Lögregla hafði í nógu að snúast þetta kvöld en eitt alvarlegasta atvikið var þegar sprengju var kastað að skúr við olíuport Shell þar sem sprengiefni og olía var geymd. Eldur kom upp í skúrnum en slökkvilið kom á staðinn og náði að kæfa eldinn fljótt.
Þá var sprengju varpað að inngangi Hótel Borgar þar sem dansleikur var og sprungu margar rúður í veitingasalnum. Var neglt fyrir gluggana og ballinu haldið áfram. Skríll truflaði guðþjónustu í Dómkirkjunni og sprengdi eina rúðuna þar.
Ófremdarástand var á götum borgarinnar þar sem tunnum og rusli var komið fyrir. Þá var nokkrum bílum velt á hliðina. Þá kviknaði í einum bíl eftir að sprengja var sprengd undir honum.
Gerendurnir voru flestir piltar innan við tvítugt og þrír lögregluþjónar særðust í hamaganginum. Lögreglan taldi sig hafa stjórn á ástandinu og ákvað að beita ekki táragasi. Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri sagðist þó ætla að gera ráðstafanir svo skrílslæti af þessum toga myndu ekki endurtaka sig á gamlárskvöld.