fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fókus

Sjómanninum Hirti Bjarnasyni var rænt og fluttur nauðugur til Skotlands – Fjórum árum síðar hvarf alnafni hans í sömu borg – Málin kunna að tengjast

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 13. október 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Með fjögurra ára millibili lentu tveir íslenskir sjómenn með sama nafn í hremmingum í sömu borginni, Aberdeen í Skotlandi. Annað málið varðaði mannshvarf en hitt mannrán. Málin tvö fengu mikla umfjöllun þegar þau komu upp en koðnuðu síðan niður jafnharðan. Við sögu komu menn sem báru nafnið Hjörtur Bjarnason og læðist að sá grunur að þau kunni að tengjast.

 

Hjörtur Bjarnason
Hvarf sporlaust í Aberdeen.

Á tali við bílstjóra

Aðfaranótt mánudagsins 26. febrúar árið 1951 kom vélskipið Víkingur frá Seyðisfirði að bryggju í hafnarborginni Aberdeen á austurströnd Skotlands. Bryggjan nefndist Viktoríudokk. Þetta var hefðbundin ferð, aflinn var seldur á mánudeginum, olía tekin og síðan gert klárt fyrir brottför. Vitaskuld fóru skipverjar í land til þess að lyfta sér örlítið upp fyrir áframhaldandi veiðar.

Þrír skipverjar fóru á hótelið Stanley til að borða um sjöleytið. Björn Einarsson, fyrsti vélstjóri, og hásetarnir Þorgeir Jónsson og Hjörtur Bjarnason. Eftir tæpa tvo klukkutíma vildu Þorgeir og Hjörtur út en Björn ákvað að sitja áfram.

Þegar félagarnir komu út af hótelinu sáu þeir bíl sem þeir gerðu ráð fyrir að væri leigubíll og vildi Hjörtur fá hann til að keyra sig niður á höfn. Þorgeir vildi það hins vegar ekki þar sem einungis tveggja eða þriggja mínútna gangur var að höfninni og gekk hann því af stað. Hann leit um öxl og sá að Hjörtur var í samræðum við bílstjórann en skeytti því engu og hélt göngunni áfram. Þegar Þorgeir um borð háttaði hann sig og lagðist til svefns án þess að athuga með félaga sína.

 

DV 19. febrúar 1983
Hjörtur annar frá hægri.

Sjálfsvíg útilokað

Morguninn eftir stóð til að sigla aftur á miðin en klukkan tíu um kvöldið  tóku menn eftir því að Hjörtur var ekki á skipinu. Skipstjórinn fór til lögreglunnar til að spyrjast fyrir um Hjört en hann hafði ekki verið tekinn höndum. Hófst þá skipuleg leit um alla borgina og meðal annars leitað í öllum skipum sem lágu við bryggju.

Leitin bar ekki árangur og var skipstjóranum á Víkingi gert að fresta siglingunni um tvo daga á meðan hvarfið væri rannsakað. Eftir þessa tvo daga hafði Hjörtur ekki komið í leitirnar og fékk skipstjóri þá heimild til að sigla. Víkingur sigldi þá til Íslands og kom til Seyðisfjarðar í byrjun marsmánaðar.

Hjörtur var fimmtugur að aldri, ókvæntur og barnlaus. Hann var talinn hið mesta prúðmenni og hafði oft verið gerður að formanni á bátum. Skipverjunum þótti ósennilegt að Hjörtur hefði fallið í höfnina og drukknað. Hann var fimmtugur og vanur sjómaður og auk þess var skipið svo fast við bryggjuna að maður hefði varla getað fallið á milli skips og bryggju. Auk þess töldu þeir útilokað að Hjörtur hefði fyrirfarið sér, ekkert hefði bent til þess í fari hans.

Skipverjar leituðu til sýslumannsins á Seyðisfirði og óskaði hann eftir því við stjórnarráð Íslands að frekari rannsókn yrði gerð á málinu ytra. Var áfram leitað í Aberdeen en 8. mars barst íslenskum yfirvöldum skeyti um að leitin væri árangurslaus. Ekkert fréttist af Hirti Bjarnasyni.

 

Stungu varðskipið af

Hjörtur Bjarnason var ekki ókunnugt nafn í Aberdeen því fjórum árum síðar kom það upp í tengslum við veiðiþjófnað, mannrán og milliríkjatogstreitu. Það var hins vegar alnafni Seyðfirðingsins og sjómaður frá Ísafirði sem lék stórt hlutverk í þeim átökum.

Laugardaginn 17. maí árið 1947 var togarinn Ben Heilem frá Aberdeen á ólöglegum veiðum við Íslandsstrendur. Í maí gómuðu skipverjar á varðskipinu Finnbirni hann undan Mýrartanga á Suðurlandi. Háseti að nafni Hjörtur Bjarnason, 34 ára gamall Ísfirðingur, var settur um borð í Ben Heilem og pappírar gerðir upptækir. Þá var skipstjóranum, Henry Bowman, skipað að sigla rakleiðis til Vestmannaeyja þar sem átti að gera málið upp. Finnbjörn átti einnig að fylgja togaranum skoska þangað.

En á leiðinni þurftu varðmennirnir á Finnbirni að hafa afskipti af tveimur íslenskum skipum og töfðust þeir við að elta annað þeirra. Þá notaði skoski skipstjórinn tækifærið og sigldi burt, með Hjört um borð. Þegar varðskipið kom að landi í Vestmannaeyjum kannaðist enginn við skoskan togara þar.

Íslendingar sendu flugvél til að leita að Ben Heilem en skyggni var slæmt og fannst hann því ekki. Þá höfðu íslensk stjórnvöld samband við bresk þar sem talið var að togarinn væri á leið til Bretlands. Skipstjóri bresks varðskips reyndi að ná talstöðvarsambandi við Bowman en allt kom fyrir ekki. Brýndu þá íslensk stjórnvöld fyrir Bretum að Ben Heilem yrði tafarlaust siglt aftur til Íslands og að Bowman myndi svara til saka fyrir veiðiþjófnað og mannrán.

 

Hirti skilað
Úr skosku dagblaði.

Miklir hagsmunir

Þriðjudaginn 20. maí kom Ben Heilem að höfn í Aberdeen en þar biðu yfirvöld eftir honum. Ræðismaður Íslands var þar einnig og gekk um borð í skipið til að tala við Bowman. Sagðist Bowman þá hafa orðið viðskila við íslenska varðskipið í myrkri og ákveðið að halda til heimahafnar.

Voru þessar skýringar ekki teknar gildar þar sem togarinn var tekinn snemma morguns og bjart úti. Auk þess hefði Hjörtur geta leiðbeint skipstjóranum að Eyjum. Fékk ræðismaðurinn þær upplýsingar frá breskum yfirvöldum að skipið yrði sent til Íslands og Bowman látinn svara til saka.

Hjörtur var hins vegar ekki látinn bíða eftir því heldur fékk hann far með skipinu Björnefjell og kom til Íslands í byrjun júní. Þó að hann hafi verið fórnarlamb mannráns sagði hann að fyllstu kurteisi hefði verið gætt á leiðinni til Skotlands og honum ekki orðið meint af.

Málið vakti mikla athygli hér á landi og í Aberdeen og var mikið fjallað um það í blöðunum. Ekki er vitað hvort Bowman hafi verið dreginn til ábyrgðar í Bretlandi en skipið kom að minnsta kosti ekki aftur hingað til lands. Titringinn má að miklu leyti skýra út frá því að töluverðar samgöngur voru á milli Íslendinga og íbúa Aberdeen á þessum tíma. Til dæmis voru mörg íslensk fiskiskip smíðuð í borginni og því miklir hagsmunir í húfi.

Þessi tvö undarlegu mál vekja óneitanlega upp spurningar. Tveir íslenskir sjómenn með sama nafn lenda í hremmingum í sömu borg með aðeins fjögurra ára millibili. Gæti það verið ótrúleg tilviljun eða tengjast þau á einhvern hátt? Árið 1951 hefur nafnið Hjörtur Bjarnason verið vel þekkt nálægt höfninni í Aberdeen enda hafði það oft komið fram í dagblöðunum. Auk þess voru alnafnarnir tveir ekki ólíkir í útliti. Gæti hinn seyðfirski sjómaður mögulega hafa verið tekinn í misgripum fyrir hinn ísfirska og honum veittur miski vegna hins fyrra máls?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju

Dennis Rodman með yfirlýsingu eftir að dóttir hans varpaði sprengju
Fókus
Fyrir 2 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af

Kynlífsathöfnin sem Christina Aguilera fær ekki nóg af
Fókus
Fyrir 3 dögum

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“

Fyrsta stefnumótið var fyrir tíu árum á Litla-Hrauni: „Ég fór þarna út með hjartað í brókinni og stjörnur í augunum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Læknir svarar því hvort maður geti raunverulega fengið klamýdíu af líkamsræktartæki

Læknir svarar því hvort maður geti raunverulega fengið klamýdíu af líkamsræktartæki
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“