fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024

2. júní 1953 – Stór dagur í sögu bresku þjóðarinnar

Kristján Kristjánsson
Sunnudaginn 21. október 2018 11:00

Elísabet og Filippus Glæsileg á krýningardaginn.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elísabet II Bretadrottning fæddist 1926. Fyrsta barn George prins sem var annar sonur George V. konungs. Afi hennar lést 1936 og föðurbróðir hennar, Edward VIII., tók þá við konungdómi. Hann afsalaði sér hins vegar krúnunni síðar þetta ár eftir að hafa ákveðið að kvænast Wallis Warfield Simpson sem var fráskilin og frá Bandaríkjunum. Faðir Elísabetar var þá næstur í röðinni og tók við konungdæminu sem George VI. Á meðan síðari heimsstyrjöldin stóð yfir dvöldu Elísabet og eina systkin hennar, Margrét prinsessa, fjarri höfuðborginni Lundúnum til að tryggja öryggi þeirra enda rigndi sprengjum úr þýskum herflugvélum yfir borgina. Foreldrar þeirra vildu hins vegar sýna löndum sínum samstöðu og dvöldu í Buckingham-höll. Elísabet fékk þjálfun sem liðsforingi í kvennadeild hersins og ók og sinnti viðgerðum á hertrukkum.

Elísabet giftist fjarskyldum frænda sínum, Philip Mountbatten, fyrrverandi prins af Grikklandi og Danmörku, 1947. Hann afsalaði sér þessum titlum til að geta kvænst Elísabetu. Hann var gerður prins af Edinborg að kveldi brúðkaupsdagsins. Brúðkaupið og allt umstangið sem því fylgdi lyfti þjóðarsál Breta en þjóðin glímdi við mikla efnahagslega erfiðleika eftir síðari heimsstyrjöldina og brúðkaup þessarar vinsælu prinsessu var ljós í myrkrinu að margra mati. Fyrsta barn þeirra, Karl prins, fæddist 1948 í Buckingham-höll og tveimur árum síðar eignuðust þau dótturina Anne. Andrew prins fæddist 1960 og Edward prins 1964. Þegar hjónin voru á ferðalagi í Kenía þann 6. febrúar 1952 voru þeim færðar þær sorgarfregnir að George VI, faðir Elísabetar, væri látinn.

 

Varð þjóðhöfðingi samstundis

Þegar rétt nýbúið var að skýra opinberlega frá láti konungs var tilkynnt að Elísabet væri nú orðin þjóðhöfðingi Bretlands. Hún hélt sig þó alveg til hlés næstu þrjá mánuði og syrgði föður sinn. Um sumarið byrjaði hún að sinna hefðbundnum skylduverkum þjóðhöfðingja og í nóvember setti hún þingið í fyrsta sinn. Þann 2. júní 1953 var hún krýnd drottning í Westminster Abbey. Athöfnin var íburðarmikil og gegnsýrð af hefðum sem rekja má allt að 1.000 ár aftur í tímann.

Um eitt þúsund fyrirmenni og 7.000 aðrir gestir voru viðstaddir krýninguna í Westminster Abbey og mörg hundruð milljónir manna hlustuðu á beina útsendingu í útvarpi eða horfðu á beina sjónvarpsútsendingu. Skýrri og hátíðlegri röddu fór Elísabet með innsetningareiðinn þar sem hún hét því að vinna fyrir íbúa Stóra-Bretlands og Breska samveldisins.

Að krýningarathöfninni lokinni  fögnuðu milljónir regnvotra áhorfenda hinni 27 ára drottningu og þrítugum eiginmanni hennar þegar þau óku sjö kílómetra leið í hestvagni. Þeim fylgdu fulltrúar rúmlega 40 aðildarríkja Breska samveldisins, þar á meðal forsætisráðherrar, soldánar og forsætisráðherrar. Að akstrinum í hestvagninum loknum kom Elísabet fram á svölum Buckingham-hallar ásamt fjölskyldu sinni og veifaði til mannfjöldans. Krýningarathöfnin var sýnd í bandarísku sjónvarpi samdægurs en þetta var í fyrsta sinn sem bandarískar sjónvarpsstöðvar sýndu evrópskan atburð samdægurs. Áhorfið var gríðarlegt.

 

Elísabet II
92 ára og aldrei vinsælli.

Víðförul og vinsæl

Á þeim 65 árum sem Elísabet II hefur ríkt hefur hún notið mikilla vinsælda þegna sinna og hafa vinsældirnar verið nokkuð stöðugar en þó dvínuðu þær töluvert í tengslum við erfiðleika í hjónabandi Karls prins og Díönu prinsessu og andlát hennar. Elísabet hefur þó unnið sig aftur upp í vinsældum meðal þegna sinna og hefur hugsanlega aldrei verið eins vinsæl og hún er nú á nítugasta og þriðja aldursári. Hún sinnir enn skyldustörfum af miklum móð en hefur þó aðeins dregið úr störfum sínum og látið yngri kynslóðirnar taka við. Það er orðið langt síðan hún hefur ferðast út fyrir Bretlandseyjar og væntanlega er hún hætt slíkum ferðalögum enda orðin vel roskin eins og áður sagði. Hún hefur þó ferðast miklu meira en forverar hennar og var fyrsti ríkjandi þjóðhöfðingi Stóra-Bretlands til að heimsækja Suður-Ameríku og ríkin við Persaflóa. Hún hefur aldrei gefið í skyn að hún hyggist segja af sér og setjast í helgan stein og virðist vera við ágæta heilsu svo Karl prins, sem er næstur í erfðaröðinni, verður að bíða enn um sinn, orðinn sjötugur. Þrjár kynslóðir krúnuerfingja eru nú lifandi því Vilhjálmur prins, sonur Karls og Díönu, gengur föður sínum næstur að erfðum og sonur hans, George, er þriðji röðinni.

Elísabet veitir sjaldan viðtöl en í einu af þeim fáu sem hún hefur veitt ræddi hún um krýninguna og krýningarathafnir. Viðtalið var tekið á síðasta ári í tengslum við gerð heimildamyndarinnar „The Coronation“. Þar sagði Elísabet meðal annars að hún hefði fylgst með einni krýningarathöfn, en það var 1937 þegar faðir hennar var krýndur konungur.

„Ég hef fylgst með einni krýningarathöfn og verið móttakandinn í hinni, það er ansi athyglisvert,“ sagði hin aldna drottning.

 

Kórónan, sem var sett á höfuð hennar við krýninguna, er sú sama og var notuð þegar faðir hennar var krýndur konungur 1937. Hún er skreytt 2.868 demöntum, 17 safírum, 11 smarögðum og mörg hundruð perlum. Einnig er gimsteinn, þekktur sem the Black Prince’s Ruby, á henni en talið er að Henry V. hafi borið hann í orustunni við Agincourt 1415. Það er ekkert grín að bera kórónuna, sem er tæplega þrjú kíló, og því æfði Elísabet sig fyrir krýninguna og var með hana á höfðinu á meðan hún sinnti daglegum störfum. Kórónan var þrengd lítillega fyrir hana og gerð aðeins kvenlegri í útliti.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Vilja fá hann frítt frá Arsenal næsta sumar

Vilja fá hann frítt frá Arsenal næsta sumar
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Hrafnhildur fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Pressan
Fyrir 14 klukkutímum

Þingkona úr innsta hring Trump hótar flokksfélögum hefndum ef þeir kyssa ekki vöndinn – „Þá skulum við birta ALLT“

Þingkona úr innsta hring Trump hótar flokksfélögum hefndum ef þeir kyssa ekki vöndinn – „Þá skulum við birta ALLT“
Eyjan
Fyrir 15 klukkutímum

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Fókus
Fyrir 15 klukkutímum

„Að fá að vera fulltrúi lands og þjóðar er mikill heiður sem ég ber af þakklæti og auðmýkt“

„Að fá að vera fulltrúi lands og þjóðar er mikill heiður sem ég ber af þakklæti og auðmýkt“
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Sagður hafa átt samtal við Amorim um að koma til United

Sagður hafa átt samtal við Amorim um að koma til United