Þessi óprúttnu menn komu í heimsókn til Hallsteins, flettu hann klæðum og steyptu síðan blautum skinnstakki yfir hann allsberan. Eftir þetta leiddu þeir hann í kringum bæinn í viðurvist allra þar og þótti hin mesta svívirða.
Hallsteinn kærði þetta til Alþingis og í lögréttu voru varnir þremenninganna ekki teknar trúanlegar. Skyldu þeir vera jafnsekir fyrir þetta athæfi sem væri öðrum „ljótlegt eftirdæmi.“ Í miska þurftu þeir að greiða Hallsteini „tvöfalt fullrétti“ ef þeir ættu það til.
Að auki var þeim gert að gangast undir líkamlega refsingu og hafði valdsmaðurinn Einar Þorsteinsson yfirumsjón með henni. Í dómabók er þess þó ekki getið hvort þremenningarnir þurftu að undirgangast sams konar niðurlægingu og Hallsteinn eða þá sígilda hýðingu.