Franski spítalinn við Lindargötu 51 hafði áður verið athvarf Íslendinga á neyðartímum. Árið 1918 kom spænska veikin til landsins og lögðust þá margir þar inn. Einnig í miklum taugaveikifaraldri rúmum áratug fyrr. En í kreppunni miklu kom fólk þangað vegna hreinnar örbirgðar en ekki veikinda.
Þetta var fólk sem hafði ekkert lífsviðurværi, átti ekki fyrir mat og hafði misst húsnæðið. Til bráðabirgða gat þetta fólk gist í spítalanum á meðan pláss leyfði. Húsið var eitt af þeim glæsilegustu í Reykjavík, reist um aldamótin til að sinna frönskum sjómönnum.
Sannkallað neyðarástand ríkti og neituðu margir leigusalar að hleypa fólki inn nema það borgaði heilan vetur fyrirfram. Hundruð fjölskyldna um allt land voru leystar upp og meðlimum holað niður hér og þar.
Þann 2. janúar árið 1932 tók mötuneyti safnaðanna til starfa í Franska spítalanum. Tíu þúsund máltíðir voru gefnar þann vetur og 40 þúsund þann næsta.