fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fókus

Ungliðar í Betel brenndu geisladiska og bækur

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 8. desember 2018 17:00

Brennan í Betel Ókristilegur boðskapur fór á bálið.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1995 komst Snorri Óskarsson og söfnuður hans Betel í Vestmannaeyjum rækilega á kortið. Var það vegna þess að ungmenni safnaðarins höfðu komið saman og kastað geisladiskum sínum og bókum á bálköst. Vakti þetta ugg hjá mörgum og myndaði hugrenningatengsl við bókabrennur nasista. Í samtali við DV segir Snorri nú að þessi atburður hafi verið slitinn úr samhengi og þetta hafi í raun verið einkastund ungmennanna frekar en einhver skilaboð út á við.

 

Andleg tiltekt
Morgunblaðið 9. nóvember 1995.

Tónlist með djöfullegan boðskap

Söfnuðurinn í Eyjum var ekki stór, aðeins um hundrað sálir. Í stafni stóð Snorri Óskarsson kennari sem stóð fyrir ýmislegu starfi í bænum. Ári fyrir brennuna stóð Betel til að mynda fyrir útsölumarkaði sem komst í fréttirnar vegna þess að þar var Bleikt og blátt selt um tíma. Þegar Snorri komst að því var tímaritinu snarlega kippt úr sölu.

Um þetta leyti var söfnuðurinn að stækka hratt og fjöldi ungs fólks gekk Snorra á hönd. Mest var þetta fólk á aldrinum átján ára til tvítugs. Árið 1995 var greint frá því í flestum dagblöðum landsins að ungmennin hefðu brennt geisladiskana sína, þá sem hefðu „djöfullegan boðskap“ og „ókristilega texta.“ Einnig bækur sem samrýmdust ekki hugsjón safnaðarins. Sum ungmennin höfðu áður brennt nokkra diska og bækur í einrúmi eða litlum hópum. Ein brennan var mjög stór og þar voru brenndir á sjötta hundrað geisladiskar, um milljónar króna virði. Snorri segir við DV að þetta hafi verið í eina skiptið sem svona stór brenna var haldin.

„Þetta er samt mjög algengt hjá fólki sem tekur til hjá sér. Þarna voru unglingar sem voru að taka til í sínu lífi. Þeir tóku sig saman og ég sjálfur kom lítið að þessu.“

Af hverju brenna frekar en að henda í ruslið?

„Það var hvort tveggja gert.“

Átti brennan að sýna einhvers konar hreinsun?

„Nei, frekar tiltekt. Þau gerðu þetta saman af því að þau vildu annan lífsmáta en þetta efni bauð upp á. Þau ætluðu að tileinka sér kristilegan lífsmáta. Þess vegna fóru þessir diskar, eins og KISS og allt þetta. Það var kjarninn í þessu. Þetta voru mestmegnis plötur með vinsælum hljómsveitum.“

Höfðu þessir krakkar verið í drykkju eða neyslu?

„Þau voru mörg hver búin að vera í drykkju, en ég er ekki viss um með neyslu eiturlyfja. Það var sjaldgæfara á þessum tíma.“

 

Iron Maiden, Madonna og Darwin

Stór hluti geisladiskanna sem enduðu á bálinu innihélt þungarokk, sem Snorri kallaði djöflarokk. Auk KISS enduðu til að mynda plötur bresku sveitarinnar Iron Maiden á kestinum. Einnig var poppplötum fleygt á bálið, til dæmis með söngkonunni Madonnu. Sagði Snorri það vegna siðleysis og kynvillu. Af bókum sem enduðu á bálinu má nefna Mein Kampf eftir Adolf Hitler. Einnig rit sem innihéldu klámfengnar tilvísanir og bækur vísindamannsins Charles Darwin.

Hvernig var metið hvaða plötur og bækur áttu að fara á bálið?

„Þau mátu þetta sjálf. Það var enginn sem mat þetta. Við hugsuðum málið út frá því hvað Biblían segði, hvað þau vildu og hvað hentaði ekki þeim lífsmáta sem þau væru að ganga inn í. Það var enginn sem latti þau eða hvatti varðandi þetta.“

Snorri segir að brennan hafi vakið sterk viðbrögð í þjóðfélaginu og fjölmiðlar hafi leikið þar stórt hlutverk.

„Þegar blaðamenn komast í mál eins og þessi þá blása þeir þau upp. Við sjáum þetta til dæmis núna með þingmennina og Klausturspjallið. Þú veist hvað gerist þegar menn fara á barinn og spjalla, þá veltur eitt og annað upp. Nú var þetta grafalvarlegt af því að þetta voru þekktir menn og alþingismenn. Svo þegar þetta kemur fyrir alþjóð fórna allir höndum. En er nokkur betri en þeir?“

 

Tekist á í háskólanum
Tíminn 18. nóvember 1995.

Fordæming þjóðfélagsins

Brennan var víða fordæmd í fjölmiðlum. Í leiðara Alþýðublaðsins, sem greindi fyrst frá brennunni, stóð: „Trúarofstæki er bæði ógeðfellt og hættulegt. Þeir menn sem telja sig erindreka almættisins, prókúruhafa guðs og sérfræðinga í sannleikanum hafa leitt ómældar hörmungar yfir mannkynið. Slíkir menn sá frækornum fyrirlitningar í frjóa jörð fáfræðinnar. Uppskeran er þröngsýni og dómharka.“

Betel var á allra vörum og boðað var til málþings í Háskóla Íslands. Þar tókst Snorri á við guðfræðinemann Davíð Þór Jónsson, nú prest í Laugarneskirkju, um brennuna, kristin gildi og öfgar.

Voruð þið þá ekki að reyna að senda skilaboð með brennunni?

„Þetta var fyrst og fremst prívat. Þau voru að gera þetta fyrir sig sjálf. Eðlilega rennur hugur fólks til nasistanna þegar það heyrir orðið bókabrenna. En ég er nú búinn að vera kennari í yfir fjörutíu ár og á hverju einasta vori tóku krakkarnir kennslubækurnar og brenndu þær,“ segir Snorri og hlær. „Og það var enginn sem kippti sér upp við það.“

Ertu enn á þeirri skoðun að þetta sé góð aðferð, að brenna list?

„Já, ég er það. Ég fer með ýmislegt í sorpið og það er brennt veit ég. Það er ósköp eðlilegt. En þetta eru ekki þannig aðferðir að við séum að framkvæma einhvers konar djöflabrennu. Margir taka gamlar bækur og óæskileg rit og fleygja þeim.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Eygló byrjaði að stunda sjálfsskaða sem barn – „Ég festist alveg í þessu og þetta varð bara verra og verra“

Eygló byrjaði að stunda sjálfsskaða sem barn – „Ég festist alveg í þessu og þetta varð bara verra og verra“
Fókus
Fyrir 2 dögum

María hlustaði á hjartað og flutti í þorp fjölskyldunnar á Spáni – „Maður þarf að þora að taka áhættu“

María hlustaði á hjartað og flutti í þorp fjölskyldunnar á Spáni – „Maður þarf að þora að taka áhættu“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni

Dennis Rodman fær það óþvegið frá dóttur sinni
Fókus
Fyrir 3 dögum

Íslenska húsið í vinsælustu jólamynd Hallmark í ár er til sölu

Íslenska húsið í vinsælustu jólamynd Hallmark í ár er til sölu