Árið var 1775 og ástir hjónanna á Helludal, þeirra Jóns Gissurarsonar og Guðríðar Bjarnadóttur, voru löngu kulnaðar en þau voru á miðjum aldri. Guðríður, kölluð Helludals-Gudda, var farin að halda við kvæntan mann, Jón Guðmundsson, og það samband var illa, ef nokkuð, falið.
Ástmaður hennar flutti inn á bæinn og sagði Guðríður það vilja sinn að þau yrðu hjón. Á næturnar sváfu þau saman í rúmi og við húslestra sátu þau saman. Bóndi hennar tók því hins vegar illa og leitaði til Skálholts um að koma nafna sínum af heimilinu. Það var kalt á milli Jónanna tveggja og lá oft við slagsmálum.
Spennan á heimilinu óx með hverjum deginum og voru hugir þeirra Guðríðar og Jóns Guðmundssonar farnir að myrkvast. Sáust þau á tali við ófyrirleitna menn og sagt var að þau vildu bónda burt, með góðu eða illu. Varð það svo raunin í júní þetta ár.
Jón Gissurarson fannst dauður við tóft sem hann hafði verið að hlaða. Var hann með mikið sár á höfðinu og við hlið hans lá hella. Líkið var blátt og þrútið og ljóst að eitthvað mikið hafði gengið á. Steindór Finnsson sýslumaður kom og yfirheyrði fólkið á Helludal þar sem talið var um morð að ræða en ekki vinnuslys.
Samstundis beindist grunur að Guðríði og ástmanni hennar en þrættu þau fyrir og sögðu dauðsfallið hafa verið slys. Þau sögðust bæði hafa fjarvistarsönnun, Jón hafi verið farinn af bænum og Guðríður með börnum sínum að raka saman tað.
Guðríður stóð keik við sinn framburð en gætti þó í mörgu ósamræmis við sögu Jóns. Hann gerði einnig þau mistök að segja öðru fólki að hann kynni að hafa verið valdur að slysinu. Fyrir sínum bestu vinum játaði hann að hafa myrt Jón Gissurarson fyrir áeggjan Guðríðar.
Þegar Jón Gissurarson var jarðaður var nafni hans hvergi sjáanlegur. Var hann þá á öðrum bæ í sveitinni og bar fyrir sig veikindi. Hið sanna var að hann óttaðist að blóð myndi leka úr kistunni á hann sem merki um sekt enda mjög trúaður á forneskju.
Á meðan sýslumaður rannsakaði málið riðu þau Guðríður og Jón vestur á Kjalarnes til að hitta galdramanninn Pál Halldórsson á Árvelli. Duldist fólki það ekki að það væri gert til að aðstoða þau í málinu. Annað kom hins vegar líka til greina; að þau hafi viljað stöðva þungun Sigríðar dóttur Guðríðar og Jóns Gissurarsonar.
Þetta sumar gekk Sigríður með barn undir belti og sagði hún að Jón Guðmundsson, ástmaður móður sinnar, væri faðirinn. Að sögn var Guðríður æf yfir þessu og vildi gera hvað sem var til að koma í veg fyrir fæðingu barnsins, jafnvel drepa Sigríði sjálf. En fór svo að Guðríður og Jón voru hneppt í varðhald hjá sýslumanni og Sigríður eignaðist dreng í október.
Leið veturinn og gengu ásakanir á milli Guðríðar og Jóns í hvert skipti sem þau voru yfirheyrð. Guðríður neitaði fyrir allt saman en Jón viðurkenndi að steinn hafi runnið undan fótum hans og lent á höfði nafna hans. Hvorug sagan var talin trúanleg.
Miðað við annan framburð og aðkomuna á vettvangi var talið líklegra að Jón Guðmundsson hefði fyrir áeggjan Guðríðar komið að nafna sínum og kastað steini í höfuð hans. Því næst barið hann með staur þangað til að hann var hálfdauður og dregið hann inn í skemmu. Þar hafi hann brugðið ól utan um hálsinn á honum og kæft hann eða hengt í skemmubita.
Rætt var um að Guðríður sjálf hefði aðstoðað við að drepa bónda sinn og rekið eggvopn inn í höfuð hans er hann bærðist hálfdauður. Tvöföld prjónahetta Jóns var í sundur og þar undir djúpt sár sem náði inn að beini. Var einnig sagt að Sigríður hefði verið fengin til að aðstoða þau við að flytja líkið af föður sínum.
Í júní árið 1776, einu ári eftir ódæðið, voru Guðríður og Jón leidd fyrir rétt á Vatnsleysu. Í réttarhöldunum var meðal annars sýnd hellan sem átti að hafa fallið á höfuð bónda.
Taldi sýslumaður sannað að þau hefðu myrt Jón Gissurarson að yfirlögðu ráði en sök Jóns öllu meiri. Var hann dæmdur til lífláts en Guðríður til ævilangrar þrælkunarvistar. Var hún send utan til Kaupmannahafnar til að starfa í spunahúsi. Óvíst er hvenær hún lést en fæstir sem þangað fóru lifðu lengi.
Hellan var ekki flutt aftur til baka og var notuð í upphleðslu á húsi þar. Var sagt að heimafólki þar hafi verið illa við helluna.