfðu því mikil áhrif á þróun mála í Asíu.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur

Hannes Hólmsteinn opnar sig um sambúðina í Brasilíu – 47 ára aldursmunur
Fókus
Í gær

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“

Fékk þær erfiðu fréttir að hann yrði líklega ófrjór eftir meðferðina – „Við fengum einn mánuð til að reyna“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna

Tilnefningar til Writers Guild-verðlaunanna
Fókus
Fyrir 2 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“

„Einn af helstu kvikmyndahöfundum sögunnar og maður sem bjó til ný viðmið í sjónvarpi“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“

„Það er þjóðarharmur þegar heilt byggðarlag á Íslandi verður fyrir slíkum náttúruhamförum“