Sigurður Bergsson hét vinnumaður á bænum Minni Grindli í Fljótum í Skagafirði. Hann átti tólf ára gamlan son sem var lýst sem vesælum að vexti. Þessi sonur átti það til að stela mat úr búrinu vegna svengdar og þoldi húsbóndinn það illa. Skipaði hann Sigurði því að hirta drenginn.
Sigurður húðstrýkti son sinn fyrst í bæjardyrunum og skipaði honum að afklæðast sem hann gerði. Batt Sigurður þá reipi utan um fætur sonar síns og festi hann upp í bita. Þá hýddi Sigurður hann með vendi þangað til að „af dró hljóðin.“ Þrisvar sinnum bætti Sigurður á vöndinn.
Þegar sonurinn var loksins leystur var hann mjög illa haldinn. Gekk hann inn á baðstofu og bað um að fá að drekka. Seinna um kvöldið lést hann af sárum sínum.
Eftir þetta kom sýslumaður og færði Sigurð í járn. Var hann í kjölfarið fluttur af bænum og til Reynistaðar. Komu menn í héraði sér ekki saman um hvaða refsingu Sigurður skyldi fá og var málinu vísað til Alþingis. Ekki er þess getið hver örlög hans urðu.