„Uss, það var bara box,“ sagði ungur piltur sem kom af leik Víkings og Fram á Íþróttavellinum. Leikurinn var rólegur í fyrri hálfleik en í þeim seinni færðist harka í hann. Var allt að verða vitlaust á vellinum og þurfti dómarinn, Gunnar Axelsson, margsinnis að hafa afskipti af leikmönnum.
Um tólf hundruð áhorfendur voru á leiknum. Undir lokin hljóp einn áhorfandi inn á völlinn og ætlaði að slá Gunnar en þá kom bakvörður Víkings, Gunnar Hannesson, honum til varnar. Endaði það með því að bakvörðurinn fékk bylmingshögg.
Lögreglan kom aðvífandi og skarst í leikinn og urðu þá margir áhorfendur reiðir. Gerði hópur pilta og fullorðinna manna aðsúg að lögreglunni og dómaranum. Stympingar milli lögreglu og óeirðarseggjanna stóðu lengi yfir inni á Íþróttavellinum og bárust slagsmálin út á Suðurgötuna. Að lokum fór svo að þrjátíu óeirðaseggir voru handteknir, yfirheyrðir og loks sleppt.
Umfjöllun blaðanna var á eina leið; að árásin hafi verið tilhæfulaus og óeirðaseggirnir ættu að fá bann og sektir. Meira að segja blaðamenn Morgunblaðsins og Þjóðviljans voru sammála um það. Úrslit leiksins voru 1-0 Víkingi í vil.