fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

TÍMAVÉLIN: Geðveikur hermaður hefndi Abrahams Lincoln

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 29. september 2018 20:00

Boston Corbett Hattagerðarmaður og predikari.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Flestir þekkja nafn Jacks Ruby, skemmtistaðaeigandans sem skaut Lee Harvey Oswald, meintan banamann Bandaríkjaforsetans Johns F. Kennedy. Færri þekkja nafn Bostons Corbett sem skaut John Wilkes Booth, morðingja Abrahams Lincoln, tæpri öld fyrr. Corbett, sem var dáti í Norðurríkjahernum, var andlega vanheill og hafði til dæmis klippt undan sér kynfærin með skærum. Hann hvarf eftir að hafa flúið af geðveikrahæli undir lok 19. aldar.

 

Hattargerð og trúarofstæki

Thomas Corbett var Breti, fæddur í Lundúnum árið 1832, og flutti með fjölskyldu sinni til New York aðeins sjö ára gamall. Líf hans virtist ætla að verða hefðbundið, hann lærði hattagerð og kvæntist. Skömmu síðar varð kona hans þunguð en þá tók lífið skarpa beygju.

Bæði kona Corbett og barnið létust í fæðingunni og hann leitaði í flöskuna til sálusorgunar. Hann flutti til Boston en hélst ekki í vinnu og varð að lokum heimilislaus. Eina nótt, þar sem Corbett drakk úr sér allt vit, mætti honum predikari úti á götu. Hann var meþódisti og sannfærði Corbett um að mæta á samkomu.

Corbett snarhætti að drekka, mætti í kirkjuna og var skírður í hinum nýja sið. Tók hann þá upp nafni Boston Corbett eftir nýju heimaborg sinni. Corbett tók trúna mjög alvarlega, svo alvarlega að hann reyndi að líkja eftir Jesú Kristi, bæði í hegðun og útliti. Corbett lét ekki staðar numið við að iðka trúna heldur tók hann þátt í að útbreiða hana á götum úti. Varð hann því götupredikari í frítíma sínum og þekktur í borginni sem trúarlegur ofstopamaður.

Meþódisti
Vildi líkja eftir Jesú í hegðun og útliti.

Klippti undan sér

Árið 1857 var hann aftur kominn í vinnu við hattagerð og þótti bæði duglegur og flinkur. Stundum töfðust verkin hjá honum þar sem hann eyddi miklum tíma í bænir. Á þessum tíma notuðu hattagerðarmenn kvikasilfurblöndur til að verka dýrafeldi. Seinni tíma rannsóknir hafa sýnt fram á að innöndun kvikasilfurs getur leitt til geðveiki og hafa fræðimenn leitt að því líkur að það hafi einmitt verið raunin í tilfelli Corbett.

Corbett átti til dæmis í mestu erfiðleikum með sjálfan sig ef hann mætti vændiskonum á götum úti. Í eitt skipti, árið 1858, mætti hann tveimur vændiskonum á götu úti sem falbuðu sig og fór hann rakleiðis heim til sín til að lesa Biblíuna. Hann sá fram á að hann gæti bugast og syndgað frammi fyrir guði sínum. Því greip hann til þess ráðs að klippa kynfæri sín af með skærum til að koma í veg fyrir slíka ósvinnu. Eftir aðgerðina fór hann rólegur á bænafund í kirkjunni sinni og síðan til læknis.

 

Dæmdur til dauða

Vorið 1861 braust út borgarastyrjöldin í Bandaríkjunum milli norðurs og suðurs, seinna þekkt sem þrælastríðið. Corbett skráði sig í herinn eins og margir ungir menn en hann skildi trúna ekki eftir heima. Hann las úr ritningunni fyrir aðra hermenn og skammaði þá ef þeir hegðuðu sér ókristilega. Varð hann því snemma mjög óvinsæll, bæði hjá yfirmönnum sínum og jafningjum. Í júní árið 1863 neitaði Corbett að hlýðnast skipunum og var hann dæmdur til dauða. Sá dómur var hins vegar mildaður í brottrekstur úr hernum.

Rúmu ári síðar skráði Corbett sig á ný í herinn en var þá handsamaður af Suðurríkjamönnum. Hann dvaldi í fimm mánuði í fangabúðum uns hann var látinn laus eftir fangaskipti. Þegar hann sneri aftur norður fór hann rakleiðis á spítala, vannærður og með skyrbjúg. Hann hélt svo herþjónustunni áfram og var meira að segja hækkaður í tign.

 

John Wilkes Booth
Leikarinn sem myrti Abraham Lincoln.

Hetjan sem skaut morðingja forsetans

Vorið 1865 var þrælastríðið að lognast út af og ljóst að Norðurríkin myndu hafa sigur. Abraham Lincoln, forsetinn sem hafði haldið landinu saman, þurfti þó að gjalda fyrir það með lífi sínu. Þann 14. apríl var hann skotinn í leikhúsi í Washington af leikaranum John Wilkes Booth, sem studdi Suðurríkin, og lést hann morguninn eftir.

Herdeild Corbett var nálægt og fékk hún það hlutverk að handsama Booth og samverkamenn hans. Þann 26. apríl höfðu Corbett og félagar umkringt tilræðismennina við tóbaksgeymslu í Virginíu-fylki. Booth neitaði að gefast upp og var því eldur borinn að geymslunni. Corbett gekk svo upp að rifu á bakhlið geymslunnar og sá Booth. Hann beindi Colt-skammbyssu sinni inn um rifuna og skaut Booth í hnakkann. Booth lifði í tvo klukkutíma eftir það.

Corbett var dreginn fyrir herrétt þar sem yfirmaður hans hafði skipað mönnum sínum að ná Booth lifandi. Corbett sagði hins vegar að hann hefði skotið Booth til að bjarga lífum annarra úr herdeildinni, Booth hefði verið vopnaður og aldrei gefist upp lifandi. Málinu var ekki haldið til streitu og Corbett gekk út til mannfjölda sem fagnaði honum.

 

Dularfullt hvarf

Eftir stríðið tók Corbett upp fyrri iðju hattagerðar og predikunar og hafði hegðun hans ekkert breyst. Í eitt skipti hélt hann fyrirlestur um drápið á Booth en vegna þess hversu æstur og ruglaður hann var þá var hann ekki beðinn um að halda slíkan fyrirlestur aftur.

Tímarnir eftir stríðið einkenndust af biturleika sunnanmanna og létu sumir Corbett ekki í friði. Hann lenti stöðugt í rifrildi og fékk hatursfull bréf heim til sín. Þess vegna gekk hann alltaf um vopnaður eftir stríð.

Síðustu árin einkenndust af miklu ofsóknarbrjálæði og um tíma var hann vistaður á hæli. Hann slapp hins vegar af hælinu og sagðist ætla að ríða til Mexíkó. Ekkert er hins vegar vitað um afdrif hans eftir þetta en sumir telja að Corbett hafi látist í eldsvoða í Minnesota árið 1894.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna

Sniglasúpan tryggði Einari Leif Gaddakylfuna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024

Valin nettustu heyrnartólin fyrir heimavinnu 2024