Síldin kom og síldin fór og síldin hríðféll í verði haustið 1930, alls um þriðjung verðgildis og langt umfram verð á innflutningi. Orsakaði þetta mikinn ójöfnuð á milli inn- og útflutnings sem leiddi til þess að atvinnulífið dró saman seglin og fólk missti vinnuna.
Kreppan skall á landinu með mismiklum þunga. Mest í sjávarplássunum í Hafnarfirði, á Vestfjörðum og Austfjörðum. Ástandið var skárra í landbúnaðarhéröðunum á Norðurlandi og Suðurlandi. Einnig í Reykjavík þó að áhrifin væru töluverð þar einnig.
Veturnir voru verri en sumrin en sveitarfélögin reyndu að halda uppi atvinnubótavinnu til að fólk gæti dregið fram lífið. Á veturna var atvinnuleysið yfirleitt í kringum átta prósent. Atvinnubótavinnan kostaði hins vegar sitt og strax árið 1932 vildi bæjarstjórn Reykjavíkur lækka kaupið um 30 prósent.
Þann 9. nóvember átti að leggja tillöguna fram á fundi í Góðtemplarahússins, eða Gúttó. En þá var gerður aðsúgur að húsinu og mikil mótmæli hófust innandyra. Mótmælin leystust upp í slagsmál og færðust út á götu. Börðust þar verkamenn við lögregluþjóna borgarinnar og var barist með kylfum, stólfótum og öllu sem hönd á festi. Lauk þeirri rimmu með því að lögreglan hörfaði og bæjarstjórn hætti við tillöguna. Meira en 20 lögreglumenn slösuðust en enginn lést í óeirðunum.
Kommúnistar voru sagðir ábyrgir en sá flokkur hafði verið stofnaður tveimur árum áður sem klofningur úr Alþýðuflokknum. Líkt og víða í Evrópu voru kommúnistar á uppleið og kreppuástandið bjó til jarðveginn. Á Íslandi náðu þeir hins vegar ekki teljandi áhrifum fyrr en undir lok kreppunnar þegar þeir sameinuðust Héðni Valdimarssyni og stuðningsmönnum hans og mynduðu Sósíalistaflokkinn.
Framsóknarmenn voru við völd í kreppunni og tryggðu þeir að bændur gætu haldið úti búskap með lánum úr sérstökum sjóðum. Útflutningstekjurnar komu hins vegar nær eingöngu frá útgerðinni sem stóð virkilega höllum fæti. Verð á saltfiski og síld féll og tollar voru settar á íslenskan fisk í Bretlandi. Árið 1936 hófst borgarastyrjöldin á Spáni, einu af helstu útflutningslöndum Íslands, og varð það til þess að framlengja kreppuna hér heima.
Skorið var við nögl alls staðar í þjóðfélaginu og innflutningshöft sett á. Þessi haftastefna átti eftir að setja mark sitt á íslenskt samfélag í marga áratugi.
Mikil ólga var á vinnumarkaði, verkföll og slagsmál nær daglegt brauð. En þrátt fyrir það var samtakamáttur þjóðarinnar það sterkur að mörgum af helstu þjóðþrifaverkefnum aldarinnar var hrundið af stað.
Í desember árið 1930 var Landspítalinn opnaður við Hringbraut. Sama ár hófust útsendingar Ríkisútvarpsins og Austurbæjarskólinn, einn sá fullkomnasti á Norðurlöndum, var opnaður. Ári síðar hófu Strætisvagnar Reykjavíkur að keyra um borgina, átta vagnar alls, og fyrsta dagheimilið var opnað fyrir börn. Húsnæðisskorturinn minnkaði í Reykjavík þegar verkamannabústaðirnir við Hringbraut voru fullgerðir árið 1932 og sama ár var vegurinn á milli Reykjavíkur og Akureyrar akfær fyrir bifreiðar.
Einhverjar mestu umbætur verkafólks, almannatryggingarnar, voru gerðar árið 1936, líkt og skólaskylda sjö ára barna en ári áður hafði áfengisbanninu verið aflétt. Afþreying borgarbúa jókst til muna árið 1937 þegar Sundhöll Reykjavíkur var fullkláruð.
Það sem vantaði hins vegar var næg atvinna og bættur efnahagur. Það kom með Bretanum vorið 1940, hálfu ári eftir að hildarleikurinn í Evrópu hófst. Þúsundir dáta komu til landsins og þurftu að koma upp aðstöðu fyrir sig og hertól sín. Hús, vegir, brýr og flugvellir þurftu að rísa á mettíma og Íslendingar gátu fengið vel borgað fyrir það.