fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Fókus

Árás hinna dauðu

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 1. desember 2018 22:00

Uppnám Þjóðverjarnir tvístruðust þegar þeir mættu her hinna dauðu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrri heimsstyrjöldin einkenndist af skotgrafahernaði og umsátrum sem varað gátu mánuðum eða árum saman. Sumarið 1915 gerðu Þjóðverjar gasárás á eitt rammgerðasta virki austurvígstöðvanna. Töldu þeir að varnirnar væru algjörlega brostnar. Þeim brá hins vegar í brún þegar Rússar gerðu gagnárás „dauðra manna.“

 

Umsátur í næstum heilt ár

Á seinni hluta nítjándu aldar voru öll stórveldi Evrópu að vígbúast og traustið á milli þeirra lítið. Osowiec var eitt rammgerðasta virki rússneska keisaradæmisins. Það var byggt árin 1882 til 1892 við ána Biebrza, þar sem nú er Pólland, til að verjast hugsanlegum árásum Þjóðverja. Osowiec var eina leiðin yfir ána á stóru svæði. Auk þess að vera byggt til að þola árásir þá var virkið einnig varið af torfæru mýrlendi í kring.

Í september árið 1914, tveimur mánuðum eftir að fyrri heimsstyrjöldin hófst, sendu Þjóðverjar mikið lið að Osowiec. Fjörutíu deildir þýskra fótgönguliða herjuðu á langtum fámennari rússneska deild sem varði virkið. Um tíma komust þýskar stórskotadeildir í færi við Osowiec en Rússar náðu að hrekja þá til baka. Við þetta sat í fjóra mánuði.

Þjóðverjar gerðu aðra stórsókn að virkinu í byrjun febrúar árið 1915. Varð þeim svo ágengt að stórskotaliðið komst aftur í færi við virkið. Vel yfir milljón sprengjum rigndi yfir Osowiec. Rússar bjuggust við að missa virkið og hófu undirbúning að brottflutningi hersins og almennra borgara af svæðinu. Fjölmargar byggingar hrundu og erfitt var að komast á milli staða. Sprengjurnar dundu á virkinu með fjögurra mínútna millibili. Rússnesku herforingjarnir vonuðust til að geta haldið virkinu í tvo sólarhringa en svo liðu mánuðirnir og herdeildin gaf sig ekki.

 

Osowiec
Hluti virkisins stendur enn.

Uppvakningar með byssustingi

Í ágúst árið 1915 töldu Þjóðverjar sig hafa styrkinn til að ná virkinu á sitt vald. Þá voru fimm hundruð Rússar eftir í virkinu. Þjóðverjar biðu eftir hagstæðri vindátt sem kom sjötta þess mánaðar og létu klórgashylkjum rigna yfir svæðið. Á eftir gasinu komu tólf herfylki, samanlagt sjö þúsund fótgönguliðar. Bjuggust þeir við því að mæta lítilli eða engri mótspyrnu og að vel flestir Rússarnir væru dauðir.

Annað kom hins vegar á daginn. Út úr gasmekkinum komu á bilinu sextíu til hundrað eftirlifandi rússneskir hermenn og hófu gagnsókn. Það var ófrýnileg sjón. Rússarnir komu hlaupandi með byssustingina mundaða. Þeir voru með blóðuga klúta fyrir vitunum og alvarleg brunasár í andlitunum. Þeir hræktu blóði og tægjum úr eigin lungum og öndunarvegi. Það var eins og her uppvakninga kæmi aðvífandi að.

Þessi sýn olli svo miklu uppnámi meðal þýsku hermannanna að þeir tvístruðust og hlupu til baka. Þeir festust í drullunni og tröðkuðu hver annan niður. Margir þeirra festust í gaddavír þýska hersins og urðu auðveld bráð fyrir Rússana. Loks hófu Rússarnir skothríð og stráfelldu Þjóðverjana. Síðan héldu þeir aftur í virkið og tóku sínar stöður á ný.

 

Slembilukka

Þjóðverjar gerðu ekki aftur árás á Osowiec en Rússar héldu virkinu ekki lengi eftir þetta. Þeir gerðu sér grein fyrir að atvikið, sem hefur fengið nafnið „árás hinna dauðu“, var slembilukka. Á endanum myndi virkið falla. Tveimur vikum seinna, þann 18. ágúst, yfirgáfu Rússar Osowiec og eyðilögðu það sem þeir gátu.

Osowiec varð aftur orrustusvæði í seinni heimsstyrjöldinni og eftir stríðið var staðurinn gerður að bækistöð fyrir pólska flugherinn. Enn þá stendur hluti virkisins sem byggt var fyrir um 120 árum. Í dag er þar minnisvarði um umsátrið mikla árin 1914 og 1915.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni

Skipulögð brotastarfsemi mikið áhyggjuefni
Fókus
Fyrir 2 dögum

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna

Endaði á spítala og í hjólastól eftir atriði í klámmynd – Mætt fyrir framan myndavélarnir degi seinna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna