fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Fyrsta borgaralega giftingin þvinguð upp á landsmenn

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 14. október 2018 20:00

Þjóðviljinn 15. júlí 1979 Páll Steingrímsson leikstýrði heimildarmynd árið 1979.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Undanfarin ár hafa ríflega 20 prósent af öllum hjónavígslum verið borgaralegar en sá réttur hefur ekki alltaf verið til staðar. Árið 1874 fengu Íslendingar stjórnarskrá að gjöf frá konungi og ári síðar reyndi fyrst á ákvæði hennar er varða þessi borgaralegu réttindi, þegar mormónapar vildi giftast.

 

Presturinn kærði giftinguna

Í Vestmannaeyjum bjó hópur mormóna sem trúboðinn Loftur Jónsson frá Þorlaugargerði stýrði. Einn af þeim sem snerist til trúarinnar var Magnús Kristjánsson og ætlaði hann að fara vestur til Brasilíu með skipi. En ekkert varð úr því og kynntist hann þá hálffimmtugri ekkju, Þuríði Sigurðardóttur, og hófu þau sambúð. Loftur krafðist þess að þau giftust þar sem þau sváfu í sama herbergi. Þessa vígslu framkvæmdi Loftur sjálfur árið 1873.

Sóknarpresturinn í Eyjum, Brynjólfur Jónsson, var smeykur við uppgang mormóna og leit á þessa giftingu sem beina ógnun við vald sitt. Kærði hann giftingu Magnúsar og Þuríðar til amtmanns og í desember árið 1874 var giftingin úrskurðuð ólögmæt. Þeim var sagt að þau gætu annaðhvort fest heitin hjá sóknarprestinum eða þau yrðu að slíta samvistir.

Í stað þess að skilja ákváðu Magnús og Þuríður að beygja sig fyrir þjóðkirkjunni og báðu Brynjólf um að sjá um athöfnina. En þá brást hann hinn versti við og neitaði þeim þar sem þau væru úr öðrum trúflokki. Skipaði hann þeim að skilja ellegar myndu þau hljóta alvarlega refsingu.

Málið var hins vegar flókið því þau höfðu tekið að sér barn og nú átti að fara að sundra fjölskyldunni vegna trúarskoðana. Hreppsnefnd fór í hart við prestinn og sendi honum aðvörunarbréf. Í kjölfarið gaf hann út sambúðarleyfi handa Magnúsi og Þuríði en hann vildi enn ekki gifta þau. Magnús undi þessu ekki og sendi landshöfðingja bréf sem var áframsent til konungs. Var þar vísað í ákvæði hinnar nýju stjórnarskrár Íslands um trúfrelsi.

 

Séra Brynjólfur Jónsson
Var þeim Magnúsi og Þuríði erfiður.

Skipun frá konungi

Í stjórnarskránni kvað á að enginn mætti missa sín borgaralegu réttindi sökum trúarbragða. Engu að síður voru ekki til nein lög um borgaralegt hjónaband hér á landi. Þurftu þau þess vegna að fá konungsúrskurð um ráðahag sinn og var hann veittur árið 1875. Með úrskurðinum var sýslumanninum í Vestmannaeyjum gert skylt að gefa Magnús og Þuríði saman og þótti þetta hin mesta furða. Í blaðinu Ísafold þann 17. desember segir:

„Ef maður kæmi á bæ og segði það í fréttaskyni, að sýslumaðurinn hefði núna um daginn gefið karl og konu saman í hjónaband, þá mundu menn líklega fyrst og fremst ætla, að gestinum hefði orðið mismæli, og hefði hann nefnt sýslumann fyrir sóknarprest, eða þá að hann í spaugi hefði haft hausavíxl á sýslumanni og sálusorgara, því þeir mundu færri er, tækju slíka fregn í fullri alvöru.“

Með úrskurðinum var landshöfðingja sendar ítarlegar skýringar á hvernig þessi vígsla skyldi fara fram og voru þær byggðar á sambærilegum reglum í Danmörku. Þar hafði slík hjónavígsla viðgengist í tæp 25 ár. Vígslan var hins vegar talin auðveldari fyrir sýslumenn en presta. Í Ísafold stendur:

„Þeir mega og eiga jafnan að nota sömu ræðuna, og þurfa ekki að vera að basla við að leita að texta og leggja út af honum, eins og vesalings prestarnir.“

Magnús og Þuríður voru gefin saman af sýslumanninum í Vestmannaeyjum fimmtudaginn 30. mars árið 1876, klukkan tólf á hádegi. Árið 1879 fluttu þau upp á land og bjuggu saman á Stokkseyri, einu mormónarnir á staðnum. Þau létust bæði árið 1910.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“