fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

11. september á Keflavíkurflugvelli

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 17. nóvember 2018 19:30

Þotan flýgur yfir Ísland Tíminn 12. september 1976.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dagsins 11. september verður ávallt minnst fyrir hryðjuverkin sem framin voru í New York og á fleiri stöðum í Bandaríkjunum árið 2001. Er það greypt í minni fólks þegar flugræningjar stýrðu farþegaþotum á Tvíburaturnana með voveiflegum afleiðingum. Þennan sama dag, 11. september, árið 1976, lentu flugræningjar með bandaríska farþegaþotu á Keflavíkurflugvelli. Var það hluti af skipulagðri hryðjuverkaárás þar sem einn lést í New York.

 

85 farþegar um borð

Aðfaranótt laugardagsins 11. september árið 1976 var Boeing-þotu af gerðinni 727 rænt af vopnuðum mönnum. Þotan var í innanlandsflugi í Bandaríkjunum á vegum flugfélagsins TWA, frá New York til Chicago. Ræningjarnir, sem voru fimm talsins frá Króatíu, tóku stjórnina. Voru þeir með þykkildi innan á sér sem þeir sögðu vera sprengjur. Ef fyrirmælum þeirra yrði ekki hlýtt í einu og öllu myndu þeir granda vélinni.

Fyrsti áfangastaðurinn var Montreal í Kanada en þaðan var flogið til smábæjarins Gander á Nýfundnalandi. Upphaflega voru 85 manns í þotunni og var 43 sleppt í Gander. Eftir að hafa sleppt farþegunum var flugmönnum skipað að halda ferðinni áfram. Önnur vél, af gerðinni 707, fylgdi þotunni svo yfir hafið.

Stefndu þeir vélinni til Evrópu og var ákveðið að stoppa á Íslandi til þess að taka eldsneyti. Þaðan yrði förinni haldið áfram til London. Leyfi fékkst á Keflavíkurflugvelli til að lenda vélinni og voru allar varúðarráðstafanir gerðar til þess að einangra vélina frá annarri flugumferð. Íslenskir viðbragðsaðilar höfðu æft fyrir slíkar uppákomur og var stórt lið lögreglu og slökkviliðs kallað út. Ólafur Jóhannesson, starfandi utanríkisráðherra, var í stöðugu sambandi við viðbragðsaðila. Um ellefu leytið á laugardagsmorguninn lenti vélin í Keflavík.

Einangruð vél
Morgunblaðið 12. september 1976.

Vildu ekki slökkva á hreyflunum

Einn af gíslunum sem sleppt var í Gander sagði við fréttamenn þar ytra að ránið hefði augljóslega verið þaulæft. Ræningjarnir höfðu góða stjórn á aðstæðum og slepptu aldrei fingrum af gikkjunum. Um leið og vélinni var rænt í Bandaríkjunum gaf króatísk sjálfstæðishreyfing frá sér yfirlýsingu um að ránið væri aðeins hluti af aðgerðunum. Ef tilmælum yrði ekki fylgt eftir yrðu sprengjur sprengdar á fjölmennum stöðum í New York-borg, þar á meðal stærstu járnbrautarstöð borgarinnar.

Vildu liðsmenn hreyfingarinnar vekja athygli á kúgun Króata innan Júgóslavíu. Töldu þeir Bandaríkjamenn að miklu leyti ábyrga vegna stuðnings þeirra við stjórn einræðisherrans Títós. Vildi hópurinn að stærstu dagblöð Bandaríkjanna, svo sem New York Times og Washington Post, prentuðu yfirlýsingu þeirra.

Lögreglan í New York lokaði brautarstöðinni samstundis. Ekki tókst hins vegar að gera sprengjuna óvirka. Í aðgerðunum lést einn lögreglumaður og þrír aðrir særðust.

Eftir að Boeing-þotan lenti á Keflavíkurflugvelli var gefin skipun um að henni yrði ekið út á annan enda vallarins, langt frá öðrum vélum. Blaðamönnum og öðru fólki var haldið í 1.500 metra fjarlægð af bandarískum hermönnum. Aðeins fjórir vallarstarfsmenn máttu fara að vélinni á eldsneytisbíl til að fylla á tankana og færa ræningjunum og gíslunum vistir. Báðu þeir ræningjana um að slökkva á hreyflunum vegna sprengihættu en þeir féllust ekki á það. Var rifist nokkuð um þetta en á endanum gáfu vallarstarfsmennirnir eftir og fylltu á vélina sem tók um það bil fimmtán mínútur.

 

Gervivopn og sprengjur

Í þotunni voru ræningjarnir með margar töskur fullar af áróðursmiðum um Júgóslavíu. Vildu þeir dreifa þeim yfir London. Lendingarleyfi fékkst ekki í London og voru töskurnar færðar yfir í 707-vélina. Áður en það var gert voru þær hins vegar gegnumlýstar af íslenskum tollvörðum. Um klukkan eitt eftir hádegi héldu vélarnar af stað, fylgdarvélin til London en hin til meginlandsins og var áfangastaðurinn ókunnur.

Mikill viðbúnaður var í London og lögreglumenn á hverju strái enda bjuggust Bretar allt eins við að báðar vélarnar kæmu þangað. Aðeins 707-vélin kom og var miðunum dreift yfir borgina. Í Bandaríkjunum gerðu ritstjórnir flestra stórblaða eins og ræningjarnir báðu um og birtu yfirlýsinguna frá þeim. Ekki var vitað hvert ferð ræningjanna var heitið en um tíma var talið að þeir ætluðu að lenda vélinni í Júgóslavíu.

Seinna um daginn lenti Boeing-þota ræningjanna á de Gaulle-flugvellinum í París. Þar höfðu þeir fengið lendingarleyfi og fengu samtal við Kenneth Rush sendiherra. Frönsk yfirvöld tilkynntu þá ræningjunum að þeir yrðu teknir af lífi ef farþegunum eða áhöfninni yrði unnið mein og gáfust þeir þá upp. Kom þá í ljós að vopn þeirra og sprengjur voru öll gervi. Höfðu þeir aðeins leir reyrðan um sig miðja. Fengu ræningjarnir fimm tvo kosti; að verða framseldir til Bandaríkjanna, annars vegar, eða Júgóslavíu, hins vegar, og völdu þeir fyrri kostinn. Bandaríska alríkislögreglan, FBI, fylgdi þeim yfir hafið til New York þann 13. september.

 

Talin þjóðhetjur
Zvonko og Julienne Busic.

Þjóðhetjur

Leiðtogi ræningjanna hét Zvonko Busic og með honum var þýsk eiginkona hans, Julienne. Hinir voru Petar Matanic, Slobodan Vlasic og Frane Pesut. Allt fólk á milli 25 og 31 árs og búsett í Bandaríkjunum. Voru þau leidd fyrir dómara í New York og hlutu þunga dóma. Matanic, Vlasic og Pesut var sleppt árið 1988 og Julienne Busic ári seinna. Zvonko átti hins vegar að sitja í ævilöngu fangelsi.

Eftir að Króatía fékk sjálfstæði árið 1991 beitti forseti landsins, Franjo Tudjman, sér fyrir því að Busic yrði náðaður. Var hann talinn þjóðhetja í heimalandi sínu fyrir framgöngu sína. Ræddi hann beint við Clinton forseta og þegar það gekk ekki var send inn ályktun til Evrópuráðsins. Busic var loks náðaður og fluttur til Króatíu árið 2008 eftir 32 ára fangelsisvist. Á flugvellinum í Zagreb fékk hann hátíðlegar móttökur og voru hinir fjórir flugræningjarnir viðstaddir athöfnina. Busic framdi sjálfsvíg fimm árum síðar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 3 dögum

Davíð lýsir martraðarkenndri læknismeðferð í Svíþjóð – „Ég var í einhverjum svaka slag í hausnum á mér að reyna að lifa þetta af“

Davíð lýsir martraðarkenndri læknismeðferð í Svíþjóð – „Ég var í einhverjum svaka slag í hausnum á mér að reyna að lifa þetta af“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leikkonan harðlega gagnrýnd eftir að hún deildi söfnun fjölskyldumeðlims – Segir gagnrýnendum að fokka sér

Leikkonan harðlega gagnrýnd eftir að hún deildi söfnun fjölskyldumeðlims – Segir gagnrýnendum að fokka sér
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hafa miklar áhyggjur af Katie Price eftir að hún birti nýtt myndband – „Einhver þarf að hjálpa henni“

Hafa miklar áhyggjur af Katie Price eftir að hún birti nýtt myndband – „Einhver þarf að hjálpa henni“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni