Það var hins vegar ekki lögreglan í Reykjavík sem náði honum heldur maður að nafni Vagn Jóhannesson. Hann var glímukappi og notaði einmitt fangbrögð úr glímunni til að leggja nakta manninn að velli.
Þetta föstudagskvöld, um klukkan hálf tíu, var Vagn í mestu makindum á heimili sínu að Sjafnargötu 8. Hann var búinn að koma sér vel fyrir, í innisloppnum og inniskónum, þegar nágrannastúlka af neðri hæð hússins bankaði upp á. Hún var á fermingaraldri og sagði Vagni að nakti maðurinn alræmdi væri úti á Sjafnargötunni að sýna dónalegar kúnstir. Það þó kalt væri og snjór á götum.
Vagn kastaði af sér sloppnum og hélt rakleiðis út á götuna þar sem hann fann nakta manninn. Var hann staddur úti á miðri götu, fyrir framan hús númer 4. Hann var þó ekki alls nakinn, enda miður vetur. Var hann með buxurnar á hælunum og skyrtuna bretta upp yfir kviðinn. Þegar nakti maðurinn sá Vagn koma aðvífandi, girti hann upp um sig og tók öskrandi á rás.
Vagn lét það ekki aftra sér og hljóp á eftir honum. Varð úr mikill eltingaleikur í gegnum garða og yfir girðingar Þingholtanna. Fyrir horn og yfir götur í slabbi og myrkri. Á Fjölnisvegi endaði leikurinn því að nakti maðurinn rakst þar á stóran vegg sem hann komst ekki yfir. Vagn var þá þegar kominn nokkuð nálægt honum.
Nakti maðurinn gafst hins vegar ekki upp heldur sneri sér snöggt við og kýldi Vagn, sem kom hlaupandi, fast í bringuna. Vagn lét það ekki á sig fá og beitti nú brögðum úr íþrótt sinni á nakta manninn. Felldi Vagn hann með hnéhnykk og stökk síðan ofan á hann. Eftir nokkrar ryskingar í jörðinni náði Vagn hálstaki á nakta manninum. Gat hann ekki losað sig og þrengdi nú svo að öndunarveginum að hann varð öllu rólegri.
Íbúar í nálægum húsum tóku vitaskuld eftir þessari óvanalegu rimmu og fylgdust með henni. Þegar Vagn hafði náð hálstakinu komu aðrir út og aðstoðuðu hann við að halda nakta manninum. Var hann færður inn í nálægt hús og hringt á lögregluna. Þar var hann vaktaður uns lögregluþjónar komu og höfðu hann á brott með sér.
Kom þá í ljós að maðurinn var amerískur hermaður og óvíst hvort hann væri undir áhrifum áfengis. Fannst mönnum líklegra að hann væri haldinn einhverjum andlegum kvillum. Fréttist þó ekki meira af honum.