fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fókus

Harmleikur í Smáíbúðahverfinu: Bréf varpaði ljósi á voðaverkið – Ungmenni leigðu síðan blóði drifna íbúðina

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 26. nóvember 2018 21:00

Hæðargarður 14 Vísir 22. desember 1966.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skömmu fyrir jólin árið 1966 var þremur byssuskotum hleypt af í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík. Eftir lágu tveir menn sem bitist höfðu um sömu konuna. Hún sjálf var í íbúðinni þegar verknaðurinn var framinn og gat sagt frá atburðum þótt margt væri óljóst í frásögn hennar. Mánuði síðar leigði svikahrappur íbúðina út til fjögurra ungmenna og brá þeim í brún þegar þau sáu blóðslettur uppi um alla veggi.

 

Tveir menn og byssa

Klukkan tíu mínútur yfir sjö, miðvikudagskvöldið 21. desember árið 1966, var hringt í lögregluna í Reykjavík. Á hinum enda línunnar var kona sem sagði að slys hefði orðið innanhúss í Hæðargarði 14. Bað hún jafnframt um lögregluaðstoð og að sjúkrabíll yrði sendur á staðinn.

Sjúkrabíllinn kom á undan lögreglu á staðinn og fundu sjúkraflutningamenn tvo meðvitundarlausa og alblóðuga menn á neðri hæð hússins. Við hlið þeirra lá skammbyssa, 22 kalíbera sexhleypa. Þegar tveir lögreglumenn mættu á svæðið var verið að bera annan mannanna út í sjúkrabílinn. Óvíst var hvort mennirnir tveir voru á lífi eða ekki og var því ekið með þá báða rakleiðis á spítala. Þegar komið var á slysavarðstofuna úrskurðaði læknir þá báða látna. Höfðu þeir látist af völdum byssuskota.

Rannsóknarlögreglumenn voru kallaðir á vettvang. Í íbúðinni var konan sem tilkynnti atvikið, 38 ára að aldri. Var hún íbúi í íbúðinni og eiginkona annars hinna látnu, 34 ára færeysks sjómanns að nafni Finn Kolbjörn Nielsen. Lögreglu gekk erfiðlega að yfirheyra konuna um hvað hefði átt sér stað. Bæði var hún í miklu tilfinningalegu uppnámi og undir töluverðum áhrifum áfengis. Hún sagðist þó hafa verið sofandi í öðru herbergi þegar skotunum var hleypt af og ekki séð hvað gerðist.

Konan sagðist vera skilin við Finn en þegar að var gáð voru þau enn þá skráð sem hjón, og höfðu verið í tvö ár. Þau höfðu hins vegar ekki lifað sem slík um nokkurt skeið. Hinn maðurinn var ástmaður konunnar. Hét hann Kristján Eyþór Ólafsson, 37 ára gamall frá Patreksfirði. Blaðamaður Vísis ræddi við Rannveigu Thejll, nágrannakonu af efri hæðinni. Hún sagði:

„Það sem ég þekki til þessa fólks  er ekki annað en mjög gott. Það flutti inn, að mig minnir fyrir þremur mánuðum og hefur komið mjög vel fram í alla staði, aldrei neinn hávaði eða læti úr íbúðinni, og sannarlega átti ég ekki von á að slíkur atburður ætti eftir að gerast í húsinu. Konan kom oft hingað upp til mín til að fá lánaðan síma, mjög falleg og yndisleg kona. Maðurinn hennar var sjúkur, þegar þau fluttu hingað, hafði maðurinn fjórbrotnað á fæti, við vinnu … Ég hef aldrei séð né heyrt þennan Færeying áður, en hef nú heyrt að hann hafi verið giftur konunni áður og að þau hafi ekki verið löglega skilin.“

 

Skrifaði bréf til tengdamóður

Lík Finns var með skotsár í munnholi og neðra andliti og hafði hann verið skotinn neðan frá. Lík Kristjáns var með skotsár á brjóstholinu, skotið ofanfrá. Á báðum líkum fundust áfengisflöskur og í sófa íbúðarinnar fannst þriðja byssukúlan.

Snemma töldu rannsóknarlögreglumenn sig vita hvernig atburðarásin hefði verið. Töldu þeir að Finn hefði skotið Kristján í brjóstið með byssunni og í kjölfarið notað hana á sig sjálfan. Á þessu stigi útilokaði lögreglan þó ekki að atburðarásin gæti hafa verið önnur. Til dæmis að þriðji aðili hafi skotið þá báða. Ingólfur Þorsteinsson yfirvarðstjóri stýrði rannsókninni.

Næstu daga var sá grunur lögreglunnar, að Finn hefði borið ábyrgð á ódæðinu, staðfestur. Á Þorláksmessu var greint frá því að í vasa hans hefði fundist bréf, skrifað af honum sjálfum og stílað á móður konunnar. Hafði það verið skrifað aðeins klukkutíma áður en skotunum var hleypt af. Í því stóð að hann væri að verða brjálaður og grunaði að eitthvað voðalegt myndi koma fyrir. Afbrýðisemi var rót þessa brjálæðis og ljóst að andlegt ástand Finns var slæmt.

Tíminn
Þorláksmessa 1966.

Enginn til að draga til ábyrgðar

Finn hafði búið á Íslandi í ellefu ár og var skráður til heimilis í Ytri-Njarðvík. Kona hans hafði flutt frá honum í byrjun október og hafið sambúð með Kristjáni í Hæðargarðinum. Finn var á síldarbátnum Óskari Hall og kom í land tveimur dögum fyrir heimsóknina örlagaríku. Daginn sem hann kom í land hitti hann konuna og fóru þau til prests til að staðfesta skilnað að borði og sæng. Þau voru barnlaus en engu að síður var Finn mjög ósáttur við skilnaðinn. Kom það skýrt fram að hann vildi láta reyna á að halda hjónabandinu áfram. Þeir sem þekktu til Finns sögðu að hann væri ákaflega dagfarsprúður og rólyndismaður sem aldrei hefði komist í kast við lögin.

Klukkan fimm síðdegis þann 21. desember kom Finn að heimili konu sinnar og Kristjáns. Var Finn nokkuð í glasi en þau tvö mjög drukkin. Vildi hann ræða við Kristján um það ástand sem skapast hafði. Eftir þær umræður fór Finn burtu en kom svo tveimur tímum síðar með áðurgreindum afleiðingum.

Morðvopnið, sem var af gerðinni Ruby, var í eigu skipsfélaga Finns. Hafði það verið geymt í læstum skáp í skipinu ásamt skotfærum en gleymst að taka lykilinn úr skránni á þriðjudeginum. Því var auðvelt fyrir Finn að nálgast byssuna.

Það sem erfiðast reyndist að kortleggja var hversu mikla aðkomu konan hafði að málinu. Ljóst er að þau voru öll þrjú undir áhrifum áfengis en hún ein til frásagnar. Við frekar yfirheyrslur gat hún greint frekar frá sinni hlið. Sagðist hún hafa vaknað og komið fram eftir að skotunum var hleypt af, þegar hún heyrði Kristján hrópa nafn hennar. Hafi hún svo hlaupið fram og séð Kristján liggjandi á gólfinu og enn með greinilegu lífsmarki. Eiginmaður hennar var hins vegar ekki með lífsmarki. Ekki voru nein merki um önnur átök í íbúðinni. Hafi hún þá farið til nágrannakonu sinnar til að hringja þar sem hún átti sjálf engan síma.

Lögreglan taldi málið upplýst og enginn lifandi til að draga til ábyrgðar fyrir þennan harmleik. Aldrei fékkst úr því skorið hvað nákvæmlega fór fram milli Kristjáns og Finns áður en sá síðarnefndi dró upp byssuna.

 

Ungmenni leigðu blóði drifna íbúð af svikahrappi

Ekki var liðinn nema mánuður frá harmleiknum á Hæðargarði þar til íbúðin var aftur komin í fréttirnar. Höfðu fjögur ungmenni þá talið sig hlunnfarin í viðskiptum við leigusala og að þau hefðu óafvitandi leigt „blóði drifna morðíbúð.“

Í Vísi var greint frá því þann 23. janúar árið 1967 að tveir piltar og tvær stúlkur utan af landi hefðu auglýst eftir íbúð til leigu. Ekki leið á löngu þar til kona gaf sig fram og sýndi þeim íbúð í Hæðargarði sem þeim leist vel á. Hins vegar sáu þau lítið inn í íbúðina vegna ljósleysis í tveimur herbergjum. Í rökkrinu litu herbergin þó þokkalega vel út.

Piltarnir sömdu um leiguna á lögfræðiskrifstofu degi seinna og 27 þúsund krónur voru greiddar fyrirfram. Þegar samningurinn var undirritaður spurði lögfræðingurinn ungmennin: „Vitið þið hvaða íbúð þetta er, strákar?“ Sagði hann þeim í kjölfarið hvað hefði gerst þarna fyrir áramót en þeir létu það ekki á sig fá. Ákváðu samt að segja stúlkunum ekki frá þessu.

Ungmennin fóru að kaupa ljós til að setja upp í herbergjunum tveimur. Þegar ljósin voru uppsett og kveikt var á þeim blasti hryllingurinn við. Í grein Vísis stendur:

„Stofan var öll blóði drifin. Á gólfinu voru stórir þornaðir blóðpollar og um alla veggi voru blóðslettur og för eftir blóðugar hendur og höfuð. Engin tilraun hafði verið gerð til að hreinsa íbúðina eftir óhappaverkið.“

Ungmennunum brá vitanlega við að sjá þetta. Piltarnir hlupu strax til að þrífa blóðið í herbergjunum en stúlkurnar sögðust ekki geta búið þarna. Þegar þau fóru til þess að reyna að fá samningnum rift kom í ljós að hann hafði verið ólöglegur frá upphafi. Konan átti ekki íbúðina heldur var hún á vegum Reykjavíkurborgar. Konan sem um ræddi var hins vegar ekki eiginkonan í morðmálinu. Félagsmálastjóri borgarinnar staðfesti að fólkið sem lenti í harmleiknum hefði einnig leigt ólöglega af konunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bogi kaupir á Brúnastöðum

Bogi kaupir á Brúnastöðum