Árið 2011 urðu mikil innanhússátök innan kirkjunnar vegna nafnlausra hótunarbréfa sem bárust til þriggja presta. Voru þau send úr netfangi sem eignað var huldumanninum Eðvaldi Eðvaldssyni. Ljóst var að sendandinn þekkti vel til innviða kirkjunnar og var að öllum líkindum prestur. Málið var kært til lögreglunnar á sínum tíma en fór ekki lengra vegna þess að það var ekki talið vera nógu alvarleg hótun til að rannsaka frekar. Þolandanum sem kærði fannst það mjög miður enda pósturinn mjög rætinn.
Þessi bréf hafa verið sett í samhengi við kjör til biskups en Karl Sigurbjörnsson var á þessum tíma að hætta eftir mikla gagnrýni vegna meðhöndlunar á máli forvera síns, Ólafs Skúlasonar. Prestarnir þrír höfðu allir gagnrýnt yfirvöld kirkjunnar fyrir það hvernig tekið var á málinu. Tveir af þeim voru sterklega orðaðir við embætti biskups og fóru loks í framboð árið 2012.
Þegar prestar voru farnir að kalla aðra til ábyrgðar fyrir póstinn sendi Karl boð um að sakbendingu yrði hætt og var málið þaggað niður, mörgum til ama. Hvorugur frambjóðandinn sem fékk bréf frá Eðvaldi Eðvaldssyni náði í aðra umferð biskupskjörs. Allir þrír búa nú erlendis.
Þetta er brot úr stórri grein í helgarblaði DV.
Degi seinna fékk séra Kristín Þórunn Tómasdóttir, héraðsprestur í Kjalarnesprófastsdæmi, sendan tölvupóst frá téðum Eðvaldi og var hann öllu rætnari og með kynferðislegum undirtón. Í póstinum var sagt að hann væri viðbragð við grein Kristínar sem birtist á svokölluðum prestalista. Í pósti Eðvalds stóð:
„Ég hélt að þú værir ekki jafn heiðin og sumir aðrir félagar okkar þar (á prestalistanum). Heiðin í þeim skilningi að þrá blóðfórn til að friðþægja lýðinn. En nú veit maður að þig þyrstir í blóð. Þetta hefði maður svo sem átt að vita miðað við hvernig þú hefur komið fram við presta í prófastsdæminu.“
Enn fremur:
„En fyrirgefðu þú hefur ekki unnið sem prestur er það. Þú ert einn best menntaði ritari sem um getur. Ritari í „Kjalarnesbiskupsdæmi.“ Varðhundur prófasts sem vilt ekki nein opin skoðanaskipti á fundum í héraði þar sem þú skráir fundargerðir. Þetta er búið að vera kósí hjá þér er það ekki. Margar utanlandsferðir á kostnað héraðssjóðs. Ekki aðeins fyrir þig heldur fyrir þig og þína elskhuga sem gjarnan koma til að taka myndir.“
Enn fremur:
„Nú ert þú í hópi þeirra sem eru með rýtinginn á lofti. Dettur þér í hug ef ykkur tekst að slátra Karli að rýtingarnir verði allir lagðir til hliðar? Nei það verða bara aðrir með þá og beita þeim á þá sem þarf að hefna sín á fyrir víg Karls.
Er ekki betra að lofa karlinum að halda ræðu á næsta kirkjuþingi, taka þátt í að koma breytingum í farveg og ganga svo út uppréttur. Verður þá ekki minni ástæða til bræðravíga og aðeins meiri von um málefnalega kosningabaráttu um embætti biskups. Kannski gætum við sameinast um góða konu.“
Pósturinn var langur, ítarlegur, rætinn og persónulegur. Í lokin stendur:
„Ef þú ert að velta því fyrir þér af hverju ég skrifa ekki undir nafni þá er einföld ástæða fyrir því. Ég þarf að sækja stuðning frá stað þar sem þú hefur áhrif og ég óttast hefnd þína. Mun tjá mig síðar beint við þig. Sennilega þegar uppgjör hentar þér ekki og ég finn hjá mér þörf til að viðra mig. Þú manst. Auga fyrir auga og allt það.“
Ekki er vitað um meiri tölvupóst til presta frá Eðvaldi Eðvaldssyni og af þessum var pósturinn til séra Kristínar alvarlegastur og rætnastur. Hún brást einnig við honum. Í samtali við DV segir Kristín:
„Strax og ég fékk bréfið sendi ég það á póstlistann til að aðrir prestar sæju það. Ég vildi hafa allt opið í sambandi við þetta. Þá fékk ég sterk viðbrögð frá mínum kollegum og mörgum var misboðið við að lesa bréfið.“
Hvernig fékk þetta á þig?
„Þetta var svolítið áfall. Ég dró þá ályktun að þetta væri einhver sem hefði aðgang að lokuðum póstlista sem starfandi prestar í Þjóðkirkjunni á þeim tíma hefðu sín á milli. Bréfið var sent mjög stuttu eftir að ég hafði sett efni inn á þann póstlista og það var greinilegt að þessi aðili var inni í þeim málum sem var verið að ræða þar. Það fékk á mig að vita að þetta væri kollegi eða einhver sem tengdist kollega. Þetta var mjög rætið bréf og virtist skrifað af einhverjum sem þekkti til mín og samstarfsfólks míns.“
Hvaða tilgangi heldur þú að þetta hafi þjónað?
„Kannski að slá á einhverja putta í tengslum við biskupsmálið. Ég hafði tekið afstöðu og staðið með þeim konum sem sögðu frá áreiti af hálfu Ólafs Skúlasonar.“
Kristín, líkt og Sigríður og Örn Bárður, tilheyrði á þessum tíma „órólegu deildinni“ innan prestastéttarinnar og hafði gagnrýnt Karl Sigurbjörnsson fyrir viðbrögð hans.
„Ég tengdi við þetta mál og velti því fyrir mér hvort sendandinn væri einhver sem taldi að sér vegið. Mögulega einhver tengdur fyrrverandi biskupi.“
Á sínum tíma greindi DV frá því að Kristín hefði leitað til lögreglunnar vegna póstsins, sem hún hafði upplifað sem mikið ofbeldi. Kristín segir nú að ekkert hafi hins vegar komið út úr því.
„Ég hafði samband við lögregluna en eftir nokkur samtöl var mér sagt að bréfið væri ekki nógu alvarlegt til að þeir gætu krafist upplýsinga frá Google, að hótanirnar gengju ekki nógu langt. Þetta fannst mér súrt af því að mér fannst langt gengið.“