fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fókus

Uppþotið á Litla-Hrauni

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 2. desember 2018 18:00

Spenna í loftinu Óeirðaseggirnir leiddir út í bíl.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fangelsisuppþot eru vinsæll efniviður í Hollywood-bíómyndum og flestum Íslendingum fjarlægur veruleiki. Sumarið 1993 sauð hins vegar upp úr í fangelsinu að Litla-Hrauni. Til átaka kom og fangavörðum og fangelsisstjóranum var hótað lífláti. Kalla þurfti til aukalið frá Reykjavík og Selfossi til að ná tökum á ástandinu. DV ræddi við fangavörð sem var í uppþotinu miðju.

Fangaverðir flúðu af ganginum

Aðfaranótt þriðjudagsins 24. ágúst árið 1993 fundu fangaverðir á Litla-Hrauni umbúðir utan af róandi lyfjum. Eftir það var ákveðið að kalla út aukavakt og gera allsherjar leit í fangaklefunum klukkan sex morguninn eftir. Við leitina fundust fíkniefni og einnig ýmis tól, svo sem hnífar, skæri og skrúfjárn.

Fangarnir urðu margir órólegir við leitina. Voru þeir sparkandi, kallandi og hótandi allan þriðjudaginn. Til að slá á spennuna var ákveðið að aðskilja helstu ólátaseggina frá hinum og flytja þá í fangelsið á Selfossi. Fyrsti fanginn var fluttur klukkan sjö um kvöldið. Síðan var annar fluttur. Þegar átti að flytja þann þriðja sauð upp úr.

Sex fangaverðir voru á vakt og þrír voru á ganginum að taka hann. Fanginn lét mjög illa og náði að brjóta rúður. Þegar fangaverðirnir ætluðu að færa hann í járn komu aðrir fangar aðvífandi. Voru þeir um tuttugu talsins, æpandi og öskrandi og hótuðu fangavörðunum. Alls voru 52 fangar á Litla-Hrauni. Fangaverðirnir héldu á fanganum og brutu sér leið í gegnum mannfjöldann en ákváðu síðan að sleppa honum til félaga sinna.

Á þessum tímapunkti var ástandið í húsinu orðið voveiflegt. Fangaverðirnir þrír sáu þann kost vænstan í stöðunni að koma sér af ganginum því fangarnir voru farnir að hóta að drepa þá. Fóru þeir út til hinna og lokuðu að sér og var þá enginn eftir á ganginum.

 

Samkomulag svikið

Á þriðjudagskvöldinu róaðist ástandið. Fangaverðirnir fóru inn á ganga og sömdu við fangana. Ef þeir færu inn á klefana sína á venjubundnum tíma, klukkan hálf tólf, yrði ekkert fleira aðhafst í málinu.

Á miðvikudagsmorgninum tók önnur vakt við. Ákváðu þá fangelsisyfirvöld að flytja sex mestu óeirðaseggina frá þriðjudeginum í einangrunarvist í Síðumúlafangelsinu. Klukkan átta voru klefarnir opnaðir hjá öllum nema þeim. Var föngunum jafnframt tjáð að það kæmi ekki til greina að þeir tækju stjórn fangelsisins og þessi uppákoma yrði að hafa afleiðingar. Um það yrði ekki samið.

Varð þá allt vitlaust þar sem föngunum fannst yfirvöld hafa svikið samkomulagið frá þriðjudagskvöldinu. DV ræddi við fangavörð sem var á staðnum, en hann vill ekki láta nafns síns getið.

„Þeir voru vondir út í framkvæmdastjóra fangelsisins og fannst hann ósanngjarn. Þetta voru menn sem voru búnir að vera í dópi.“

Gústaf Lilliendahl var á þessum tíma framkvæmdastjóri og beindist mikil reiði gegn honum. Útbjuggu fangarnir til dæmis mótmælaskilti sem á stóð „Rekið Gústaf.“

 

Gústaf Lilliendahl
Fangelsisstjórinn á Litla-Hrauni.

Ætluðu að stinga fangelsisstjórann

Ráðgert var að taka einn og einn einangrunarfanga út úr fangelsinu. Þegar sá fyrsti var færður úr klefanum sínum hafði hann í hótunum. Réðst hann svo að aðalvarðstjóranum og sló hann með stól. Var hann þá járnaður niður.

Lögreglubíll kom til að sækja hann og flytja til Reykjavíkur um hádegið. Þá trylltust fangarnir á ganginum, brutu rúðu og köstuðu hlutum í lögreglubílinn. Skömmu seinna var náð í annan af sexmenningunum. Hann stökk hins vegar á fangavörð og sparkaði í hann. Sá fangi var járnaður á höndum og fótum og fluttur beinustu leið í Selfossfangelsið. Fangavörðurinn segir:

„Eftir að þeir brutu rúðuna tóku þeir glerbrotið og ætluðu að skera framkvæmdastjórann með því og ætluðu að drepa hann. Það er nú eins og gengur og gerist þegar menn eru dópaðir og kolruglaðir. Ég gekk þá að þeim sem hélt á brotinu og sagði honum að láta mig hafa það samstundis. Hann gerði það.“

Urðuð þið hræddir?

„Nei, við vorum aldrei smeykir. Þetta tók nokkuð fljótt af og við náðum að stoppa þetta. Þeir hlýddu okkur fyrir rest enda áttu þeir ekkert sökótt við okkur fangaverðina. Þetta voru flestir ágætismenn en ólátabelgirnir voru teknir úr umferð.“

 

Síðumúlafangelsið
Einangrunarvist fyrir uppþotsmenn.

Víkingasveit og þyrla

Eftir þetta voru mikil læti í húsinu og kallað var á aukalið sem barst um klukkan þrjú. Alls komu fjörutíu manns, lögreglumenn frá Selfossi og víkingasveitarmenn frá Reykjavík. Þyrla frá Landhelgisgæslunni kom og sveimaði yfir Litla-Hrauni. Þá var slökkviliðið haft í viðbragðsstöðu.

Var föngunum gerð grein fyrir að víkingasveitin væri komin og að loka ætti alla fanga inni í klefum sínum. Það gekk vel og tók alls um sex mínútur. Klukkan hálf fjögur kom víkingasveitin inn og fjarlægði fimm fanga til viðbótar og fór með þá í einangrun í Síðumúlafangelsinu.

Eftir að rykið hafði sest síðar um daginn var haldinn blaðamannafundur á Litla-Hrauni. Voru þar bæði Gústaf og Haraldur Johannessen fangelsismálastjóri. Sögðu þeir að uppþotið hefði verið vegna hertari reglna innan fangelsisins. Nokkuð hefði verið um strok fyrr um sumarið og því reglurnar stífari en vanalega. Þetta hefðu fangarnir ekki sætt sig við. Tveir af ólátaseggjunum hefðu reyndar verið meðal þeirra sem tóku þátt í stroktilraununum.

Á fundinum sögðu þeir að eftirlitið yrði hert enn frekar. Það væri aftur á móti vandkvæðum háð í ljósi þess að einangrunarrými væru fá í fangelsinu og takmarkaðir fjármunir eyrnamerktir fangelsismálum. Alls tóku um fjörutíu fangar þátt í uppþotinu en um tíu höfðu sig mest í frammi. Voru verðirnir nokkuð smeykir í ljósi þess hversu mikið magn af vopnum hafði fundist á þriðjudagsmorgninum. Haraldur sagði:

„Það er nauðsynlegt að efla gæslu því aldrei að vita hvað glæpamenn gera.“

Var ákveðið að Rannsóknarlögregla ríkisins og lögreglan á Selfossi rannsakaði uppþotið. Að sögn fangavarðarins sem DV ræddi við var eftirlitið aðeins hert næstu dagana á eftir uppþotið. Þá voru ekki fleiri fangar teknir inn á tímabili.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Eygló byrjaði að stunda sjálfsskaða sem barn – „Ég festist alveg í þessu og þetta varð bara verra og verra“

Eygló byrjaði að stunda sjálfsskaða sem barn – „Ég festist alveg í þessu og þetta varð bara verra og verra“
Fókus
Fyrir 2 dögum

María hlustaði á hjartað og flutti í þorp fjölskyldunnar á Spáni – „Maður þarf að þora að taka áhættu“

María hlustaði á hjartað og flutti í þorp fjölskyldunnar á Spáni – „Maður þarf að þora að taka áhættu“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Íslenska húsið í vinsælustu jólamynd Hallmark í ár er til sölu

Íslenska húsið í vinsælustu jólamynd Hallmark í ár er til sölu